Hundrað æfingar í hlýðni

19.4.2023 ~ 3 mín

Einhvern tíma las ég þá túlkun á vinsælum áhorf­endaí­þróttum í Banda­ríkj­unum og Evrópu að í Banda­ríkj­unum sner­ust þær um að raka inn stigum, jafn mörgum og hægt er, sigra, sigra, sigra, hundrað stig á lið í einum leik í körfu­bolta, til dæmis; en í Evrópu sner­ust hópí­þróttir um að samein­ast í endur­teknum vonbrigðum: Jón gefur á Stefán, Stefán á Ívar, Ívar í dauða­færi og hann skýtur – og bolt­inn fór í slána. Enn er staðan eitt núll. Og hver sem lagði fram þessa grein­ingu setti hana í samhengi við 20. öldina og styrj­ald­irnar sem voru háðar í Evrópu, þá Amer­íku sem mætti bara til að sjá og sigra, þá Evrópu sem lægi alltaf eftir í rústum.1

Þetta hvarfl­aði að mér þegar ég var að keyra bíl í dag – endur­tekn­ingin, endur­teknu vonbrigðin. Nema að ef fótbolti snýst um að samein­ast í endur­teknum vonbrigðum, ef hann er eins konar æfing í vonbrigðum, hópefli í vonbrigðum, þá er bílakstur viðstöðu­laus æfing í hlýðni. Bara til að komast út úr hverf­inu mínu, þá byrja ég á að hlýða þessu með bílbeltin, síðan regl­unni um hægrium­ferð, auðvitað, regl­unni um hámarks­hraða, vita­skuld, regl­unni um biðskyldu, hægi enn á mér við hraða­hindrun, stað­næm­ist við gang­braut, hlýði tiltölu­lega flóknum reglum sem ég gæti líklega ekki lýst berum orðum en liggja einhvers staðar í vöðvam­inn­inu um hver á rétt­inn hvenær á hring­torgi, og hlýði loks rauðu ljósi, þar til ég hlýði gulu ljósi sem segir mér að búa mig undir að hlýða grænu ljósi. Að keyra er að hlýða, hlýða, hlýða.

Sem er forvitni­legt í samhengi við þær hugmyndir um frelsi sem margir tengja enn við bíla. Ég sjálfur, jafn­vel. Þegar ég nota almenn­ings­sam­göngur, í borgum þar sem þær eru nothæfur, jafn­vel betri valkostur, þá hlýði ég aðeins einu sinni í hverri ferð, þegar ég kaupi miða. Ég man að minnsta kosti ekki eftir því að verða annars fyrir mörgum fyrir­mælum á þeim leiðum.

Frelsið sem felst í bíl, ég held að það snúist ekki um ferð­ina, að komast frá A til B. Bílum má ekki aka utan vega, þá má aðeins hreyfa eftir fyrir­fram skil­greindum rásum. Leiðin hefur alltaf verið mörkuð fyrir þig. Ég held samt að frels­istil­finn­ingin sé ekki alveg úr lausu lofti gripin. Ég held að hún felist í því að vera svolitla stund í klefa, utan alls félags­legs samneytis. Þurfa ekki að hugsa um hvernig maður á að bera sig, hvort ístran sést, hvort maður á að brosa, geta gleymt sér. Bara það.

Frelsi þess að keyra bíl nær þannig hámarki þegar akstr­inum lýkur, augna­blikið eftir að maður leggur en áður en maður tekur af sér beltið og stígur út. Andar­takið sem maður situr, reyrður, örlitla stund, og hlýðir loks­ins, eftir allt sem á undan gekk, engu. Andar inn, andar út.

References
1 Las, og þó, kannski var þetta uppistand …?