Daginn eftir tímamótin sem ég minntist á um daginn, þegar ég gerði mér grein fyrir að ég hefði hvergi lofað mér framar, hefði ekkert á dagskránni það sem eftir er, hvorki dedlæn á morgun, matarboð um helgina, ráðstefnu með haustinu, ekkert, aldrei nokkurn tíma, að svo langt sem augað eygir væri aðeins tími, hugsanlega í fyrsta sinn í um aldarfjórðung, þá barst mér óvænt greiðsla, úr Bókasafnssjóði. Hún hefði auðvitað ekki verið óvænt ef ég fylgdist betur með, einhverjir vissu víst áreiðanlega að hennar væri að vænta, en ég hafði ekki gert mér grein fyrir því. Og fyrir útlán ársins 2022 fékk ég nægan pening til að festa kaup á skrifborði sem ég hafði haft augastað á frá því fyrr í mánuðinum.
Bókasöfn eru djásn. Ef þau væru ekki þegar til yrðu þau varla sett á laggirnar í dag – hvers vegna á almenningur að standa straum af kostnaði við áhugamál einstaklinga úti í bæ? Hvers eiga skattgreiðendur að gjalda? Launa fólki fyrir kyrrsetu, er það á meðal brýnustu hagsmunamála i þessu landi? Og hver á að velja bækur inn á þessi svonefndu söfn, ætlar hið opinbera að ákveða hvaða bækur fólk á að lesa? Nei, væri þá ekki nær að hvetja fólk til útivistar, efla lýðheilsu og styðja við golfvelli landsins?
Mér þykir vænt um að borðið sem ég sit nú við sé fjármagnað með lestri á því sem ég skrifaði við síðasta borð. Takk.
Skrifborð og tími. Hvað gerir maður við þetta tvennt?