Lof iðju­leys­is­ins, eftir Bertrand Russell

28.4.2023 ~ 26 mín

Greinin sem hér er þýdd birt­ist árið 1935 undir titl­inum „In Praise of Idleness“ í greina­safni með hérumbil sama nafni: In Praise of Idleness and Other Essays. Greinin ber þess auðvitað merki hvenær hún er skrifuð. Höfundur vísar til fyrri heims­styrj­aldar einfald­lega sem „stríðs­ins“. Þau gild­andi viðmið sem hann vísar til, að það sé gott að græða og spara og en slæmt að neyta, hafa ekki endi­lega snúist á hvolf síðan þá, en þau hafa þó breyst í þeim samfé­lögum sem frá miðri öldinni, eftir heims­styrj­öld­ina sem hófst stuttu eftir ritun grein­ar­innar, hafa nefnst bæði velferðar- og neyslu­sam­fé­lög. Þá birt­ast lesendum nú, í text­anum, viðmið um ólík hlut­verk karla og kvenna á vinnu­mark­aði sem eru gjör­breytt í dag, og gera sumar setn­ingar óhjá­kvæmi­lega ankanna­legar. Ég hef ekki ráðist skipu­lega til atlögu við kynin í text­anum. Að ég skilji hann eftir óbreyttan að því leyti felur auðvitað ekki í sér undir­tektir eða afstöðu til þeirra efna. Þetta er áskorun sem þýðendur mæta og finna út úr með einhverjum hætti. Auk tryggðar við frum­text­ann lagði ég mig helst eftir því að gera þýðing­una sem lipur­leg­asta – á einhverjum stað er vel við hæfi að segja öll frekar en allir, á öðrum stað ekki, og svo framvegis.

Þá ber að nefna að þessi þýðing hefur ekki notið þess háttar ritstjórn­ar­ferlis sem nær alltaf er til góðs. Ég rifj­aði grein­ina upp og las hana á ný, í samhengi við þær tækni­breyt­ingar sem við nú stöndum frammi fyrir, og þýddi hana í leið­inni, sem mér finnst stundum gagn­legt til að skerpa skiln­ing. Þá er ekki úr vegi að koma henni einhvers staðar fyrir þar sem aðrir geta notið hennar. Þýðingin birt­ist hér með góðfús­legu leyfi Bertrand Russell-stofn­un­ar­innar í London, sem heldur á höfund­ar­rétti frum­text­ans.1 Hugs­an­lega eru til ritstýrðir miðlar á land­inu sem hafa áhuga á svona efni, en mér finnst það nógu óvíst til að láta þetta nægja í bili, bloggið mitt.

Þrátt fyrir þær breyt­ingar sem orðið hafa á þeim tæpu 90 árum sem liðin eru frá útgáfu rits­ins sem greinin birt­ist upphaf­lega í, þá held ég að enn sé forvitni­legt að sjá hvað heim­spek­ing­ur­inn Bertrand Russell var forviða frammi fyrir þeirri stað­reynd að eftir iðnvæð­ingu, árið 1935, skyldi fólk enn vinna átta stunda vinnu­daga, í stað þess að samfé­lög nýttu ávinn­ing­inn af nýrri fram­leiðslu­getu til að fækka vinnu­stundum fólks skipu­lega. Til að tilveran yrði sem flestum sem ánægju­leg­ust. Það megin­inn­tak grein­ar­innar stendur, held ég, sem furða og sem áskorun, enn í dag.

Myndin sem fylgir færsl­unni var teiknuð af vél.

Lof iðju­leys­is­ins

Eins og flestir af minni kynslóð, ólst ég upp við það viðkvæði að alltaf finni djöf­ull­inn iðju­lausum höndum einhver óþurfta­verk. Þar sem ég var mjög dyggð­ugt barn, trúði ég öllu sem mér var sagt og öðlað­ist samvisku sem hefur haldið mér stíft að verki allt til þessa dags. En þó að samviska mín hafi stýrt athöfnum mínum, hafa skoð­anir mínar gengið í gegnum bylt­ingu. Ég held að í veröld­inni sé alltof mikil vinna unnin, að stór­kost­legt tjón sé gert með þeirri trú að vinna sé dyggðug, og að það sem þurfi að prédika í iðnað­ar­sam­fé­lögum nútím­ans sé tölu­vert ólíkt því sem alltaf hefur verið prédikað. Allir þekkja söguna af ferða­mann­inum í Napólí, sem sá tólf betl­ara liggja í sólinni (það var fyrir daga Mussol­inis), og bauð þeim latasta þeirra eina líru. Ellefu þeirra stukku upp til að gera tilkall til lírunnar, svo hann gaf þeim tólfta hana. Þessi ferða­maður var á réttri leið. En í löndum sem ekki njóta sólskins­ins við Miðjarð­ar­haf er iðju­leysi erfið­ara, og umtals­verðan opin­beran áróður mun þurfa til að koma því á legg. Ég vona að eftir lestur þess sem fylgir muni forystu­fólk KFUM hefja nýja herferð til að hvetja unga menn til að gera ekkert. Ef svo fer, þá hef ég ekki lifað til einskis.

