Greinin sem hér er þýdd birtist árið 1935 undir titlinum „In Praise of Idleness“ í greinasafni með hérumbil sama nafni: In Praise of Idleness and Other Essays. Greinin ber þess auðvitað merki hvenær hún er skrifuð. Höfundur vísar til fyrri heimsstyrjaldar einfaldlega sem „stríðsins“. Þau gildandi viðmið sem hann vísar til, að það sé gott að græða og spara og en slæmt að neyta, hafa ekki endilega snúist á hvolf síðan þá, en þau hafa þó breyst í þeim samfélögum sem frá miðri öldinni, eftir heimsstyrjöldina sem hófst stuttu eftir ritun greinarinnar, hafa nefnst bæði velferðar- og neyslusamfélög. Þá birtast lesendum nú, í textanum, viðmið um ólík hlutverk karla og kvenna á vinnumarkaði sem eru gjörbreytt í dag, og gera sumar setningar óhjákvæmilega ankannalegar. Ég hef ekki ráðist skipulega til atlögu við kynin í textanum. Að ég skilji hann eftir óbreyttan að því leyti felur auðvitað ekki í sér undirtektir eða afstöðu til þeirra efna. Þetta er áskorun sem þýðendur mæta og finna út úr með einhverjum hætti. Auk tryggðar við frumtextann lagði ég mig helst eftir því að gera þýðinguna sem lipurlegasta – á einhverjum stað er vel við hæfi að segja öll frekar en allir, á öðrum stað ekki, og svo framvegis.
Þá ber að nefna að þessi þýðing hefur ekki notið þess háttar ritstjórnarferlis sem nær alltaf er til góðs. Ég rifjaði greinina upp og las hana á ný, í samhengi við þær tæknibreytingar sem við nú stöndum frammi fyrir, og þýddi hana í leiðinni, sem mér finnst stundum gagnlegt til að skerpa skilning. Þá er ekki úr vegi að koma henni einhvers staðar fyrir þar sem aðrir geta notið hennar. Þýðingin birtist hér með góðfúslegu leyfi Bertrand Russell-stofnunarinnar í London, sem heldur á höfundarrétti frumtextans.1 Hugsanlega eru til ritstýrðir miðlar á landinu sem hafa áhuga á svona efni, en mér finnst það nógu óvíst til að láta þetta nægja í bili, bloggið mitt.
Þrátt fyrir þær breytingar sem orðið hafa á þeim tæpu 90 árum sem liðin eru frá útgáfu ritsins sem greinin birtist upphaflega í, þá held ég að enn sé forvitnilegt að sjá hvað heimspekingurinn Bertrand Russell var forviða frammi fyrir þeirri staðreynd að eftir iðnvæðingu, árið 1935, skyldi fólk enn vinna átta stunda vinnudaga, í stað þess að samfélög nýttu ávinninginn af nýrri framleiðslugetu til að fækka vinnustundum fólks skipulega. Til að tilveran yrði sem flestum sem ánægjulegust. Það megininntak greinarinnar stendur, held ég, sem furða og sem áskorun, enn í dag.
Myndin sem fylgir færslunni var teiknuð af vél.
Lof iðjuleysisins
Eins og flestir af minni kynslóð, ólst ég upp við það viðkvæði að alltaf finni djöfullinn iðjulausum höndum einhver óþurftaverk. Þar sem ég var mjög dyggðugt barn, trúði ég öllu sem mér var sagt og öðlaðist samvisku sem hefur haldið mér stíft að verki allt til þessa dags. En þó að samviska mín hafi stýrt athöfnum mínum, hafa skoðanir mínar gengið í gegnum byltingu. Ég held að í veröldinni sé alltof mikil vinna unnin, að stórkostlegt tjón sé gert með þeirri trú að vinna sé dyggðug, og að það sem þurfi að prédika í iðnaðarsamfélögum nútímans sé töluvert ólíkt því sem alltaf hefur verið prédikað. Allir þekkja söguna af ferðamanninum í Napólí, sem sá tólf betlara liggja í sólinni (það var fyrir daga Mussolinis), og bauð þeim latasta þeirra eina líru. Ellefu þeirra stukku upp til að gera tilkall til lírunnar, svo hann gaf þeim tólfta hana. Þessi ferðamaður var á réttri leið. En í löndum sem ekki njóta sólskinsins við Miðjarðarhaf er iðjuleysi erfiðara, og umtalsverðan opinberan áróður mun þurfa til að koma því á legg. Ég vona að eftir lestur þess sem fylgir muni forystufólk KFUM hefja nýja herferð til að hvetja unga menn til að gera ekkert. Ef svo fer, þá hef ég ekki lifað til einskis.
