Hvenær kemurðu, þotan mín?

23.5.2023 ~ 2 mín

Það sem fer getur farið hvert sem er hvaðan sem er, það getur farið frá mér, héðan, eitt­hvert annað, en það getur líka farið milli tveggja annarra staða. Það sem kemur, hins vegar, það kemur hingað, til mín. Jólin koma, um daginn var komin helgi, nú er kominn þriðju­dagur, póst­ur­inn er kominn, skjalið er komið, ég er kominn heim, vinur minn er kominn í heim­sókn. Hvar ertu? Ég er á leið­inni, ég er rétt ókominn.

Og vegna þess að þetta er svona skýrt, bæði í íslensku og öðrum tungu­málum, að það sem kemur það kemur hingað, þá þótti mér forvitni­legt að sjá fyrir­sögn­ina „Hvenær koma F‑16 þoturnar?“ á frétta­vef RÚV á mánu­dag. Umræddar F‑16 þotur eru ekki á leið­inni hingað, ekki til Íslands, heldur til Úkraínu. Og þær eru ekki á leið­inni langt að, heldur frá löndum sem standa nær okkur, bæði land­fræði­lega og póli­tískt. Í frétt­inni er sagt að líklega verði Holland, Belgía og Danmörk fyrst til að senda herþotur til Úkraínu. Land­fræði­lega og póli­tískt væri því nær lagi að segja þær fara. Héðan. Og spyrja: hvenær fara þoturnar?

En fréttamið­ill­inn hefur áreið­an­lega ekki rangt fyrir sér, ekki í þessu. Ég er viss um að hér er rétt farið með tungu­málið, ekki bara að því leyti að þoturnar eru að koma heldur ríkir eftir­vænt­ing eftir þeim, líka á Íslandi, og við hæfi að spyrja: hvenær koma þær? Eins og lang­þráður gestur eða hátíð. Utan land­fræð­innar og utan hefð­bund­inna stjórn­mála er þá til þriðja víddin – og áreið­an­lega fleiri – en að minnsta kosti þessi þriðja sem birt­ist hér, empa­tísk nálægð. Fréttamið­ill­inn gerir ráð fyrir að lesendur samsami sig Úkraínu­búum, eða jafn­vel úkraínskum stjórn­völdum, og finni til með þeim á þann hátt að bíða í ofvæni eftir því að herþot­urnar komi. Þannig leyn­ist í þess­ari setn­ingu og sögn­inni að koma yfir­lýs­ing, eitt­hvað á við „Við erum Úkraína“. Og við þráum F‑16 herþotur.