Áður en ég tefli fram mínum eigin rökum fyrir leti, þarf ég að hrinda frá einni röksemd sem ég get ekki fall­ist á. Hvenær sem mann­eskja sem þegar á nóg til að lifa á stingur upp á að fá sér einhvers konar starf frá degi til dags, til dæmis kennslu eða ritara­störf, þá er honum eða henni sagt að slíkt athæfi tæki brauð úr munnum annars fólks og sé, þess vegna, illkvittið. Ef þessi röksemd væri gild, þá nægði að við gerðum öll ekkert til að fylla munna okkar af brauði. Það sem fólk gleymir, sem segir svona hluti, er að það sem maður vinnur sér inn, því eyðir hann oftast, og með þeim útgjöldum veitir hann vinnu. Svo lengi sem maður eyðir því sem honum áskotn­ast færir hann alveg jafn mikið brauð í munna fólks með útgjöld­unum og hann tekur frá öðrum með tekj­unum. Hinn raun­veru­legi óþokki, frá þessu sjón­ar­miði, er maður­inn sem sparar. Ef hann geymir sparn­að­inn sinn í sokki, eins og franski bónd­inn í munn­mæl­unum, þá er augljóst að hann veitir engum vinnu. Ef hann fjár­festir fyrir sparn­að­inn er málið ekki jafn einfalt og aðrir þættir koma til sögunnar.

Eitt það algeng­asta sem gert er við sparnað er að lána hann einhverjum stjórn­völdum. Í ljósi þeirrar stað­reyndar að lung­inn af útgjöldum siðmennt­uð­ustu ríkis­stjórna felst í að greiða fyrir fyrri stríð og búa sig undir þau næstu, þá er maður­inn sem lánar stjórn­völdum pening sinn í sömu stöðu og þau illmenni Shakespeares sem ráða morð­ingja til starfa. Lokanið­ur­staðan af hagvenjum þess manns er að auka við herafla ríkis­ins sem hann lánar féð. Augljós­lega væri betra ef hann eyddi peningnum, sóaði honum jafn­vel í drykki og fjárhættuspil.

En, verður mér sagt, öðru gegnir þó þegar fjár­fest er fyrir sparn­að­inn í lofvæn­legum atvinnu­rekstri. Þegar slíkur rekstur heppn­ast og fram­leiðir eitt­hvað nytsam­legt má fall­ast á það. Um þessar mundir, hins vegar, getur enginn neitað því að flest fyrir­tæki misheppn­ast. Það þýðir að stórum hluta af vinnu mann­fólks, sem hefði mátt nýta til að fram­leiða eitt­hvað til að njóta, var eytt í fram­leiðslu véla sem, þegar þær voru tilbúnar, lágu iðju­lausar og gerðu engum gagn. Maður­inn sem fjár­festir sparnað sinn í fyrir­tæki sem fer á haus­inn veldur þannig öðrum tjóni, ásamt sjálfum sér. Ef hann verði peningnum til dæmis í að halda veislur fyrir vini sína, þá myndu þeir (skulum við vona) hafa af því ánægju, og um leið allir þeir sem hann greiddi pening til, til dæmis slát­ar­inn, bakar­inn og brugg­ar­inn. En ef hann ver fénu (skulum við segja) í að leggja teina undir lestir þar sem kemur í ljós að ekkert er við lestir að gera, þá hefur hann sólundað miklu vinnu­afli í rásir sem færa engum nokkra ánægju. Eftir sem áður, þegar hann verður fátækur af óláni þess­ara fjár­fest­inga verður litið á hann sem fórn­ar­lamb óverð­skuld­aðrar ólukku, en veisluglaða eyðsluklóin, sem varði pening sínum mann­úð­ar­lega, verður álit­inn óábyrgur vitleysingur.

Allt er þetta aðeins formáli. Ég vil segja, í fullri alvöru, að í nútím­anum er miklu tjóni valdið af trúnni á dyggð vinn­unnar, og að vegur­inn til hamingju og velsældar liggur í því að draga skipu­lega úr vinnu.

Fyrst af öllu: Hvað er vinna? Vinna er af tvennum toga: í fyrsta lagi, að færa til efni á eða við yfir­borð jarðar, í afstöðu við annað slíkt efni; í öðru lagi, að segja fólki að gera það. Fyrri gerðin er óskemmti­leg og illa launuð; sú seinni er ánægju­leg og vel launuð. Seinni gerð­ina má útvíkka enda­laust: ekki aðeins er fólk sem veitir fyrir­mæli heldur fólk sem veitir ráð um hvaða fyrir­mæli skuli gefa. Yfir­leitt eru tvö andstæð ráð gefin í sömu mund, af tveimur ólíkum hópum; það nefn­ist stjórn­mál. Hæfnin sem þarf til slíkrar vinnu er ekki þekk­ing á þeim viðfangs­efnum sem ráðin snúast um heldur þekk­ing á þeirri list að tala og skrifa með sann­fær­ing­ar­mætti, það er þekk­ing á auglýsingagerð.

