Yfirleitt er eitthvað. Eitthvað. Afmæli. Vinna, auðvitað, dedlæn. Eitthvað framundan. En nú er ekkert. Frá og með deginum í dag, frá og með um klukkan þrjú síðdegis í dag þegar ég gekk út um dyr opinberrar stofnunar þar sem ég átti erindi með Dísu, þá er ekkert á dagskránni hjá mér. Enginn staður sem ég hef lofað að mæta á. Ekki neitt.
Þessir dagar eru fágætir. Maður er yfirleitt fljótur að bæta við sig skuldbindingum. Eða þær fljótar að bæta manni við sig. Og ég þarf reyndar örlítið að hliðra sýn minni til að þetta horfi svona við mér, því í ágúst á ég raunar tíma hjá lækni. Og á mánudag bíða mín gögn að líta á hjá skjalsafni. En hvort tveggja er að minni ósk, mér býðst það, en ég er ekki skyldugur.
Svo hliðrunin er ekki mikil. Það er ekki fjarri sanni að segja að ég hef hreinsað dagskrána mína. Ég hef ekki lofað mér eitt né neitt nokkurn tíma aftur. Innboxið er tómt. Borðið er hreint.