Öryggi

25.3.2023 ~ 3 mín

Ég las frábæra bók á dögunum, Merk­ingu eftir Fríðu Ísberg. Svona saxast hægt og bítandi á bækur liðinna jóla, eina í einu. Burt­séð frá öllu sem er vel hugsað í bókinni og svo fram­vegis, þá hef ég sjaldan séð jafn vel haldið á meta­fórum. Höfundur fer spar­lega með þær en þegar þær birt­ast þá eru þær alltaf til að lyfta text­anum svo maður fær áþreif­an­lega tilfinn­ingu fyrir einhverju sem er annars alls ekki áþreif­an­legt. Að það skamm­hlaup sem verður í tíma þegar maður hittir einhvern sem var nákom­inn manni fyrir löngu síðan sé eins og þegar maður brýtur saman lak og fjar­læg­ustu hornin á því mætast – þetta er bara fullkomið.

En það sem er full­komið í fari verks er auðvitað ekki það sem er áhuga­verð­ast við það. Það sem mig langar að segja er ekki hugsað sem gagn­rýni á verkið, en kannski samtal við það. Spjall. Þó er kannski einfald­ast að kalla það bara innsýn sem verkið skerpti. Það voru kosn­ing­arnar. Sögu­þráður bókar­innar, sem margir þekkja, snýst um innleið­ingu á eins konar sálrænu öryggis­kerfi, að stjórn­völd haldi gagna­grunn um getu fólks til að sýna öðrum samkennd. Fólk með samkennd fær að vera með á öllum sviðum samfé­lags­ins, fólk sem skortir hana er útilokað frá hinu og þessu. Innleið­ing þessa kerfis, hins vegar, veltur á niður­stöðu kosn­inga. Hvort kosið er um kerfið sjálft í beinni þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu eða hvort kosið er milli flokka með ólíka afstöðu til þess varð mér ekki ljóst og skiptir ekki öllu máli: það eru haldnar kosn­ingar sem snúast um þetta mál, og annað hvort verður kerfið þá innleitt eða ekki.

Það var eitt­hvað sem trufl­aði mig við þetta, ég þurfti að leggja bókina frá mér til að glöggva mig á því. Og þá rann það upp fyrir mér: engin örygg­is­mál hafa nokk­urn tíma verið háð niður­stöðu kosn­inga. Lögreglan er eldri en lýðveldið, um hana hefur aldrei verið kosið. Yfir­stand­andi vopna­væð­ing lögregl­unnar hefur marserað áfram skref fyrir skref án þess að verða nokk­urn tíma viðfangs­efni kosn­inga. Ísland gekk í NATO án kosn­ingar, hingað kom her án kosn­ingar, og þegar herstöðv­ar­and­stæð­ingar komust loks í ríkis­stjórn beittu þeir sér ekki, á þeim vett­vangi, gegn herstöð­inni. Embætti sótt­varn­ar­læknis varð ekki til á grund­velli kosn­ingalof­orðs, sótt­varn­ar­að­gerðir urðu ekki deilu­mál í kosn­ingum, og embættið var loks afbyggt án þess að nokkur hefði orð á því í kosningabaráttu.

Ég held að það mætti halda svona áfram, list­inn er áreið­an­lega lengri og nær til fleiri grund­vall­ar­at­riða, en mér sýnist að allt sem telst til örygg­is­mála, varn­ar­mála, löggæslu og svo fram­vegis, hafi alla tíð farið fram hjá kosn­inga­ferl­inu í þessu landi. Sem er svolítið merki­legt, því þetta eru ekki veiga­lítil mál. Þau eru þá ákveðin eftir öðrum ferlum, með einhvers konar lobbí­isma og einhvers konar samkomu­lagi, póli­tík, ekki í lýðræð­is­legum skiln­ingi, heldur í skiln­ingi konungs­halla og konungs­hirða, þar sem hópar togast á um mikil­væg viðfangs­efni á bakvið tjöldin og þykja þau ekki koma almenn­ingi mikið við.

Þannig er lúmsk fjar­stæða í dæmi­sög­unni sem bókin segir. Það er ekki löstur á henni, enda snýst hún um allt annað. En forvitni­legt, finnst mér. Hvað það er í starf­semi ríkja sem fær að vera háð afstöðu almenn­ings og hvað ekki. Og hvað í starf­semi þessa tiltekna ríkis. Ég man reyndar ekki alveg hvað var kosið um í síðustu kosn­ingum. En ég veit að sumar afdrifa­rík­ustu ákvarð­anir ríkis­stjórn­ar­innar hafa til þessa snúist um hernað, heims­far­aldur og vopna­burð lögregl­unnar. Og ekkert þeirra var kosn­inga­mál. Það yrði ný aðskiln­að­ar­stefna alveg áreið­an­lega ekki heldur, hún færi aðrar leiðir.