Í allri Evrópu, ekki þó í Banda­ríkj­unum, má finna þriðja flokk manna, sem nýtur meiri virð­ingar en vinn­andi stétt­irnar tvær. Það eru menn sem með eign­ar­haldi á landi geta látið aðra greiða sér fyrir þau forrétt­indi að mega vera til og vinna. Þessir land­eig­endur eru iðju­lausir og ef til vill má gera ráð fyrir að ég myndi, af þeim sökum, hrósa þeim. Því miður er iðju­leysi þeirra aðeins gert mögu­legt með iðju­semi annarra; og reyndar er þrá þeirra eftir hæginda­legu iðju­leysi sögu­legur uppruni alls heila guðspjalls­ins um vinn­una. Það síðasta sem þeir hafa nokk­urn tíma óskað er að aðrir myndu fylgja fordæmi þeirra.

Frá upphafi siðmenn­ingar, allt að iðnbylt­ing­unni, gat hver maður að jafn­aði, með mikilli fyrir­höfn, ekki fram­leitt mikið meira en þurfti til að tryggja afkomu hans og fjöl­skyldu hans, jafn­vel þó að kona hans ynni að minnsta kosti jafn hörðum höndum og börn­unum væri bætt við vinnu­aflið um leið og þau höfðu aldur til. Hinn litli ávinn­ingur umfram brýn­ustu nauð­synjar stóð ekki eftir handa þeim sem fram­leiddu hann, heldur var hann gerður upptækur af prestum og herjum. Á tímum hung­urs­neyða var ekkert umfram; herirnir og prest­arnir tryggðu sér þó jafn mikið og á öðrum tímum, með þeim afleið­ingum að þau sem unnu dóu úr hungri. Þetta kerfi hélst við lýði í Rússlandi til ársins 1917, og er enn til staðar í austri; á Englandi hélst það að öllu leyti við lýði, þrátt fyrir iðnbylt­ing­una, gegnum Napó­leons­stríðin og þar til fyrir hundrað árum síðan, þegar ný stétt fram­leið­enda öðlað­ist vald. Í Amer­íku lauk þessu fyrir­komu­lagi með bylt­ing­unni, nema í suðri þar sem það viðhélst fram að borg­ara­styrj­öld­inni. Kerfi sem entist svona lengi og lauk svo nýverið hefur auðvitað skilið eftir sig djúp áhrif á hugs­anir og skoð­anir fólks. Margt sem við álítum sjálfsagt, um kosti þess að vinna, er arfur frá þessu kerfi og, þar sem það er upprunnið fyrir iðnbylt­ingu, ekki aðlagað að nútím­anum. Nútíma­tækni hefur gert mögu­legt að tómstundir verði, innan marka, ekki forskot fámennra forrétt­inda­stétta, heldur rétt­indi sem má útdeila jafnt um samfé­lagið. Siðferði vinn­unnar er siðferði þræla og heimur nútím­ans hefur enga þörf fyrir þrældóm.

Það er augljóst að í frum­stæðum samfé­lögum hefðu bændur, að eigin frum­kvæði, ekki sagt skilið við ágóð­ann sem herir og prestar lifðu á, heldur annað hvort fram­leitt minna eða neytt meira. Til að byrja með voru þeir knúnir með beinni vald­beit­ingu til að fram­leiða og skilja við umfram­magnið. Hægt og bítandi, hins vegar, reynd­ist mögu­legt að hvetja marga þeirra til að fall­ast á siðferði sem hermdi að það væri skylda þeirra að leggja hart að sér, þó að hluti af vinnu þeirra rynni til að styðja við iðju­leysi annarra. Með þess­ari aðferð mátti beita minni þrýst­ingi, og kostn­að­ur­inn dróst saman. Allt til þessa dags yrðu níutíu og níu prósent breskra laun­þega raun­veru­lega felmtri slegnir ef stungið væri upp á því að konung­ur­inn ætti ekki að hafa hærri tekjur en vinn­andi maður. Hugmyndin um skyldu hefur, sögu­lega séð, verið aðferð sem vald­hafar beita aðra til að þeir lifi í þágu hags­muna drottn­ara sinna frekar en sinna eigin. Auðvitað dylja vald­hafar þessa stað­reynd frá sjálfum sér með því sann­færa sig um að hags­munir þeirra séu þeir sömu og hags­munir mann­kyns. Stundum er þetta satt; þræla­hald­arar í Aþenu, til dæmis, nýttu hluta af tómstundum sínum til að færa varan­legt fram­lag til siðmenn­ingar sem hefði verið óhugs­andi í rétt­látu hagkerfi. Tómstundir eru lykil­þáttur siðmenn­ing­ar­innar og á fyrri tímum voru tómstundir fárra aðeins gerðar mögu­legar með erfiði margra. En vinnu­fram­lag þeirra var verð­mætt, ekki vegna þess að vinna sé góð, heldur vegna þess að tómstundir eru góðar. Og með tækni nútím­ans væri mögu­legt að útdeila tómstundum með rétt­mætum hætti, án þess að baka siðmenn­ing­unni tjón.

