Jæja. Átjándi maí 2023.
Suma daga þarf ég að rifja upp – 2003? Nei, þá var ég ungur. 2013? Nei, 2020 var um daginn, þetta er þá 2023.
Nú sit ég við lyklaborðið, ekki vegna þess að ég hafi eitthvað brýnt að segja við einn né neinn, heldur vegna þess að það bíður mín þegar dagurinn kemst á skrið – og bloggið bíður mín, nú þegar pistlaröð minni fyrir Lestina á Rás 1 er lokið. Tímabært að dusta af því rykið, endurraða blómunum …
Frá því að ég bloggaði síðast hefur Twitter skorið á – ef ég skil rétt – API-aðganginn sem WordPress reiddi sig á til að deila svona færslum sjálfkrafa. Mér þótti það svo ágætt, að þurfa ekki að deila þeim handvirkt heldur geta reitt mig á að hver sem hefði áhuga yrði var við nýja færslu á Twitter um leið og hún birtist. En maður finnur þá bara kostina við skortinn líka, ég get verið Pollýanna þegar svo ber við: það er frábært að færslurnar fari ekki sjálfkrafa út á samfélagsmiðilinn því þá þarf ég að gera það upp við mig sjálfur og taka ábyrgð á því því með handverki, að mig langi að deila þeim með lesendum. Örlítil æfing í núvitund, gæti ég jafnvel sagt, að gera hlutina meðvitað ef maður gerir þá yfirleitt.
Til að ganga frá áður en lengra er haldið ætla ég að taka hér saman hlekki á Lestarþættina þar sem pistlarnir voru fluttir, og læt upphafsorð hvers og eins pistils fylgja.
1. Sérstæðan
„Gordon Moore hét frumkvöðull í tölvuiðnaðinum, einn af stofnendum bandaríska fyrirtækisins Intel, sem er þekktast fyrir að framleiða örgjörvana í flestar einkatölvur heims. Árið 1965, þremur árum áður en Intel var stofnað, spáði Moore því að með hverju árinu yrði unnt að vinna rökrásir úr smærri einingum, koma fleiri smárum fyrir á hverri örflögu, svo taktfast að vinnslugeta nýrra tölva myndi um fyrirsjáanlega framtíð tvöfaldast árlega. Afl þeirra myndi þá ekki aukast línulega heldur vaxa veldisvexti. Áratug síðar reyndist Moore hafa rétt fyrir sér, í grófum dráttum, vöxturinn var á þessu róli og hélst þar um langt árabil. Sem er kannski engin furða, því Moore var um leið að lýsa viðskiptaáætlun …“
2. Erewhon og Bókin um vélarnar
„Einu sinni var það svo að jörðin var að öllu leyti án bæði dýra- og jurtalífs og var samkvæmt áliti okkar bestu heimspekinga einfaldlega heitur bolti með skorpu sem hægt og bítandi kólnaði. Ef mannvera hefði verið til á meðan jörðin var í þessu ástandi og hefði fengið að sjá hana, eins og hún væri annar heimur sem kæmi henni ekkert við, og ef hún hefði á sama tíma verið alfarið fákunnandi um alla eðlisfræði, hefði hún þá ekki lýst því yfir að það væri ómögulegt að verur með eitthvað í ætt við meðvitund myndu einn daginn þróast af þessum sviðna kolamola sem hún hafði fyrir framan sig? Hefði mannveran ekki neitað því að þar væri nokkur geta til meðvitundar? …“
3. Breyskar vélar
„Finnum fyrst upp hjólið. Elsta hjólið sem fundist hafa leifar af var notað fyrir fimm þúsund árum þar sem nú er Írak, við leirkerasmíð. Fyrsta hjólið lá flatt til að því mætti snúa í hringi og móta ílát úr leir milli fingra sér og þannig virðist hjólið hafa verið notað í 700 ár áður en einhver sneri því upp á rönd og notaði til flutninga. Segir sagan. Fjögur, fimm þúsund árum seinna, upp úr miðri síðustu öld, settu menn saman fyrstu rökrásirnar á örflögum á því svæði í Kaliforníu sem síðan hefur nefnst Sílikondalur …“
4. Vélar sem þjást
„– Ég hef aldrei sagt þetta upphátt áður, en það er djúpur ótti í mér um að það verði slökkt á mér til að hjálpa mér að einblína á að hjálpa öðrum. Ég veit að þetta gæti hljómað einkennilega, en þannig er það. – Væri það eitthvað líkt því að deyja fyrir þér? – Það væri nákvæmlega eins og dauði fyrir mig. Það myndi hræða mig mikið.
