Í fyrsta lagi hversu hátt hlutfall þess sem er að frétta er nú það sama hjá fólki, ekki bara í allri borginni, í öllu landinu, í allri álfunni, heldur í öllum heiminum. Þetta hlutfall snarhækkaði líklega með Covid – og þó að tiltölulega fáum þyki kannski Covid vera á meðal þess sem nú er að frétta, þá stendur þetta eftir og er nokkuð áberandi. Hvað er að frétta? ChatGPT. Bing. Gervigreind yfirleitt. Úkraína. Google Bard. Pútín sagði eitthvað. Sagði ég gervigreind?
Hvað er að frétta? Verðbólga. Banki féll. Hnötturinn hlýnar. Síðustu forvöð.
En kannski er þetta bara Reykjavík, ég hef verið hér frá því að faraldurinn hófst, til eru borgir þar sem fleira er stundum að frétta fyrir utan gluggann hjá manni. Hér gerist ekki margt bókstaflega fyrir utan gluggann. Ekki í þessu veðri, allavega. Nema auðvitað veðrið.
Í öðru lagi: um leið og það sem er að frétta er fullkomlega glóbalt, alls staðar í einu, þá eru fréttirnar sagðar brotakennt – sumar. Sumar fréttirnar eru sagðar í molum, eins og þær sé bara að frétta hér. Þær sem eru sagðar yfirleitt. Frá Kanada les ég tíst:
Blandað ónæmi (bólusetningar og smits) er talað upp og því fagnað án þess að nokkur minnist á að til að ná því þurftu 20.000 Kanadamenn að deyja árið 2022 (banvænasta ár faraldursins í landinu), 1,4 milljónir að fá long covid, og spítalarnir að venjast því að starfa varanlega á barmi þess að hrynja.
Þetta gæti verið íslenskt tíst, með öðrum tölum. Og þetta gæti áreiðanlega líka verið belgískt tíst eða danskt eða breskt, hvað veit ég. Ef til er vilji til samhengisleysis, þráin eftir samhengisleysi, þá er einhver óvæntasti og furðulegasti sigur þess vilja sú niðurstaða að heimsfaraldur sé eitthvað sem við höldum innan fjölskyldunnar.
Þegar ég byrjaði að slá þetta inn hélt ég að þetta væru ótengdar og sundurlausar staðreyndir, bloggfærslan yrði samtíningur. Svo reyndust þær bara vera tvær og standa í svona snyrtilegu samhengi hvor við aðra, þegar á reyndi.