Áður en ég tefli fram mínum eigin rökum fyrir leti, þarf ég að hrinda frá einni röksemd sem ég get ekki fallist á. Hvenær sem manneskja sem þegar á nóg til að lifa á stingur upp á að fá sér einhvers konar starf frá degi til dags, til dæmis kennslu eða ritarastörf, þá er honum eða henni sagt að slíkt athæfi tæki brauð úr munnum annars fólks og sé, þess vegna, illkvittið. Ef þessi röksemd væri gild, þá nægði að við gerðum öll ekkert til að fylla munna okkar af brauði. Það sem fólk gleymir, sem segir svona hluti, er að það sem maður vinnur sér inn, því eyðir hann oftast, og með þeim útgjöldum veitir hann vinnu. Svo lengi sem maður eyðir því sem honum áskotnast færir hann alveg jafn mikið brauð í munna fólks með útgjöldunum og hann tekur frá öðrum með tekjunum. Hinn raunverulegi óþokki, frá þessu sjónarmiði, er maðurinn sem sparar. Ef hann geymir sparnaðinn sinn í sokki, eins og franski bóndinn í munnmælunum, þá er augljóst að hann veitir engum vinnu. Ef hann fjárfestir fyrir sparnaðinn er málið ekki jafn einfalt og aðrir þættir koma til sögunnar.
Eitt það algengasta sem gert er við sparnað er að lána hann einhverjum stjórnvöldum. Í ljósi þeirrar staðreyndar að lunginn af útgjöldum siðmenntuðustu ríkisstjórna felst í að greiða fyrir fyrri stríð og búa sig undir þau næstu, þá er maðurinn sem lánar stjórnvöldum pening sinn í sömu stöðu og þau illmenni Shakespeares sem ráða morðingja til starfa. Lokaniðurstaðan af hagvenjum þess manns er að auka við herafla ríkisins sem hann lánar féð. Augljóslega væri betra ef hann eyddi peningnum, sóaði honum jafnvel í drykki og fjárhættuspil.
En, verður mér sagt, öðru gegnir þó þegar fjárfest er fyrir sparnaðinn í lofvænlegum atvinnurekstri. Þegar slíkur rekstur heppnast og framleiðir eitthvað nytsamlegt má fallast á það. Um þessar mundir, hins vegar, getur enginn neitað því að flest fyrirtæki misheppnast. Það þýðir að stórum hluta af vinnu mannfólks, sem hefði mátt nýta til að framleiða eitthvað til að njóta, var eytt í framleiðslu véla sem, þegar þær voru tilbúnar, lágu iðjulausar og gerðu engum gagn. Maðurinn sem fjárfestir sparnað sinn í fyrirtæki sem fer á hausinn veldur þannig öðrum tjóni, ásamt sjálfum sér. Ef hann verði peningnum til dæmis í að halda veislur fyrir vini sína, þá myndu þeir (skulum við vona) hafa af því ánægju, og um leið allir þeir sem hann greiddi pening til, til dæmis slátarinn, bakarinn og bruggarinn. En ef hann ver fénu (skulum við segja) í að leggja teina undir lestir þar sem kemur í ljós að ekkert er við lestir að gera, þá hefur hann sólundað miklu vinnuafli í rásir sem færa engum nokkra ánægju. Eftir sem áður, þegar hann verður fátækur af óláni þessara fjárfestinga verður litið á hann sem fórnarlamb óverðskuldaðrar ólukku, en veisluglaða eyðsluklóin, sem varði pening sínum mannúðarlega, verður álitinn óábyrgur vitleysingur.
Allt er þetta aðeins formáli. Ég vil segja, í fullri alvöru, að í nútímanum er miklu tjóni valdið af trúnni á dyggð vinnunnar, og að vegurinn til hamingju og velsældar liggur í því að draga skipulega úr vinnu.
Fyrst af öllu: Hvað er vinna? Vinna er af tvennum toga: í fyrsta lagi, að færa til efni á eða við yfirborð jarðar, í afstöðu við annað slíkt efni; í öðru lagi, að segja fólki að gera það. Fyrri gerðin er óskemmtileg og illa launuð; sú seinni er ánægjuleg og vel launuð. Seinni gerðina má útvíkka endalaust: ekki aðeins er fólk sem veitir fyrirmæli heldur fólk sem veitir ráð um hvaða fyrirmæli skuli gefa. Yfirleitt eru tvö andstæð ráð gefin í sömu mund, af tveimur ólíkum hópum; það nefnist stjórnmál. Hæfnin sem þarf til slíkrar vinnu er ekki þekking á þeim viðfangsefnum sem ráðin snúast um heldur þekking á þeirri list að tala og skrifa með sannfæringarmætti, það er þekking á auglýsingagerð.