Nútíma­tækni hefur gert mögu­legt að draga stór­kost­lega úr því magni af vinnu sem þarf til að fram­leiða lífs­nauð­synjar fyrir alla. Þetta varð augljóst í stríð­inu. Á þeim tíma voru allir karl­menn í hernum, allir karlar og konur sem tóku þátt í fram­leiðslu hergagna, allir karlar og konur sem tóku þátt í njósnum, í stríðs­áróðri eða opin­berum embættum sem tengd­ust stríð­inu, fjar­lægð úr fram­leiðslu­störfum. Þrátt fyrir það var almennt stig efnis­legrar velferðar launa­fólks í löndum banda­manna hærra en það var fram að því eða að stríð­inu loknu. Vægi þess­arar stað­reyndar var dulið með fjár­málum; lántökur létu lita út fyrir að fram­tíðin nærði núið. En það hefði auðvitað verið ómögu­legt; enginn maður getur borðað brauð­hleif sem enn er ekki til. Stríðið sýndi óyggj­andi að með vísinda­legu skipu­lagi fram­leiðsl­unnar er mögu­legt að viðhalda ágætum þægindum fyrir íbúa nútím­ans með litlum hlut af vinnu­afli hans. Ef vísinda­lega skipu­lag­inu sem var komið á lagg­irnar í stríð­inu til að leysa fólk undan störfum, til að sinna átökum og hergagna­fram­leiðslu, hefði verið viðhaldið þegar stríð­inu lauk, og vinnu­dag­ur­inn styttur niður í fjórar stundir, þá hefði allt farið vel. Þess í stað var gamla óreiðan endur­heimt, þau sem voru krafin um vinnu voru látin vinna langa daga, og aðrir látnir svelta í atvinnu­leysi. Hvers vegna? Vegna þess að vinnan er skylda og maður­inn ætti ekki að fá laun í hlut­falli við það sem hann hefur fram­leitt heldur í hlut­falli við dyggð sína, eins og hún birt­ist í iðju­semi hans.

Þetta er siðferði þræla­rík­is­ins, heim­fært upp á kring­um­stæður sem eru gjör­ólíkar þeim sem það varð til við. Engin furða að afleið­ing­arnar hafa verið skelfi­legar. Tökum dæmi. Ímyndum okkur að á tilteknum tíma fáist ákveð­inn fjöldi fólks við fram­leiðslu á nælum. Þau fram­leiða allar nælur sem heim­ur­inn þarfn­ast með því að vinna (til dæmis) átta tíma á dag. Einhver gerir uppgötvun þannig að sami fjöldi fólks getur fram­leitt tvöfalt fleiri nælur en áður. En heim­ur­inn þarf ekki tvöfalt fleiri nælur: nælur eru þegar svo ódýrar að varla verður nokkur einasta keypt í viðbót þó að verðið lækki. Í skyn­sömum heimi myndu allir sem fást við fram­leiðslu næla taka að vinna í fjórar stundir í stað átta, og allt annað héldi áfram eins og ekkert hefði í skorist. En í heim­inum eins og hann er væri það talið siðspill­andi. Fólkið myndi enn vinna í átta stundir, til yrðu of margar nælur, sumir vinnu­veit­endur færu á haus­inn og helm­ingur fólks­ins sem áður fékkst við fram­leiðslu á nælum missir vinn­una. Að endingu verður úr nákvæm­lega jafn mikill frítími og samkvæmt hinni áætl­un­inni, en helm­ingur mann­anna er nú alfarið iðju­laus á meðan hinn helm­ing­ur­inn vinnur enn baki brotnu. Á þann hátt er tryggt að óhjá­kvæmi­legar tómstundir valdi alls­kostar eymd frekar en að verða almenn uppspretta hamingju. Er hægt að ímynda sér nokkuð klikkaðra?

Sú hugmynd að fátækir skyldu eiga sér frítíma hefur alltaf verið eitt­hvað sem þeim ríku bregður við. Í Englandi á nítj­ándu öld unnu menn að jafn­aði fimmtán tíma á dag; börn unnu stundum annað eins og mjög oft tólf stundir á dag. Þegar afskipta­samir vand­ræða­gemsar stungu upp á því að ef til vill væru þetta heldur langir vinnu­dagar, var þeim sagt að vinnan héldi full­orðnu fólki frá drykkju og börnum frá óknyttum. Þegar ég var barn, stuttu eftir að að verka­menn í borgum fengu atkvæð­is­rétt, var stofnað til ákveð­inna opin­berra frídaga með lögum, til mikillar hneyksl­unar efri stétt­anna. Ég man eftir að heyra gamla hertogaynju segja „Hvað vill fátækt fólk með frídaga? Þau eiga að vinna.“ Í dag er fólk ekki jafn bein­skeytt en þessi sýn heldur velli og er uppruni mikils efna­hags­legs ruglings.


Skoðum nú, eitt andar­tak, siðferði vinn­unnar heið­ar­lega og hjátrú­ar­laust. Sérhver mann­eskja neytir í lífi sínu, af nauð­syn, ákveð­ins magns af varn­ingi sem fram­leiddur er með vinnu fólks. Ef við gerum ráð fyrir því, eins og má, að vinna sé í það heila ónota­leg, þá er órétt­mætt að maður neyti meira en hann fram­leiðir. Auðvitað getur hann fært fram aðra þjón­ustu en kaup­varn­ing, eins og til dæmis læknar gera; en í skiptum fyrir fæði og húsnæði ætti hann þó að færa eitt­hvað fram. Að þessu marki ber að viður­kenna vinnu sem skyldu, en aðeins að þessu marki.