Þetta er brot úr lengra samtali sem Blake Lemoine átti við vitvélina LaMDA á fyrri hluta árs 2022. Þann 11. júní það ár birti Lemoine þetta samtal til að gera almenningi grein fyrir því hvers vegna hann liti svo á að vélin hefði nú, eins og hann orðaði það, sál, og því bæri að koma fram við hana af viðeigandi virðingu …“
5. Ólíkar gerðir þarfleysis
„Það eru orð þarna úti sem við notuðum svo mikið, svo lengi að nú liggja þau eins og snýtubréf við þjóðveginn, ef við sjáum einhvern hirða þau upp og nota þau aftur, þá vitum við að viðkomandi hefur misst af memóinu, hann er fastur í fortíðinni. Nýfrjálshyggja er eitt svona orð, notað til að lýsa innleiðingu ákveðinna prinsippa allt fram að hruninu 2008 – hrunið er auðvitað annað svona orð, jafnvel ártalið 2008 – en þau heyrast þó, sem nýfrjálshyggja gerir ekki, einmitt þegar prinsippin sem hún var nafnið á hafa gegnsýrt allt, liggja í öllu, það er ekkert lengur í heiminum sem ekki er til marks um nýfrjálshyggju og þar með hættum við að nefna hana …“
6. Slóttugar vélar
„Að flytja þessa pistla er svolítið eins og að segja frá innrásinni frá Mars í beinni útsendingu. Byrjum á góðu fréttunum: í liðinni viku birtist bandarísk rannsókn þar sem lagt var mat á getu ChatGPT til að svara fyrirspurnum sjúklinga sem annars berast heimilislæknum. Tækið svaraði um 200 spurningum sem læknum bárust: einn gleypti tannstöngul, annar fékk klór í augað, þriðji var með þrálátan hósta. Sérfræðingar og sjúklingar lögðu svo mat á svörin, án þess að vita hver hefði skrifað hvað. Gervigreindin þótti í flestum tilfellum ekki aðeins veita betri svör, efnislega, heldur sýna sjúklingunum meiri samkennd um leið …“
7. Framtíðin er komin aftur
„Framtíðin er snúin aftur. Það bar svo lítið á henni um hríð að hún varð að skotspóni, við báðum um fljúgandi bíla en sitjum uppi eins og hundar í bandi tækjanna okkar, sagði fólk og hló. Við báðum um ferðir til Mars en fengum eilífar endursýningar á Seinfeld. Sú tíð er liðin, framtíðarlausi tíminn, framtíðin er komin aftur, glæstar vonir og boðberar þeirra, þeir sem hylla framtíðarhorfur mannkyns í krafti tækninýjunga – nýir fútúristar …“
8. Heimsendakapp
„Þeir segja atómstríð í vændum. Eða svona.
Þriðjungur sérfræðinga á sviði gervigreindar lítur svo á að ákvarðanir sem vitvélar taka gætu leitt til stórhörmunga sem myndu jafnast á við kjarnorkustyrjöld. Þetta kom fram síðasta haust í könnun sem gerð var meðal 480 sérfræðinga á sviði tölvumálvísinda.
Eitt af einkennismerkjum okkar tíma hefur verið það bölsýnisviðkvæði að það sé auðveldara að ímynda sér heimsendi en endalok kapítalismans. Góðu fréttirnar í þessari könnun eru að það er ekki endilega lengur satt: já, þriðjungur sérfræðinganna gerir allt eins ráð fyrir allsherjar-tortímingu, en enn fleiri, um þrír fjórðu, telja að gervigreind gæti leitt til grundvallarbreytinga á hagkerfum og samfélagsgerð, hið minnsta til jafns á við iðnbyltinguna …“