Í allri Evrópu, ekki þó í Bandaríkjunum, má finna þriðja flokk manna, sem nýtur meiri virðingar en vinnandi stéttirnar tvær. Það eru menn sem með eignarhaldi á landi geta látið aðra greiða sér fyrir þau forréttindi að mega vera til og vinna. Þessir landeigendur eru iðjulausir og ef til vill má gera ráð fyrir að ég myndi, af þeim sökum, hrósa þeim. Því miður er iðjuleysi þeirra aðeins gert mögulegt með iðjusemi annarra; og reyndar er þrá þeirra eftir hægindalegu iðjuleysi sögulegur uppruni alls heila guðspjallsins um vinnuna. Það síðasta sem þeir hafa nokkurn tíma óskað er að aðrir myndu fylgja fordæmi þeirra.
Frá upphafi siðmenningar, allt að iðnbyltingunni, gat hver maður að jafnaði, með mikilli fyrirhöfn, ekki framleitt mikið meira en þurfti til að tryggja afkomu hans og fjölskyldu hans, jafnvel þó að kona hans ynni að minnsta kosti jafn hörðum höndum og börnunum væri bætt við vinnuaflið um leið og þau höfðu aldur til. Hinn litli ávinningur umfram brýnustu nauðsynjar stóð ekki eftir handa þeim sem framleiddu hann, heldur var hann gerður upptækur af prestum og herjum. Á tímum hungursneyða var ekkert umfram; herirnir og prestarnir tryggðu sér þó jafn mikið og á öðrum tímum, með þeim afleiðingum að þau sem unnu dóu úr hungri. Þetta kerfi hélst við lýði í Rússlandi til ársins 1917, og er enn til staðar í austri; á Englandi hélst það að öllu leyti við lýði, þrátt fyrir iðnbyltinguna, gegnum Napóleonsstríðin og þar til fyrir hundrað árum síðan, þegar ný stétt framleiðenda öðlaðist vald. Í Ameríku lauk þessu fyrirkomulagi með byltingunni, nema í suðri þar sem það viðhélst fram að borgarastyrjöldinni. Kerfi sem entist svona lengi og lauk svo nýverið hefur auðvitað skilið eftir sig djúp áhrif á hugsanir og skoðanir fólks. Margt sem við álítum sjálfsagt, um kosti þess að vinna, er arfur frá þessu kerfi og, þar sem það er upprunnið fyrir iðnbyltingu, ekki aðlagað að nútímanum. Nútímatækni hefur gert mögulegt að tómstundir verði, innan marka, ekki forskot fámennra forréttindastétta, heldur réttindi sem má útdeila jafnt um samfélagið. Siðferði vinnunnar er siðferði þræla og heimur nútímans hefur enga þörf fyrir þrældóm.
Það er augljóst að í frumstæðum samfélögum hefðu bændur, að eigin frumkvæði, ekki sagt skilið við ágóðann sem herir og prestar lifðu á, heldur annað hvort framleitt minna eða neytt meira. Til að byrja með voru þeir knúnir með beinni valdbeitingu til að framleiða og skilja við umframmagnið. Hægt og bítandi, hins vegar, reyndist mögulegt að hvetja marga þeirra til að fallast á siðferði sem hermdi að það væri skylda þeirra að leggja hart að sér, þó að hluti af vinnu þeirra rynni til að styðja við iðjuleysi annarra. Með þessari aðferð mátti beita minni þrýstingi, og kostnaðurinn dróst saman. Allt til þessa dags yrðu níutíu og níu prósent breskra launþega raunverulega felmtri slegnir ef stungið væri upp á því að konungurinn ætti ekki að hafa hærri tekjur en vinnandi maður. Hugmyndin um skyldu hefur, sögulega séð, verið aðferð sem valdhafar beita aðra til að þeir lifi í þágu hagsmuna drottnara sinna frekar en sinna eigin. Auðvitað dylja valdhafar þessa staðreynd frá sjálfum sér með því sannfæra sig um að hagsmunir þeirra séu þeir sömu og hagsmunir mannkyns. Stundum er þetta satt; þrælahaldarar í Aþenu, til dæmis, nýttu hluta af tómstundum sínum til að færa varanlegt framlag til siðmenningar sem hefði verið óhugsandi í réttlátu hagkerfi. Tómstundir eru lykilþáttur siðmenningarinnar og á fyrri tímum voru tómstundir fárra aðeins gerðar mögulegar með erfiði margra. En vinnuframlag þeirra var verðmætt, ekki vegna þess að vinna sé góð, heldur vegna þess að tómstundir eru góðar. Og með tækni nútímans væri mögulegt að útdeila tómstundum með réttmætum hætti, án þess að baka siðmenningunni tjón.