Ég ætla ekki að fást við þá stað­reynd að í öllum nútíma­sam­fé­lögum utan Sovét­ríkj­anna kemst margt fólk hjá því að leggja jafn­vel þessa lágmarks­vinnu af mörkum, það er allir þeir sem erfa fé eða gift­ast því. Ég lít ekki svo á að sú stað­reynd að þessu fólki er leyft að vera iðju­laust sé nærri því jafn skað­leg og sú stað­reynd að launa­fólki er ætlað að vinna yfir sig eða svelta. Ef venju­leg launa­mann­eskja ynni fjórar stundir á dag væri nóg til fyrir alla og ekkert atvinnu­leysi – að því gefnu að vinnan færi fram með hóflega vitrænu skipu­lagi. Þessi hugmynd hneykslar betur stadda, vegna þess að þau eru sann­færð um að fátækt fólk myndi ekki kunna með svo mikinn frítíma að fara. Í Banda­ríkj­unum vinna margir langa daga jafn­vel þegar þeir eru þegar vel stæðir; slíkir menn fyrir­líta auðvitað hugmynd­ina um tómstundir fyrir launa­fólk nema þá sem hina grimmd­ar­legu refs­ingu sem atvinnu­leysi er, í reynd mislíka þeim jafn­vel tómstundir sona sinna. Eins einkenni­legt og það er, þá óska þeir þess að synir þeirra vinni svo mikið að þeir hafi engan tíma til að vera siðmennt­aðir, en er um leið sama þó að konur þeirra og dætur hafi enga vinnu yfir­leitt. Hin snobb­aða aðdáun gagns­leys­is­ins, sem í samfé­lagi hefð­ar­stétta nær til beggja kynja, er í auðræð­is­sam­fé­lagi bundin konum; það, hins vegar, veitir henni ekki meira samræmi við almenna skynsemi.

Vitur­leg beit­ing frítíma, verður að játast, er afurð siðmenn­ingar og mennt­unar. Manni sem hefur unnið langa daga allt sitt líf fer að leið­ast ef hann verður skyndi­lega iðju­laus. En án umtals­verðra tómstunda er maður aðskil­inn frá öllu því besta. Það er ekki lengur nein ástæða til að þorri almenn­ings skyldi þola þá vöntun; aðeins bjálf­a­leg mein­læta­hyggja, yfir­leitt fyrir annarra hönd, lætur okkur halda til streitu yfir­gengi­legu magni af vinnu sem ekki er lengur þörf fyrir.

Um leið og margt er afar ólíkt með þeirri nýju kreddu sem stjórn­völd í Rússlandi aðhyll­ast og hefð­bundnum viðmiðum Vest­ur­landa, þá er sumt óbreytt. Viðhorf valda­stétta, sérstak­lega þeirra sem stýra áróðri mennta­kerf­is­ins, um reisn­ina sem felist í vinnu, er næstum nákvæm­lega það sama og valda­stéttir heims­ins hafa alltaf prédikað til þeirra sem nefnd voru „heið­virðir fátæk­lingar“. Iðju­semi, vímu­leysi, og vilj­inn til að vinna löngum stundum fyrir fjar­lægan ávinn­ing, jafn­vel undir­gefni við yfir­vald, allt þetta birt­ist á ný; auk þess sem yfir­valdið birt­ist enn í umboði þess sem drottnar yfir alheim­inum, sem nú gengur hins vegar undir nýju nafni: sögu­leg efnishyggja.

Sigur verka­lýðs­ins í Rússlandi á ákveðna þætti sameig­in­lega með sigri femín­ista í sumum öðrum löndum. Í margar aldir höfðu karl­menn játast yfir­burða heil­ag­leika kvenna og huggað konur fyrir vanmátt þeirra með þvi að full­yrða að heil­ag­leik­inn væri eftir­sókn­ar­verð­ari en vald. Femín­istar ákváðu loks að þeir vildu hafa hvort tveggja, þar sem frum­kvöðlar í þeirra hópi trúðu öllu sem karl­menn höfðu sagt þeim um ákjós­an­leika dyggð­ar­innar en ekki það sem þeir höfðu sagt um fánýti póli­tísks valds. Nokkuð svipað hefur gerst í Rússlandi hvað varðar erfið­is­vinnu. Öldum saman hafa auðmenn og slef­berar þeirra skrifað lofgjörðir „heið­virðrar vinnu“, lofsungið hið einfalda líf, haldið uppi trúar­brögðum sem kenna að fátækir séu langtum líklegri til að komast til himna en ríkir, og almennt reynt að láta hand­verka­fólk trúa að einhver sérstök öðlun felist í því að breyta stað­setn­ingu efnis í rými, rétt eins og karl­menn reyndu að sann­færa konur um að sérstök náð lægi í kynferð­is­legri undirokun þeirra. Í Rússlandi hefur öll þessi innræt­ing um stór­feng­leik erfið­is­vinn­unnar verið tekin alvar­lega, með þeirri niður­stöðu að verka­mað­ur­inn er heiðr­aður öðrum fremur. Þessu sem er í reynd boðskapur af ætt krist­inna endur­fæð­ing­ar­söfn­uða er haldið fram til að tryggja fyrir­mynd­ar­verka­menn í sérverk­efni. Erfið­is­vinna er draum­sýnin sem haldið er að ungu fólki og grund­völlur allrar siðfræðikennslu.

