Stað­reyndir á þvæl­ingi um stof­una mína

21.3.2023 ~ 2 mín

Í fyrsta lagi hversu hátt hlut­fall þess sem er að frétta er nú það sama hjá fólki, ekki bara í allri borg­inni, í öllu land­inu, í allri álfunni, heldur í öllum heim­inum. Þetta hlut­fall snar­hækk­aði líklega með Covid – og þó að tiltölu­lega fáum þyki kannski Covid vera á meðal þess sem nú er að frétta, þá stendur þetta eftir og er nokkuð áber­andi. Hvað er að frétta? Chat­GPT. Bing. Gervi­greind yfir­leitt. Úkraína. Google Bard. Pútín sagði eitt­hvað. Sagði ég gervigreind?

Hvað er að frétta? Verð­bólga. Banki féll. Hnött­ur­inn hlýnar. Síðustu forvöð.

En kannski er þetta bara Reykja­vík, ég hef verið hér frá því að farald­ur­inn hófst, til eru borgir þar sem fleira er stundum að frétta fyrir utan glugg­ann hjá manni. Hér gerist ekki margt bókstaf­lega fyrir utan glugg­ann. Ekki í þessu veðri, alla­vega. Nema auðvitað veðrið.

Í öðru lagi: um leið og það sem er að frétta er full­kom­lega glóbalt, alls staðar í einu, þá eru frétt­irnar sagðar brota­kennt – sumar. Sumar frétt­irnar eru sagðar í molum, eins og þær sé bara að frétta hér. Þær sem eru sagðar yfir­leitt. Frá Kanada les ég tíst:

Blandað ónæmi (bólu­setn­ingar og smits) er talað upp og því fagnað án þess að nokkur minn­ist á að til að ná því þurftu 20.000 Kanada­menn að deyja árið 2022 (banvæn­asta ár farald­urs­ins í land­inu), 1,4 millj­ónir að fá long covid, og spít­al­arnir að venj­ast því að starfa varan­lega á barmi þess að hrynja.

Þetta gæti verið íslenskt tíst, með öðrum tölum. Og þetta gæti áreið­an­lega líka verið belg­ískt tíst eða danskt eða breskt, hvað veit ég. Ef til er vilji til samheng­is­leysis, þráin eftir samheng­is­leysi, þá er einhver óvænt­asti og furðu­leg­asti sigur þess vilja sú niður­staða að heims­far­aldur sé eitt­hvað sem við höldum innan fjölskyldunnar.

Þegar ég byrj­aði að slá þetta inn hélt ég að þetta væru ótengdar og sund­ur­lausar stað­reyndir, blogg­færslan yrði samtín­ingur. Svo reynd­ust þær bara vera tvær og standa í svona snyrti­legu samhengi hvor við aðra, þegar á reyndi.