Nútímatækni hefur gert mögulegt að draga stórkostlega úr því magni af vinnu sem þarf til að framleiða lífsnauðsynjar fyrir alla. Þetta varð augljóst í stríðinu. Á þeim tíma voru allir karlmenn í hernum, allir karlar og konur sem tóku þátt í framleiðslu hergagna, allir karlar og konur sem tóku þátt í njósnum, í stríðsáróðri eða opinberum embættum sem tengdust stríðinu, fjarlægð úr framleiðslustörfum. Þrátt fyrir það var almennt stig efnislegrar velferðar launafólks í löndum bandamanna hærra en það var fram að því eða að stríðinu loknu. Vægi þessarar staðreyndar var dulið með fjármálum; lántökur létu lita út fyrir að framtíðin nærði núið. En það hefði auðvitað verið ómögulegt; enginn maður getur borðað brauðhleif sem enn er ekki til. Stríðið sýndi óyggjandi að með vísindalegu skipulagi framleiðslunnar er mögulegt að viðhalda ágætum þægindum fyrir íbúa nútímans með litlum hlut af vinnuafli hans. Ef vísindalega skipulaginu sem var komið á laggirnar í stríðinu til að leysa fólk undan störfum, til að sinna átökum og hergagnaframleiðslu, hefði verið viðhaldið þegar stríðinu lauk, og vinnudagurinn styttur niður í fjórar stundir, þá hefði allt farið vel. Þess í stað var gamla óreiðan endurheimt, þau sem voru krafin um vinnu voru látin vinna langa daga, og aðrir látnir svelta í atvinnuleysi. Hvers vegna? Vegna þess að vinnan er skylda og maðurinn ætti ekki að fá laun í hlutfalli við það sem hann hefur framleitt heldur í hlutfalli við dyggð sína, eins og hún birtist í iðjusemi hans.
Þetta er siðferði þrælaríkisins, heimfært upp á kringumstæður sem eru gjörólíkar þeim sem það varð til við. Engin furða að afleiðingarnar hafa verið skelfilegar. Tökum dæmi. Ímyndum okkur að á tilteknum tíma fáist ákveðinn fjöldi fólks við framleiðslu á nælum. Þau framleiða allar nælur sem heimurinn þarfnast með því að vinna (til dæmis) átta tíma á dag. Einhver gerir uppgötvun þannig að sami fjöldi fólks getur framleitt tvöfalt fleiri nælur en áður. En heimurinn þarf ekki tvöfalt fleiri nælur: nælur eru þegar svo ódýrar að varla verður nokkur einasta keypt í viðbót þó að verðið lækki. Í skynsömum heimi myndu allir sem fást við framleiðslu næla taka að vinna í fjórar stundir í stað átta, og allt annað héldi áfram eins og ekkert hefði í skorist. En í heiminum eins og hann er væri það talið siðspillandi. Fólkið myndi enn vinna í átta stundir, til yrðu of margar nælur, sumir vinnuveitendur færu á hausinn og helmingur fólksins sem áður fékkst við framleiðslu á nælum missir vinnuna. Að endingu verður úr nákvæmlega jafn mikill frítími og samkvæmt hinni áætluninni, en helmingur mannanna er nú alfarið iðjulaus á meðan hinn helmingurinn vinnur enn baki brotnu. Á þann hátt er tryggt að óhjákvæmilegar tómstundir valdi allskostar eymd frekar en að verða almenn uppspretta hamingju. Er hægt að ímynda sér nokkuð klikkaðra?
Sú hugmynd að fátækir skyldu eiga sér frítíma hefur alltaf verið eitthvað sem þeim ríku bregður við. Í Englandi á nítjándu öld unnu menn að jafnaði fimmtán tíma á dag; börn unnu stundum annað eins og mjög oft tólf stundir á dag. Þegar afskiptasamir vandræðagemsar stungu upp á því að ef til vill væru þetta heldur langir vinnudagar, var þeim sagt að vinnan héldi fullorðnu fólki frá drykkju og börnum frá óknyttum. Þegar ég var barn, stuttu eftir að að verkamenn í borgum fengu atkvæðisrétt, var stofnað til ákveðinna opinberra frídaga með lögum, til mikillar hneykslunar efri stéttanna. Ég man eftir að heyra gamla hertogaynju segja „Hvað vill fátækt fólk með frídaga? Þau eiga að vinna.“ Í dag er fólk ekki jafn beinskeytt en þessi sýn heldur velli og er uppruni mikils efnahagslegs ruglings.
Skoðum nú, eitt andartak, siðferði vinnunnar heiðarlega og hjátrúarlaust. Sérhver manneskja neytir í lífi sínu, af nauðsyn, ákveðins magns af varningi sem framleiddur er með vinnu fólks. Ef við gerum ráð fyrir því, eins og má, að vinna sé í það heila ónotaleg, þá er óréttmætt að maður neyti meira en hann framleiðir. Auðvitað getur hann fært fram aðra þjónustu en kaupvarning, eins og til dæmis læknar gera; en í skiptum fyrir fæði og húsnæði ætti hann þó að færa eitthvað fram. Að þessu marki ber að viðurkenna vinnu sem skyldu, en aðeins að þessu marki.