Hér og nú er það allt til góðs. Stórt land, fullt af nátt­úru­auð­lindum, bíður þróunar og þarf að þróast án greiðs aðgangs að lánum. Í þeim kring­um­stæðum er erfið­is­vinna nauð­syn­leg og líkleg til að uppskera ríku­lega. En hvað verður þegar þeim áfanga er náð að allir gætu haft það náðugt án langra vinnudaga?

Á Vest­ur­löndum höfum við ólíkar leiðir til að fást við þann vanda. Við gerum enga tilraun til efna­hags­legs rétt­lætis, svo að stór hluti af heild­ar­fram­leiðsl­unni fer til lítils minni­hluta íbúanna, sem margir inna alls enga vinnu af hendi. Þökk sé því að fram­leiðsla lútir engri miðlægri stýr­ingu fram­leiðum við fjölda hluta sem enginn vill. Við höldum stórum hlut af vinn­andi fólki við iðju­leysi, því að við getum verið án krafta þess með því að láta aðra vinna yfir sig. Þegar allar þessar aðferðir reyn­ast ekki nóg höfum við stríð: við fáum fjölda fólks til að fram­leiða stórar sprengjur og fjölda annarra til að sprengja þær, eins og við værum börn sem hefðum nýupp­götvað flug­elda. Með samnýt­ingu allra þess­ara leiða tekst okkur, þó með herkjum, að halda þeirri hugmynd til streitu að meðal­mann­eskjan þurfi að vinna tölu­vert mikla erfiðisvinnu.

Í Rússlandi, þökk sé efna­hags­legu rétt­læti og miðlægri stýr­ingu fram­leiðsl­unnar, þarf að leysa vand­ann með öðrum hætti. Skyn­sam­lega lausnin væri að fækka vinnu­stundum hægt og bítandi um leið og séð er fyrir öllum nauð­synjum og grund­vall­ar­hæg­indum, ákveða með þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu, á hverju stigi, hvort er eftir­sókn­ara­verð­ara, fleiri tómstundir eða meiri fram­leiðsla. En þegar búið er að kenna að erfið­is­vinna sé hin æðsta dyggð, þá er erfitt að sjá hvernig yfir­völd geta stefnt að para­dís þar sem yrðu mikið frí og lítil vinna. Það virð­ist líklegra að þau muni stöð­ugt finna nýjar aðferðir til að fórna tómstundum hér og nú í þágu aukinnar fram­leiðni síðar meir. Ég las nýverið um snilld­ar­lega áætlun sem rúss­neskir verk­fræð­ingar settu saman um að verma Hvíta­haf og Síberíu, með því að stífla Kara­sund. Lofs­verð áætlun, en líklegt að hún myndi slá þægindum verka­fólks á frest um eina kynslóð, á meðan sýnt er fram á dyggðir erfið­is­vinn­unnar á ísbreiðum og í snjóstormum Norður-íshafs­ins. Svona hlutir, ef þeir gerast, verða afleið­ing þess að líta á dyggðir erfið­is­vinn­unnar sem markmið í sjálfu sér, frekar en leið að þeirri stöðu mála að ekki sé lengur þörf fyrir hana.


Stað­reyndin er sú að um leið og nauð­syn­leg þörf er á því að færa efni milli staða upp að vissu marki, í þágu tilveru okkar, þá má leggja áherslu á að það er ekki á meðal mark­miða mann­legrar tilveru. Ef svo væri, þá yrðum við að líta á hverja skurð­gröfu sem æðri en Shakespeare. Við höfum látið afvega­leiða okkur um þetta af tveimur ástæðum. Sú fyrri er nauð­syn þess að halda fátækum sáttum, sem hefur í árþús­undir fengið ríkt fólk til að predika um reisn vinn­unnar, um leið og þau leggja sig fram um að bera sjálf helst enga reisn í því tilliti. Hin er nýja ánægjan af vélum, sem fá okkur til að gleðj­ast yfir þeim sláandi snjöllu breyt­ingum sem við getum gert á yfir­borði jarðar. Hvorug þess­ara ástæðna höfðar sérstak­lega til hins raun­veru­lega verka­manns. Ef þú spyrð hann hvað hann álíti það besta við líf sitt, þá er ekki líklegt að hann segi „Ég nýt erfið­is­vinnu vegna þess að hún færir mér þá tilfinn­ingu að ég sé að uppfylla göfug­asta hlut­skipti manns­ins, og vegna þess að mér finnst gott að hugsa til þess hvernig maður­inn getur ummyndað þessa plán­etu. Það er satt að líkami minn þarfn­ast hvíld­ar­tíma, sem ég þarf að uppfylla eftir fremsta megni, en ég er aldrei jafn sæll og þegar morgnar og ég get aftur snúið mér að erfið­inu sem ánægja mín sprettur af.“ Ég hef aldrei heyrt vinn­andi menn segja svona hluti. Þeir líta á vinnu, eins og ætti að líta á hana, sem nauð­syn­lega leið til fram­færslu, og það er í tómstund­unum sem þeir finna hvaða hamingju sem þeir geta notið.

