Fólk hefur verið að deyja svolítið undanliðin ár. Nú er ég ekki að tala um faraldurinn, þó að sannarlega spili hann inn í, og jú, líklega hefur hann haft sitt að segja um þennan hraða, auðvitað gerir hann það. David Graeber, mannfræðingur, hann dó víst úr Covid. Mér var á vissan hátt létt að heyra það, því ég hafði tekið því þannig að hann hefði fyrirfarið sér, og því fylgdi önnur þyngd. Graeber var baráttumaður, anarkisti, og því fylgir þetta gramm af vonleysi, þegar fólk sem maður lítur á sem bandamenn, að einhverju leyti, á einn eða annan hátt, pakka saman og kveðja. Ekki að hver og einn hafi ekki rétt á því, þetta er hvorki til að úthluta ásökun né skömm, því fylgir bara ákveðin þyngd.
En fólk hefur verið að deyja. Það var ekki óvænt að Jean-Luc Godard skyldi falla frá, hann var orðinn 91 árs, það er fullt. Hann ákvað að fara, segir sagan, fékk það sem nú kallast dánaraðstoð og virðist ein helsta von kapítalismans um nýsköpun á síðustu árum. Slík þjónusta er víst lögleg í Sviss. Þetta kom mér við á þann hátt að ég lagðist einu sinni yfir verk hans, eða ákveðinn hluta þeirra, og skrifaði um þau meistararitgerð. Á þann hátt hef ég varið tíma með honum, þó að ég hafi aldrei þekkt hann persónulega, ekki frekar en Graeber.
Líklega er aðeins auðveldara að tala um dauðsföll þeirra sem maður þekkti ekki persónulega. Líklega er ég í reynd með hugann við eitthvert annað fólk en það sem ég nefni hér, og líklega er það þess vegna.
Það var leitt að Graeber skyldi hverfa frá í miðju verki, hann hefði að öllu jöfnu átt að minnsta kosti tvo eða þrjá áratugi eftir, það sem hann lauk við var magnað en samt eins og undanfari, ég beið eftir því sem var í vændum. Það var auðvitað ekki tilfellið með Godard, sem lauk nokkrum ævistörfum.
Þegar fólk hverfur frá sem ég hef varið tíma með á þennan hátt, gegnum verkin þeirra, þegar þau tínast burt, eitt af öðru, finnst mér ég minntur á staðsetningu mína á þessu færibandi frá vöggu til grafar. Á einhverjum tímapunkti fer að blasa við að það eru fleiri fyrir aftan mann en fyrir framan. Fleiri jarðarbúar fæddir eftir að ég sjálfur fæddist en áður. Mér finnst það forvitnileg tímamót, jafnvel eitthvað sem mætti reikna út fyrir fólk og fagna, eins og maður fagnar öðrum hörmungum.1 Ætli það sé ekki einhvern tíma um miðjan aldur, ætli ég standi ekki í grennd við þá markalínu um þessar mundir.
Oe fór um daginn. Það var ekki óvænt heldur.
Og Eiríkur Guðmundsson dó. Það var óvænt. Og mikið var það leitt. Ég þekkti hann meira eins og höfundana hér að ofan en persónulega. Ég þekki ekki verk þeirra til hlítar. En ég hef valið að verja nokkrum tíma með tilteknum verkum þeirra allra og fundið þar eitthvað sem skipti mig máli. Þegar ég var að hefja háskólanám og þess háttar, upp úr tvítugu, þá var það Eiríkur sem sýndi í verki að það væri hægt, og að það tæki því, að hugsa í almannarými. Líklega má orða það betur, en þetta er það skásta sem mér dettur í hug hér og nú. Pistlar Eiríks í Víðsjá, sem hann flutti nær daglega frá því um aldamót, voru eitthvað sem ég hafði aldrei heyrt áður. Ekki það, að margt var nýtt fyrir mér á þessum tíma, ég hafði ekki áður vanist því að hlusta á Rás 1 með sjálfum mér, fram yfir unglingsárin þekkti ég hana fyrst og fremst sem hljóðið heima hjá ömmu og afa. En eftir tvítugt leigði ég íbúðarkytru í Vesturbænum. Tveggja herbergja, 20 fermetra kjallarahola með eldhúskrók í stofunni, sturtu í sameiginlega þvottahúsinu. Lífið var enn í línulegri dagskrá og síðdegis lagði ég mig fram um að liggja þarna í stofunni minni, í þeim allra fyrsta sófa sem enginn hafði afnot af nema ég sjálfur, þegar Víðsjá var á dagskrá. Menningarumfjöllunin fylgdi með, ég þáði hana og hafði áreiðanlega gott af henni, en ég hlustaði til að heyra Eirík flytja pistilinn. Hann var svo góður. Það var galdur í honum sem gerði veröldina fyrir utan gluggann, og veröldina fyrir innan hina gluggana, allt sem fram fór í stofnunum borgarinnar, áhugaverða. Á hverjum einasta degi.