Ég ætla ekki að fást við þá staðreynd að í öllum nútímasamfélögum utan Sovétríkjanna kemst margt fólk hjá því að leggja jafnvel þessa lágmarksvinnu af mörkum, það er allir þeir sem erfa fé eða giftast því. Ég lít ekki svo á að sú staðreynd að þessu fólki er leyft að vera iðjulaust sé nærri því jafn skaðleg og sú staðreynd að launafólki er ætlað að vinna yfir sig eða svelta. Ef venjuleg launamanneskja ynni fjórar stundir á dag væri nóg til fyrir alla og ekkert atvinnuleysi – að því gefnu að vinnan færi fram með hóflega vitrænu skipulagi. Þessi hugmynd hneykslar betur stadda, vegna þess að þau eru sannfærð um að fátækt fólk myndi ekki kunna með svo mikinn frítíma að fara. Í Bandaríkjunum vinna margir langa daga jafnvel þegar þeir eru þegar vel stæðir; slíkir menn fyrirlíta auðvitað hugmyndina um tómstundir fyrir launafólk nema þá sem hina grimmdarlegu refsingu sem atvinnuleysi er, í reynd mislíka þeim jafnvel tómstundir sona sinna. Eins einkennilegt og það er, þá óska þeir þess að synir þeirra vinni svo mikið að þeir hafi engan tíma til að vera siðmenntaðir, en er um leið sama þó að konur þeirra og dætur hafi enga vinnu yfirleitt. Hin snobbaða aðdáun gagnsleysisins, sem í samfélagi hefðarstétta nær til beggja kynja, er í auðræðissamfélagi bundin konum; það, hins vegar, veitir henni ekki meira samræmi við almenna skynsemi.
Viturleg beiting frítíma, verður að játast, er afurð siðmenningar og menntunar. Manni sem hefur unnið langa daga allt sitt líf fer að leiðast ef hann verður skyndilega iðjulaus. En án umtalsverðra tómstunda er maður aðskilinn frá öllu því besta. Það er ekki lengur nein ástæða til að þorri almennings skyldi þola þá vöntun; aðeins bjálfaleg meinlætahyggja, yfirleitt fyrir annarra hönd, lætur okkur halda til streitu yfirgengilegu magni af vinnu sem ekki er lengur þörf fyrir.
Um leið og margt er afar ólíkt með þeirri nýju kreddu sem stjórnvöld í Rússlandi aðhyllast og hefðbundnum viðmiðum Vesturlanda, þá er sumt óbreytt. Viðhorf valdastétta, sérstaklega þeirra sem stýra áróðri menntakerfisins, um reisnina sem felist í vinnu, er næstum nákvæmlega það sama og valdastéttir heimsins hafa alltaf prédikað til þeirra sem nefnd voru „heiðvirðir fátæklingar“. Iðjusemi, vímuleysi, og viljinn til að vinna löngum stundum fyrir fjarlægan ávinning, jafnvel undirgefni við yfirvald, allt þetta birtist á ný; auk þess sem yfirvaldið birtist enn í umboði þess sem drottnar yfir alheiminum, sem nú gengur hins vegar undir nýju nafni: söguleg efnishyggja.
Sigur verkalýðsins í Rússlandi á ákveðna þætti sameiginlega með sigri femínista í sumum öðrum löndum. Í margar aldir höfðu karlmenn játast yfirburða heilagleika kvenna og huggað konur fyrir vanmátt þeirra með þvi að fullyrða að heilagleikinn væri eftirsóknarverðari en vald. Femínistar ákváðu loks að þeir vildu hafa hvort tveggja, þar sem frumkvöðlar í þeirra hópi trúðu öllu sem karlmenn höfðu sagt þeim um ákjósanleika dyggðarinnar en ekki það sem þeir höfðu sagt um fánýti pólitísks valds. Nokkuð svipað hefur gerst í Rússlandi hvað varðar erfiðisvinnu. Öldum saman hafa auðmenn og slefberar þeirra skrifað lofgjörðir „heiðvirðrar vinnu“, lofsungið hið einfalda líf, haldið uppi trúarbrögðum sem kenna að fátækir séu langtum líklegri til að komast til himna en ríkir, og almennt reynt að láta handverkafólk trúa að einhver sérstök öðlun felist í því að breyta staðsetningu efnis í rými, rétt eins og karlmenn reyndu að sannfæra konur um að sérstök náð lægi í kynferðislegri undirokun þeirra. Í Rússlandi hefur öll þessi innræting um stórfengleik erfiðisvinnunnar verið tekin alvarlega, með þeirri niðurstöðu að verkamaðurinn er heiðraður öðrum fremur. Þessu sem er í reynd boðskapur af ætt kristinna endurfæðingarsöfnuða er haldið fram til að tryggja fyrirmyndarverkamenn í sérverkefni. Erfiðisvinna er draumsýnin sem haldið er að ungu fólki og grundvöllur allrar siðfræðikennslu.