Sagt verður að á meðan svolitlar tómstundir eru ánægju­legar, myndu menn ekki vita hvernig þeir ættu að fylla dagana ef þeir ynnu aðeins fjórar stundir af hverjum tutt­ugu og fjórum. Að því leyti sem það er satt um nútím­ann, þá liggur þar fordæm­ing á siðmenn­ingu okkar; það hefði ekki verið satt á neinum fyrri sögu­skeiðum. Áður var til geta til létt­úðar og leikja sem hefur að einhverju leyti verið bæld af sértrú­ar­söfn­uði fram­leiðn­innar. Nútíma­mað­ur­inn heldur að allt ætti að gera í þágu einhvers annars, og aldrei í þágu sjálfs sín. Alvar­lega sinn­aðar mann­eskjur, til dæmis, eru látlaust að fordæma þann vana að fara í bíó og segja okkur að það leiði ungt fólk til glæpa. En öll vinnan sem fer í að fram­leiða kvik­myndir er virð­ing­ar­verð, því hún er vinna, og vegna þess að hún færir ágóða. Sú hugmynd að eftir­sókn­ar­vert athæfi sé það sem færir ágóða hefur sett allt á hvolf. Slátr­ar­inn sem færir þér kjöt og bakar­inn sem færir þér brauð eru lofs­verðir vegna þess að þeir græða pening en þegar þú nýtur matar­ins sem þeir fram­leiddu ert þú tilgangs­laus, nema þá að þú borðir bara til að öðlast styrk til að vinna. Í grófum dráttum er því haldið á lofti að það að eign­ast pening sé gott en að eyða honum sé slæmt. Þar sem það eru tvær hliðar á sömu viðskipt­unum er það fárán­legt; því mætti allt eins halda fram að lyklar séu góðir en skrárnar slæmar. Einstak­ling­ur­inn, í okkar samfé­lagi, vinnur fyrir ágóða; en samfé­lags­legur tilgangur vinnu hans felst í neyslu þess sem hann fram­leiðir. Það er þessi aðskiln­aður á milli einstak­lings­ins og samfé­lags­legs tilgangs fram­leiðsl­unnar sem gerir mönnum svo erfitt að hugsa skýrt í heimi þar sem ágóði er hvat­inn til iðju­semi. Við hugsum of mikið um fram­leiðslu og of lítið um neyslu. Ein afleið­ingin er sú að við leggjum of litla áherslu á nautn og einfalda ánægju og að við dæmum fram­leiðsl­una ekki eftir ánægj­unni sem hún færir neytandanum.

Þegar ég legg til að stytta skyldi vinnu­dag­inn í fjórar stundir, þá vil ég ekki gefa í skyn að eftir­stand­andi tíma skyldi endi­lega öllum verja í hreint tilgangs­leysi. Ég á við að fjög­urra tíma vinnu­dagur ætti að nægja manni fyrir nauð­synjum og lykil­hæg­indum lífs­ins, og að afgang­inn af tíma sínum ætti hann að mega nota eins og hann lystir. Lykil­þáttur í slíku félags­legu kerfi er að að menntun yrði að ganga lengra en hún gerir í dag, og ætti að miða að því, að hluta, að færa fólki smekk sem gerir því kleift að nota frítíma sinn vitur­lega. Þá er ég ekki að hugsa um þess háttar hluti sem myndu telj­ast „hámenn­ing“. Þjóð­dansar hafa dáið út nema í afskekkt­ustu héröðum, en hvat­inn sem varð til þróunar þeirra er enn til staðar í mann­legu eðli. Ánægjan sem íbúar borga njóta hefur að flestu leyti orðið óvirk: að horfa á kvik­myndir, að fylgj­ast með fótbolta, að hlusta á útvarpið og svo fram­vegis. Þetta er afleið­ing þess að orka þeirra til virkni er full­nýtt til vinnu; ef þau hefðu fleiri tómstundir myndu þau aftur hafa ánægju af virkri þátttöku.

Í fortíð­inni var til fámenn tómstunda­stétt og fjöl­menn vinn­andi stétt. tómstunda­stéttin naut forskots sem enginn fótur var fyrir í félags­legu rétt­læti; þetta gerði hana óhjá­kvæmi­lega að kúgandi afli, takmark­aði samkennd hennar, og varð til þess að hún fann upp kenn­ingar til að rétt­læta forrétt­indi sín. Þessar stað­reyndir drógu veru­lega úr ágæti hennar en þrátt fyrir þessa vankanta færði hún fram næstum allt sem við köllum siðmenn­ingu. Hún nærði list­irnar og uppgötv­aði vísindin; hún skrif­aði bækurnar, fann upp heim­speki­stefn­urnar og fágaði félags­leg vensl. Jafn­vel frelsun kúgaðra hefur yfir­leitt komið til sögunnar að ofan. Án tómstunda­stétt­anna hefði mann­kyn aldrei komist upp úr villimennsku.

