Ég las frábæra bók á dögunum, Merkingu eftir Fríðu Ísberg. Svona saxast hægt og bítandi á bækur liðinna jóla, eina í einu. Burtséð frá öllu sem er vel hugsað í bókinni og svo framvegis, þá hef ég sjaldan séð jafn vel haldið á metafórum. Höfundur fer sparlega með þær en þegar þær birtast þá eru þær alltaf til að lyfta textanum svo maður fær áþreifanlega tilfinningu fyrir einhverju sem er annars alls ekki áþreifanlegt. Að það skammhlaup sem verður í tíma þegar maður hittir einhvern sem var nákominn manni fyrir löngu síðan sé eins og þegar maður brýtur saman lak og fjarlægustu hornin á því mætast – þetta er bara fullkomið.
En það sem er fullkomið í fari verks er auðvitað ekki það sem er áhugaverðast við það. Það sem mig langar að segja er ekki hugsað sem gagnrýni á verkið, en kannski samtal við það. Spjall. Þó er kannski einfaldast að kalla það bara innsýn sem verkið skerpti. Það voru kosningarnar. Söguþráður bókarinnar, sem margir þekkja, snýst um innleiðingu á eins konar sálrænu öryggiskerfi, að stjórnvöld haldi gagnagrunn um getu fólks til að sýna öðrum samkennd. Fólk með samkennd fær að vera með á öllum sviðum samfélagsins, fólk sem skortir hana er útilokað frá hinu og þessu. Innleiðing þessa kerfis, hins vegar, veltur á niðurstöðu kosninga. Hvort kosið er um kerfið sjálft í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvort kosið er milli flokka með ólíka afstöðu til þess varð mér ekki ljóst og skiptir ekki öllu máli: það eru haldnar kosningar sem snúast um þetta mál, og annað hvort verður kerfið þá innleitt eða ekki.
Það var eitthvað sem truflaði mig við þetta, ég þurfti að leggja bókina frá mér til að glöggva mig á því. Og þá rann það upp fyrir mér: engin öryggismál hafa nokkurn tíma verið háð niðurstöðu kosninga. Lögreglan er eldri en lýðveldið, um hana hefur aldrei verið kosið. Yfirstandandi vopnavæðing lögreglunnar hefur marserað áfram skref fyrir skref án þess að verða nokkurn tíma viðfangsefni kosninga. Ísland gekk í NATO án kosningar, hingað kom her án kosningar, og þegar herstöðvarandstæðingar komust loks í ríkisstjórn beittu þeir sér ekki, á þeim vettvangi, gegn herstöðinni. Embætti sóttvarnarlæknis varð ekki til á grundvelli kosningaloforðs, sóttvarnaraðgerðir urðu ekki deilumál í kosningum, og embættið var loks afbyggt án þess að nokkur hefði orð á því í kosningabaráttu.
Ég held að það mætti halda svona áfram, listinn er áreiðanlega lengri og nær til fleiri grundvallaratriða, en mér sýnist að allt sem telst til öryggismála, varnarmála, löggæslu og svo framvegis, hafi alla tíð farið fram hjá kosningaferlinu í þessu landi. Sem er svolítið merkilegt, því þetta eru ekki veigalítil mál. Þau eru þá ákveðin eftir öðrum ferlum, með einhvers konar lobbíisma og einhvers konar samkomulagi, pólitík, ekki í lýðræðislegum skilningi, heldur í skilningi konungshalla og konungshirða, þar sem hópar togast á um mikilvæg viðfangsefni á bakvið tjöldin og þykja þau ekki koma almenningi mikið við.
Þannig er lúmsk fjarstæða í dæmisögunni sem bókin segir. Það er ekki löstur á henni, enda snýst hún um allt annað. En forvitnilegt, finnst mér. Hvað það er í starfsemi ríkja sem fær að vera háð afstöðu almennings og hvað ekki. Og hvað í starfsemi þessa tiltekna ríkis. Ég man reyndar ekki alveg hvað var kosið um í síðustu kosningum. En ég veit að sumar afdrifaríkustu ákvarðanir ríkisstjórnarinnar hafa til þessa snúist um hernað, heimsfaraldur og vopnaburð lögreglunnar. Og ekkert þeirra var kosningamál. Það yrði ný aðskilnaðarstefna alveg áreiðanlega ekki heldur, hún færi aðrar leiðir.