Pistlahöfundurinn í Víðsjá gerði hversdagsleikann að viðfangsefni hugsunar – nei, hann arkaði gegnum hversdagsleikann, gegnum allt landsins banalitet, hugsandi á tveimur fótum, ljóðrænt með hægri, heimspekilegt með vinstri – nei, það voru skammhlaupin í skrefunum, skammhlaupin milli sviða, einhver sagði að gildi hugsunar mætti mæla í fjarlægðinni á milli tveggja mynda, pistlahöfundurinn í Víðsjá kunni að skammhleypa milli svo fjarlægra mynda – en nei, það var ekki nein þess háttar ígrundun um hvað hann væri að gera sem kitlaði mig. Efnið gerði það bara sjálft. Og flutningurinn sjálfur. Orðin. Þau var opnun. Þau virkuðu án þess að ég vissi hvers vegna þau virkuðu. Í dag man ég ekkert af þessum pistlum efnislega, ég man bara hughrifin, gleðina, að það að hlusta var svolítið eins og að vera á tónleikum, bíða spenntur eftir næsta tóni, næsta trommuslætti, allt til enda lags.
Það hefði eitt og sér verið nóg til að þykja leitt að heyra að maðurinn hefði dáið langt fyrir aldur fram. En svo átti ég sjálfur kynni af honum líka. Þegar ég ákvað að verja þriðja vetri grunnnámsins í skiptinám hafði ég samband við Eirík og bar mig fram sem pistlahöfund. Þetta var óforskammað, ég var 23 ára og ég hafði alveg áreiðanlega ekki jafn margt fram að færa og ég taldi sjálfur. En Eiríkur sagði já, heyrðu, gerðu það. Og fimm eða sex eða sjö sinnum létum við okkur hafa það, eftir að ég fór út. Við mæltum okkur mót, líklega gegnum tölvupóst, ákváðum hvenær ég skyldi hringja, sem ég gerði svo í símaklefum, keypti inneignarkort fyrir ódýr millilandasímtöl, hringdi í Efstaleiti og bað um samband við hljóðverið þar sem Eiríkur var þá tilbúinn með tæknimanni, til að heyra hvaða uppgötvanir ég hefði gert frá því síðast. Í gegnum þær brakandi símalínur gömlu aldarinnar.
Eiríkur var um áratug eldri en ég. Við þekktumst aldrei að ráði, rákumst á hér og þar en kynntumst ekki fyrir utan þetta. En mér þótti mikið til hans koma. Að skyldfólki frátöldu veit ég ekki hvort mér hafi þótt jafn leitt að missa nokkurn lesanda. Ég veit ekki hvort Eiríkur var læs á allt, en mér, sem verð alla tíð 23 ára strákur andspænis myndinni af honum, mér virtist hann vera það. Og það sem hann sagði ekki upphátt, það sem hann var of vinsamlegur til að segja upphátt, það lá svo skýrt milli línanna, maður þáði þær aðfinnslur, um þær yrði ekki deilt. Ég hefði mjög gjarnan viljað heyra hann færa það í orð áfram hvað honum þætti gott og hvað ekki, í mínum verkum og annarra. Héðan í frá liggur það allt milli línanna.
Takk, vildi ég segja.
↑1 | Að fagna hörmungum, ég á ekki við þórðargleði, að hlakka yfir óförum sín eða annarra, heldur bara þetta meginviðmið í öllum veisluhöldum, að breiða yfir vondar fréttir með sykri eða öðrum þartilheppilegum efnum. Ferming er að segja skilið við bernskuna, afmæli að þokast nær dauðanum, og svo framvegis. Þá þarf sykur. Allur fögnuður er þannig atriði í sorgarferli. |
---|