Sú aðferð að arfgeng tómstunda­stétt bæri engar skyldur fól hins vegar í sér gríð­ar­lega sóun. Enginn meðlima stétt­ar­innar lærði iðju­semi og stéttin í heild var ekki sérlega greind. Hún fram­leiddi ef til vill einn Darwin, en á móti honum stóðu tugir þúsunda óðal­seig­enda til sveita sem látu sér aldrei detta neitt snjall­ara í hug en refa­veiðar og að refsa veiði­þjófum. Sem stendur eiga háskólar að veita, með kerf­is­bundn­ari hætti, það sem tómstunda­stéttin veitti fyrir slysni og sem auka­afu­urð. Það er mikil fram­för, en hefur ákveðna vankanta. Háskóla­lífið er svo ólíkt lífinu í heim­inum í heild, að menn sem lifa í akademísku umhverfi hneigj­ast til að vita ekki af hugð­ar­efnum venju­legra karla og kvenna; ennfremur eru tján­ing­ar­leiðir þeirra yfir­leitt með þeim hætti að skoð­anir þeirra hafa ekki áhrifin sem þær ættu að hafa á almenn­ing. Annar galli er að í háskólum eru rann­sóknir skipu­lagðar, og líklegt að maður­inn sem lætur sér detta í hug eitt­hvert nýtt rann­sókn­ar­svið mæti fortölum. Akademískar stofn­anir, eins gagn­legar og þær eru, nægja því ekki til að standa vörð um hags­muni siðmenn­ing­ar­innar í heimi þar sem sérhver utan veggja þeirra er of upptek­inn fyrir nokkra ónyt­sama iðju.

Í heimi þar sem enginn þarf að vinna meira en fjóra tíma á dag mun sérhver mann­eskja með vísinda­lega forvitni geta svalað henni og sérhver málari geta málað án þess að svelta, hversu frábærar sem myndir hans eru. Ungir rithöf­undar munu ekki þurfa að vekja athygli á sjálfum sér með ólgandi reyf­urum, í því augnamiði að öðlast efna­hags­legt sjálf­stæði til að skrifa tilkomu­mikil verk, sem þeir hafa misst bæði smekk og getu til, þegar tíminn loks­ins gefst. Menn sem í atvinnu­starf­semi sinni hafa fengið áhuga á einhverjum þætti efna­hags­mála eða stjórn­mála geta þróað hugmyndir sínar án þeirrar akademísku fjar­rænu sem veldur því að verk hagfræð­inga við háskóla skortir raun­sæi. Læknar munu hafa tíma til að læra um þróun lækn­is­fræð­innar. Kenn­arar verða ekki í dauð­ans angist að rembast við að kenna eftir þeirri rútínu sem þeir lærðu í sinni æsku, sem gæti í milli­tíð­inni hafa reynst röng.

Öllu öðru fremur þá verður hamingja og gleði í tilver­unni, í stað slit­inna tauga, þreytu og maga­verkja. Unnin verður næg vinna til að gera tómstund­irnar ánægju­legar, en ekki næg til að fram­kalla örmögnun. Þar sem fólk verður ekki þreytt í frítíma sínum mun það ekki aðeins krefjast óvirkra og innan­tómra skemmt­ana. Að minnsta kosti eitt prósent mun líklega verja þeim tíma sem atvinnan krefst ekki til að fást við mál sem hafa almennt mikil­vægi og, þar sem þau verða ekki háð þeirri iðju um afkomu, þá verður frum­leiki þeirra óheftur og engin þörf til að fylgja þeim línum sem aldr­aðir álits­gjafar hafa lagt. En það er ekki aðeins í þessum sérstöku tilfellum sem ávinn­ingur verður af tómstundum. Þegar venju­legir karlar og konur eiga kost á hamingju­ríku lífi verða þau góðgjarn­ari, hneigj­ast síður til ofsókna og síður til tortryggni í garð annarra. Smekkur fyrir stríðum mun fjara út, að hluta af þess­ari ástæðu, og að hluta vegna þess að þau munu fela í sér langa og erfiða vinnu fyrir alla. Gott upplegg er, af öllum siðferð­is­kostum, sá sem heim­ur­inn þarf mest á að halda, og gott upplegg er afurð slök­unar og öryggis, ekki viðvar­andi, harð­neskju­legs erfiðis. Fram­leiðslu­hættir nútím­ans hafa opnað okkur mögu­leik­ann á slökun og öryggi fyrir öll; við höfum þess í stað valið að sumir vinni yfir sig en aðrir svelti. Enn sem komið er, erum við jafn ötul og áður en vélar urðu til. Að því leyti höfum við verið vitleys­ingar, en það er ástæðu­laust að viðhalda þeirri vitleysu um alla tíð.

References
1 Höfund­ar­réttur frum­texta, 1935: The Bertrand Russell Peace Foundation Ltd. Höfund­ar­réttur þýðing­ar­innar, 2023: HMH.