Frá því ég man eftir mér dúkkaði þetta orðalag endrum og eins upp kollinum, þegar einhver þótti mjög vafasamur gaur, að „hann myndi selja ömmu sína“ ef eitthvað og eitthvað. Ef tilefni væri til. Eitthvað á því græðandi. Nú heyrist það líklega ekki í bráð, eftir að þetta samfélag hélt eins konar brunaútsölu á ömmum sínum og öfum.
Í gær, 15. mars 2023, var lýst yfir Long Covid Awareness Day. Ég veit ekki hvaðan hugmyndin kom, átakið birtist mér aðallega sem myllumerki með frásögnum fólks af veikindum sínum, #longcovidawarenessday. Sama dag aflétti Landspítalinn öllum vörnum vegna faraldursins. Engin ráðstöfun verður lengur gerð til að koma í veg fyrir að fólk sem þangað leitar, oftast vegna veikinda, veikist á nýjan leik við heimsóknina. Þrátt fyrir áframhaldandi dauðsföll. Og þrátt fyrir að fram komi í frétt RÚV um þá ákvörðun: „Þau sem þurfa innlögn vegna covid verða þó áfram mikið veik og eru lengi að jafna sig. Heilsubágir og aldraðir veikjast mest.“ Þetta orðalag, „Heilsubágir og aldraðir“, það eru þau sem við nefndum áður „viðkvæma hópa“ og sagt var að yrði lögð sérstök áhersla á að vernda. En hér er eins og orðalagið sé ekki notað til að vekja samúð eða samstöðu. Þvert á móti virðist varla hægt að lesa það öðruvísi, í ljósi fréttarinnar, en því sé ætlað að virkja skeytingarleysi lesenda. Orðið sem liggur milli línanna er bara: það eru bara heilsubágir og aldraðir sem veikjast mest.
Mikið er það andstyggileg þróun samfélags, að kenna sjálfu sér að standa á sama um hvern sem má merkja með þeim hætti. Standa á sama, nei, við göngum lengra. Ég veit ekki hvort þetta samfélag hefur áður gefist upp andspænis áskorun af jafn mikilli ákefð. Eða eru miklar ýkjur að segja að við höfum nú leyft veirunni að breyta sjúkrahúsi úr miðstöð lækninga í darwinískan dómstól? Að með viðvarandi smithættu þar inni leiti nú tiltölulega hraustir þangað til að verða hraustari en „heilsubágir og aldraðir“ til að láta hraða sér í moldina?
Þrettán dóu af völdum faraldursins í janúar. Öll gögn og allar fréttir gefa til kynna að hérumbil þannig munum við halda áfram. Þrettán á mánuði, 160 á ári, 7–8% fjölgun allra dauðsfalla og fyrirséð stytting á lífslíkum í samræmi við það. Langstærstu náttúruhamfarir sem hafa gengið yfir þetta land í hundrað ár. Eða langalvarlegasta slysið. Og það heldur bara áfram. Það sama á við, að breyttu breytanda, um öll Vesturlönd. Að innræta samfélögum að standa á sama um annað eins, að þau taki höndum saman um að láta það ekki trufla sig, mestu skipti að láta eins og ekkert sé, ég held að það viti ekki á gott. Um öldina framundan. Um eðlilegt líf. Um geðheilsu fólks, um sálarheill okkar eða samfélagsgerð. Það veldur holum hljómi í annars eðlilegri, jafnvel mikilvægri hluttekningu vegna smærri mála. Hvaða smærri mála? Til dæmis átakanna í Úkraínu. Innrásin er stórmál. En í samanburði við faraldurinn er hún það ekki. Í Úkraínu búa um hundraðfalt fleiri en á Íslandi. Í janúar féllu 177 af völdum innrásarinnar. Sem hlutfall af mannfjölda eru það sjöfalt færri en dóu af völdum Covid hér. Það á við um allan tímann frá upphafi innrásarinnar, faraldurinn hefur verið margfalt mannskæðari.
Munurinn á þessum tveimur ógnum er auðvitað margvíslegur. Stríðsátök eru myndrænni, þjáningarnar ekki bara sýnilegri heldur fjölbreyttari. Þau valda ekki bara fjörtjóni heldur eignatjóni. Farsóttin veldur því ekki að hús hrynji eða vegir liðist í sundur. Það heyrist aldrei búmm í henni. Stríðsátök snúast um yfirráðasvæði. Ríki standa það af sér fólk deyi, þess vegna mjög margt fólk, en þau geta ekki látið því ósvarað að yfirráðum þeirra sé ógnað, yfirráðasvæði þeirra vanvirt. Veigamesti munurinn er þó kannski sá að á bakvið innrásina eru mannlegir gerendur, ríki, ráðamenn, hermenn – og forseti. Við kunnum að bregðast við þess háttar ógnum, við beinum byssum að þeim.
Kannski er það vegna þess hvað er holur hljómur í öllu sem við segjum um mannúð um þessar mundir að jafnvel Vinstri græn reyndust tilbúin, ekki bara að sitja hjá, heldur beinlínis kjósa með frumvarpi Jóns Gunnarssonar til útlendingalaga. Sama dag. 15. mars. Hvílíkur dagur. Enginn neyddi þau til þess, það er ekki hægt, hver og einn þingmaður ræður atkvæði sínu. Líklega voru þetta einhvers konar bítti, líklega telur þingflokkurinn sig fá eitthvað í gegn sem skiptir meira máli. Fleiri ruslatunnur, ég veit það ekki, það kom ekki fram.
Í fyrra fórnuðum við 400 manns, einkum ömmum og öfum, til að endurheimta túrista og djamm. Án þess að blikka auga. Og nú þurfum við að gæta samræmis. Það væri skammarlegt að gera ókunnugum hærra undir höfði. Hvað geta nokkrir útlendingar kostað? Tíu dali?
Nýir tímar. Runnir upp. Dagar hins herskáa skeytingarleysis. Megi þeir verða sem fæstir.