Hér og nú er það allt til góðs. Stórt land, fullt af náttúruauðlindum, bíður þróunar og þarf að þróast án greiðs aðgangs að lánum. Í þeim kringumstæðum er erfiðisvinna nauðsynleg og líkleg til að uppskera ríkulega. En hvað verður þegar þeim áfanga er náð að allir gætu haft það náðugt án langra vinnudaga?
Á Vesturlöndum höfum við ólíkar leiðir til að fást við þann vanda. Við gerum enga tilraun til efnahagslegs réttlætis, svo að stór hluti af heildarframleiðslunni fer til lítils minnihluta íbúanna, sem margir inna alls enga vinnu af hendi. Þökk sé því að framleiðsla lútir engri miðlægri stýringu framleiðum við fjölda hluta sem enginn vill. Við höldum stórum hlut af vinnandi fólki við iðjuleysi, því að við getum verið án krafta þess með því að láta aðra vinna yfir sig. Þegar allar þessar aðferðir reynast ekki nóg höfum við stríð: við fáum fjölda fólks til að framleiða stórar sprengjur og fjölda annarra til að sprengja þær, eins og við værum börn sem hefðum nýuppgötvað flugelda. Með samnýtingu allra þessara leiða tekst okkur, þó með herkjum, að halda þeirri hugmynd til streitu að meðalmanneskjan þurfi að vinna töluvert mikla erfiðisvinnu.
Í Rússlandi, þökk sé efnahagslegu réttlæti og miðlægri stýringu framleiðslunnar, þarf að leysa vandann með öðrum hætti. Skynsamlega lausnin væri að fækka vinnustundum hægt og bítandi um leið og séð er fyrir öllum nauðsynjum og grundvallarhægindum, ákveða með þjóðaratkvæðagreiðslu, á hverju stigi, hvort er eftirsóknaraverðara, fleiri tómstundir eða meiri framleiðsla. En þegar búið er að kenna að erfiðisvinna sé hin æðsta dyggð, þá er erfitt að sjá hvernig yfirvöld geta stefnt að paradís þar sem yrðu mikið frí og lítil vinna. Það virðist líklegra að þau muni stöðugt finna nýjar aðferðir til að fórna tómstundum hér og nú í þágu aukinnar framleiðni síðar meir. Ég las nýverið um snilldarlega áætlun sem rússneskir verkfræðingar settu saman um að verma Hvítahaf og Síberíu, með því að stífla Karasund. Lofsverð áætlun, en líklegt að hún myndi slá þægindum verkafólks á frest um eina kynslóð, á meðan sýnt er fram á dyggðir erfiðisvinnunnar á ísbreiðum og í snjóstormum Norður-íshafsins. Svona hlutir, ef þeir gerast, verða afleiðing þess að líta á dyggðir erfiðisvinnunnar sem markmið í sjálfu sér, frekar en leið að þeirri stöðu mála að ekki sé lengur þörf fyrir hana.
Staðreyndin er sú að um leið og nauðsynleg þörf er á því að færa efni milli staða upp að vissu marki, í þágu tilveru okkar, þá má leggja áherslu á að það er ekki á meðal markmiða mannlegrar tilveru. Ef svo væri, þá yrðum við að líta á hverja skurðgröfu sem æðri en Shakespeare. Við höfum látið afvegaleiða okkur um þetta af tveimur ástæðum. Sú fyrri er nauðsyn þess að halda fátækum sáttum, sem hefur í árþúsundir fengið ríkt fólk til að predika um reisn vinnunnar, um leið og þau leggja sig fram um að bera sjálf helst enga reisn í því tilliti. Hin er nýja ánægjan af vélum, sem fá okkur til að gleðjast yfir þeim sláandi snjöllu breytingum sem við getum gert á yfirborði jarðar. Hvorug þessara ástæðna höfðar sérstaklega til hins raunverulega verkamanns. Ef þú spyrð hann hvað hann álíti það besta við líf sitt, þá er ekki líklegt að hann segi „Ég nýt erfiðisvinnu vegna þess að hún færir mér þá tilfinningu að ég sé að uppfylla göfugasta hlutskipti mannsins, og vegna þess að mér finnst gott að hugsa til þess hvernig maðurinn getur ummyndað þessa plánetu. Það er satt að líkami minn þarfnast hvíldartíma, sem ég þarf að uppfylla eftir fremsta megni, en ég er aldrei jafn sæll og þegar morgnar og ég get aftur snúið mér að erfiðinu sem ánægja mín sprettur af.“ Ég hef aldrei heyrt vinnandi menn segja svona hluti. Þeir líta á vinnu, eins og ætti að líta á hana, sem nauðsynlega leið til framfærslu, og það er í tómstundunum sem þeir finna hvaða hamingju sem þeir geta notið.
