Þegar skeyt­ing­ar­leysi varð skylda

16.3.2023 ~ 4 mín

Frá því ég man eftir mér dúkk­aði þetta orða­lag endrum og eins upp koll­inum, þegar einhver þótti mjög vafa­samur gaur, að „hann myndi selja ömmu sína“ ef eitt­hvað og eitt­hvað. Ef tilefni væri til. Eitt­hvað á því græð­andi. Nú heyr­ist það líklega ekki í bráð, eftir að þetta samfé­lag hélt eins konar bruna­út­sölu á ömmum sínum og öfum.

Í gær, 15. mars 2023, var lýst yfir Long Covid Awar­eness Day. Ég veit ekki hvaðan hugmyndin kom, átakið birt­ist mér aðal­lega sem myllu­merki með frásögnum fólks af veik­indum sínum, #longcovi­dawar­eness­day. Sama dag aflétti Land­spít­al­inn öllum vörnum vegna farald­urs­ins. Engin ráðstöfun verður lengur gerð til að koma í veg fyrir að fólk sem þangað leitar, oftast vegna veik­inda, veikist á nýjan leik við heim­sókn­ina. Þrátt fyrir áfram­hald­andi dauðs­föll. Og þrátt fyrir að fram komi í frétt RÚV um þá ákvörðun: „Þau sem þurfa innlögn vegna covid verða þó áfram mikið veik og eru lengi að jafna sig. Heilsu­bágir og aldr­aðir veikj­ast mest.“ Þetta orða­lag, „Heilsu­bágir og aldr­aðir“, það eru þau sem við nefndum áður „viðkvæma hópa“ og sagt var að yrði lögð sérstök áhersla á að vernda. En hér er eins og orða­lagið sé ekki notað til að vekja samúð eða samstöðu. Þvert á móti virð­ist varla hægt að lesa það öðru­vísi, í ljósi frétt­ar­innar, en því sé ætlað að virkja skeyt­ing­ar­leysi lesenda. Orðið sem liggur milli línanna er bara: það eru bara heilsu­bágir og aldr­aðir sem veikj­ast mest.

Mikið er það andstyggi­leg þróun samfé­lags, að kenna sjálfu sér að standa á sama um hvern sem má merkja með þeim hætti. Standa á sama, nei, við göngum lengra. Ég veit ekki hvort þetta samfé­lag hefur áður gefist upp andspænis áskorun af jafn mikilli ákefð. Eða eru miklar ýkjur að segja að við höfum nú leyft veirunni að breyta sjúkra­húsi úr miðstöð lækn­inga í darw­in­ískan dómstól? Að með viðvar­andi smit­hættu þar inni leiti nú tiltölu­lega hraustir þangað til að verða hraust­ari en „heilsu­bágir og aldr­aðir“ til að láta hraða sér í moldina?

Þrettán dóu af völdum farald­urs­ins í janúar. Öll gögn og allar fréttir gefa til kynna að hérumbil þannig munum við halda áfram. Þrettán á mánuði, 160 á ári, 7–8% fjölgun allra dauðs­falla og fyrir­séð stytt­ing á lífs­líkum í samræmi við það. Lang­stærstu nátt­úru­ham­farir sem hafa gengið yfir þetta land í hundrað ár. Eða langal­var­leg­asta slysið. Og það heldur bara áfram. Það sama á við, að breyttu breyt­anda, um öll Vest­ur­lönd. Að innræta samfé­lögum að standa á sama um annað eins, að þau taki höndum saman um að láta það ekki trufla sig, mestu skipti að láta eins og ekkert sé, ég held að það viti ekki á gott. Um öldina framundan. Um eðli­legt líf. Um geðheilsu fólks, um sálar­heill okkar eða samfé­lags­gerð. Það veldur holum hljómi í annars eðli­legri, jafn­vel mikil­vægri hlut­tekn­ingu vegna smærri mála. Hvaða smærri mála? Til dæmis átak­anna í Úkraínu. Innrásin er stór­mál. En í saman­burði við farald­ur­inn er hún það ekki. Í Úkraínu búa um hund­rað­falt fleiri en á Íslandi. Í janúar féllu 177 af völdum innrás­ar­innar. Sem hlut­fall af mann­fjölda eru það sjöfalt færri en dóu af völdum Covid hér. Það á við um allan tímann frá upphafi innrás­ar­innar, farald­ur­inn hefur verið marg­falt mannskæðari.

Munur­inn á þessum tveimur ógnum er auðvitað marg­vís­legur. Stríðs­átök eru mynd­rænni, þján­ing­arnar ekki bara sýni­legri heldur fjöl­breytt­ari. Þau valda ekki bara fjörtjóni heldur eigna­tjóni. Farsóttin veldur því ekki að hús hrynji eða vegir liðist í sundur. Það heyr­ist aldrei búmm í henni. Stríðs­átök snúast um yfir­ráða­svæði. Ríki standa það af sér fólk deyi, þess vegna mjög margt fólk, en þau geta ekki látið því ósvarað að yfir­ráðum þeirra sé ógnað, yfir­ráða­svæði þeirra vanvirt. Veiga­mesti munur­inn er þó kannski sá að á bakvið innrás­ina eru mann­legir gerendur, ríki, ráða­menn, hermenn – og forseti. Við kunnum að bregð­ast við þess háttar ógnum, við beinum byssum að þeim.

Kannski er það vegna þess hvað er holur hljómur í öllu sem við segjum um mannúð um þessar mundir að jafn­vel Vinstri græn reynd­ust tilbúin, ekki bara að sitja hjá, heldur bein­línis kjósa með frum­varpi Jóns Gunn­ars­sonar til útlend­ingalaga. Sama dag. 15. mars. Hvílíkur dagur. Enginn neyddi þau til þess, það er ekki hægt, hver og einn þing­maður ræður atkvæði sínu. Líklega voru þetta einhvers konar bítti, líklega telur þing­flokk­ur­inn sig fá eitt­hvað í gegn sem skiptir meira máli. Fleiri rusla­tunnur, ég veit það ekki, það kom ekki fram.

Í fyrra fórn­uðum við 400 manns, einkum ömmum og öfum, til að endur­heimta túrista og djamm. Án þess að blikka auga. Og nú þurfum við að gæta samræmis. Það væri skamm­ar­legt að gera ókunn­ugum hærra undir höfði. Hvað geta nokkrir útlend­ingar kostað? Tíu dali?

Nýir tímar. Runnir upp. Dagar hins herskáa skeyt­ing­ar­leysis. Megi þeir verða sem fæstir.