Ekkert nema skrif­borð og tími

26.5.2023 ~ 1 mín

Daginn eftir tíma­mótin sem ég minnt­ist á um daginn, þegar ég gerði mér grein fyrir að ég hefði hvergi lofað mér framar, hefði ekkert á dagskránni það sem eftir er, hvorki dedlæn á morgun, matar­boð um helg­ina, ráðstefnu með haust­inu, ekkert, aldrei nokk­urn tíma, að svo langt sem augað eygir væri aðeins tími, hugs­an­lega í fyrsta sinn í um aldar­fjórð­ung, þá barst mér óvænt greiðsla, úr Bóka­safns­sjóði. Hún hefði auðvitað ekki verið óvænt ef ég fylgd­ist betur með, einhverjir vissu víst áreið­an­lega að hennar væri að vænta, en ég hafði ekki gert mér grein fyrir því. Og fyrir útlán ársins 2022 fékk ég nægan pening til að festa kaup á skrif­borði sem ég hafði haft auga­stað á frá því fyrr í mánuðinum.

Bóka­söfn eru djásn. Ef þau væru ekki þegar til yrðu þau varla sett á lagg­irnar í dag – hvers vegna á almenn­ingur að standa straum af kostn­aði við áhuga­mál einstak­linga úti í bæ? Hvers eiga skatt­greið­endur að gjalda? Launa fólki fyrir kyrr­setu, er það á meðal brýn­ustu hags­muna­mála i þessu landi? Og hver á að velja bækur inn á þessi svonefndu söfn, ætlar hið opin­bera að ákveða hvaða bækur fólk á að lesa? Nei, væri þá ekki nær að hvetja fólk til útivistar, efla lýðheilsu og styðja við golf­velli landsins?

Mér þykir vænt um að borðið sem ég sit nú við sé fjár­magnað með lestri á því sem ég skrif­aði við síðasta borð. Takk.

Skrif­borð og tími. Hvað gerir maður við þetta tvennt?