Sagt verður að á meðan svolitlar tómstundir eru ánægjulegar, myndu menn ekki vita hvernig þeir ættu að fylla dagana ef þeir ynnu aðeins fjórar stundir af hverjum tuttugu og fjórum. Að því leyti sem það er satt um nútímann, þá liggur þar fordæming á siðmenningu okkar; það hefði ekki verið satt á neinum fyrri söguskeiðum. Áður var til geta til léttúðar og leikja sem hefur að einhverju leyti verið bæld af sértrúarsöfnuði framleiðninnar. Nútímamaðurinn heldur að allt ætti að gera í þágu einhvers annars, og aldrei í þágu sjálfs sín. Alvarlega sinnaðar manneskjur, til dæmis, eru látlaust að fordæma þann vana að fara í bíó og segja okkur að það leiði ungt fólk til glæpa. En öll vinnan sem fer í að framleiða kvikmyndir er virðingarverð, því hún er vinna, og vegna þess að hún færir ágóða. Sú hugmynd að eftirsóknarvert athæfi sé það sem færir ágóða hefur sett allt á hvolf. Slátrarinn sem færir þér kjöt og bakarinn sem færir þér brauð eru lofsverðir vegna þess að þeir græða pening en þegar þú nýtur matarins sem þeir framleiddu ert þú tilgangslaus, nema þá að þú borðir bara til að öðlast styrk til að vinna. Í grófum dráttum er því haldið á lofti að það að eignast pening sé gott en að eyða honum sé slæmt. Þar sem það eru tvær hliðar á sömu viðskiptunum er það fáránlegt; því mætti allt eins halda fram að lyklar séu góðir en skrárnar slæmar. Einstaklingurinn, í okkar samfélagi, vinnur fyrir ágóða; en samfélagslegur tilgangur vinnu hans felst í neyslu þess sem hann framleiðir. Það er þessi aðskilnaður á milli einstaklingsins og samfélagslegs tilgangs framleiðslunnar sem gerir mönnum svo erfitt að hugsa skýrt í heimi þar sem ágóði er hvatinn til iðjusemi. Við hugsum of mikið um framleiðslu og of lítið um neyslu. Ein afleiðingin er sú að við leggjum of litla áherslu á nautn og einfalda ánægju og að við dæmum framleiðsluna ekki eftir ánægjunni sem hún færir neytandanum.
Þegar ég legg til að stytta skyldi vinnudaginn í fjórar stundir, þá vil ég ekki gefa í skyn að eftirstandandi tíma skyldi endilega öllum verja í hreint tilgangsleysi. Ég á við að fjögurra tíma vinnudagur ætti að nægja manni fyrir nauðsynjum og lykilhægindum lífsins, og að afganginn af tíma sínum ætti hann að mega nota eins og hann lystir. Lykilþáttur í slíku félagslegu kerfi er að að menntun yrði að ganga lengra en hún gerir í dag, og ætti að miða að því, að hluta, að færa fólki smekk sem gerir því kleift að nota frítíma sinn viturlega. Þá er ég ekki að hugsa um þess háttar hluti sem myndu teljast „hámenning“. Þjóðdansar hafa dáið út nema í afskekktustu héröðum, en hvatinn sem varð til þróunar þeirra er enn til staðar í mannlegu eðli. Ánægjan sem íbúar borga njóta hefur að flestu leyti orðið óvirk: að horfa á kvikmyndir, að fylgjast með fótbolta, að hlusta á útvarpið og svo framvegis. Þetta er afleiðing þess að orka þeirra til virkni er fullnýtt til vinnu; ef þau hefðu fleiri tómstundir myndu þau aftur hafa ánægju af virkri þátttöku.
Í fortíðinni var til fámenn tómstundastétt og fjölmenn vinnandi stétt. tómstundastéttin naut forskots sem enginn fótur var fyrir í félagslegu réttlæti; þetta gerði hana óhjákvæmilega að kúgandi afli, takmarkaði samkennd hennar, og varð til þess að hún fann upp kenningar til að réttlæta forréttindi sín. Þessar staðreyndir drógu verulega úr ágæti hennar en þrátt fyrir þessa vankanta færði hún fram næstum allt sem við köllum siðmenningu. Hún nærði listirnar og uppgötvaði vísindin; hún skrifaði bækurnar, fann upp heimspekistefnurnar og fágaði félagsleg vensl. Jafnvel frelsun kúgaðra hefur yfirleitt komið til sögunnar að ofan. Án tómstundastéttanna hefði mannkyn aldrei komist upp úr villimennsku.
Sú aðferð að arfgeng tómstundastétt bæri engar skyldur fól hins vegar í sér gríðarlega sóun. Enginn meðlima stéttarinnar lærði iðjusemi og stéttin í heild var ekki sérlega greind. Hún framleiddi ef til vill einn Darwin, en á móti honum stóðu tugir þúsunda óðalseigenda til sveita sem látu sér aldrei detta neitt snjallara í hug en refaveiðar og að refsa veiðiþjófum. Sem stendur eiga háskólar að veita, með kerfisbundnari hætti, það sem tómstundastéttin veitti fyrir slysni og sem aukaafuurð. Það er mikil framför, en hefur ákveðna vankanta. Háskólalífið er svo ólíkt lífinu í heiminum í heild, að menn sem lifa í akademísku umhverfi hneigjast til að vita ekki af hugðarefnum venjulegra karla og kvenna; ennfremur eru tjáningarleiðir þeirra yfirleitt með þeim hætti að skoðanir þeirra hafa ekki áhrifin sem þær ættu að hafa á almenning. Annar galli er að í háskólum eru rannsóknir skipulagðar, og líklegt að maðurinn sem lætur sér detta í hug eitthvert nýtt rannsóknarsvið mæti fortölum. Akademískar stofnanir, eins gagnlegar og þær eru, nægja því ekki til að standa vörð um hagsmuni siðmenningarinnar í heimi þar sem sérhver utan veggja þeirra er of upptekinn fyrir nokkra ónytsama iðju.
Í heimi þar sem enginn þarf að vinna meira en fjóra tíma á dag mun sérhver manneskja með vísindalega forvitni geta svalað henni og sérhver málari geta málað án þess að svelta, hversu frábærar sem myndir hans eru. Ungir rithöfundar munu ekki þurfa að vekja athygli á sjálfum sér með ólgandi reyfurum, í því augnamiði að öðlast efnahagslegt sjálfstæði til að skrifa tilkomumikil verk, sem þeir hafa misst bæði smekk og getu til, þegar tíminn loksins gefst. Menn sem í atvinnustarfsemi sinni hafa fengið áhuga á einhverjum þætti efnahagsmála eða stjórnmála geta þróað hugmyndir sínar án þeirrar akademísku fjarrænu sem veldur því að verk hagfræðinga við háskóla skortir raunsæi. Læknar munu hafa tíma til að læra um þróun læknisfræðinnar. Kennarar verða ekki í dauðans angist að rembast við að kenna eftir þeirri rútínu sem þeir lærðu í sinni æsku, sem gæti í millitíðinni hafa reynst röng.
Öllu öðru fremur þá verður hamingja og gleði í tilverunni, í stað slitinna tauga, þreytu og magaverkja. Unnin verður næg vinna til að gera tómstundirnar ánægjulegar, en ekki næg til að framkalla örmögnun. Þar sem fólk verður ekki þreytt í frítíma sínum mun það ekki aðeins krefjast óvirkra og innantómra skemmtana. Að minnsta kosti eitt prósent mun líklega verja þeim tíma sem atvinnan krefst ekki til að fást við mál sem hafa almennt mikilvægi og, þar sem þau verða ekki háð þeirri iðju um afkomu, þá verður frumleiki þeirra óheftur og engin þörf til að fylgja þeim línum sem aldraðir álitsgjafar hafa lagt. En það er ekki aðeins í þessum sérstöku tilfellum sem ávinningur verður af tómstundum. Þegar venjulegir karlar og konur eiga kost á hamingjuríku lífi verða þau góðgjarnari, hneigjast síður til ofsókna og síður til tortryggni í garð annarra. Smekkur fyrir stríðum mun fjara út, að hluta af þessari ástæðu, og að hluta vegna þess að þau munu fela í sér langa og erfiða vinnu fyrir alla. Gott upplegg er, af öllum siðferðiskostum, sá sem heimurinn þarf mest á að halda, og gott upplegg er afurð slökunar og öryggis, ekki viðvarandi, harðneskjulegs erfiðis. Framleiðsluhættir nútímans hafa opnað okkur möguleikann á slökun og öryggi fyrir öll; við höfum þess í stað valið að sumir vinni yfir sig en aðrir svelti. Enn sem komið er, erum við jafn ötul og áður en vélar urðu til. Að því leyti höfum við verið vitleysingar, en það er ástæðulaust að viðhalda þeirri vitleysu um alla tíð.
↑1 | Höfundarréttur frumtexta, 1935: The Bertrand Russell Peace Foundation Ltd. Höfundarréttur þýðingarinnar, 2023: HMH. |
---|