Um daginn sá ég frétt um gjaldtöku af flugfélögum, þar sem aðeins var rætt við einn mann, forstjóra Icelandair. Hann sagði að sér þætti gjaldtakan slæm hugmynd. Það eru ekki fréttir, og raunar varla orð, hann beinlínis vinnur við að finnast það slæm hugmynd, hann yrði rekinn ef hann segði það ekki. Þetta var svolítið eins og að hlusta á sjálfvirkan símsvara.
Í tengslum við hryðjuverkamálið hafa ummæli verjanda sakborninganna ítrekað orðið að fyrirsögnum, oftast eitthvað í þá veru að það sé nú hreint ekki víst að þetta standist allt saman. Það eru ekki heldur orð, þau færa lesendum engar upplýsingar því það er fyrirframgefið að einmitt það hlýtur verjandinn að segja, hann vinnur við það, honum er það skylt. Símsvari.
Og nú les ég frétt frá RÚV um að streymisveitan Storytel hyggist láta tölvur leysa leikara af hólmi, láta vélraddir lesa bækur. Það blasir við að þetta mun gerast víða næstu misserin, að vélar munu leysa fólk af hólmi við eitt og annað. Það mun gerast vegna hagræðisins. Í fréttinni er rætt við „samskiptastjóra“ fyrirtækisins. Ég geri ráð fyrir að það sé heiti á sömu stöðu og upplýsingafulltrúi, það er eins konar símsvarastaða. Samskiptastjórinn segir af og frá að málið snúist um hagræði og ávinning heldur snúist það um lesendur, sem eigi „skilið val um hver les“. Hver, í merkingunni enginn, auðvitað, því vélin er ekki beinlínis persóna og hún les ekki beinlínis eitt né neitt, en látum það liggja á milli hluta: lesendur eiga skilið að velja hvers konar rödd það er sem færir þeim orð úr bókum. Við vissum það ekki áður en nú verður ranglætið leiðrétt, við fáum loks það sem við eigum skilið.
Þetta eru þó orð að því leyti sem þau eru villandi, útúrsnúningur, og þar með ekki hundrað prósent fyrirsjáanleg, ólíkt orðum forstjórans og verjandans í hinum dæmunum. En eftir sem áður líður mér eins og það sé verið að hafa mig að fífli þegar ég tek á móti frétt eftir frétt þar sem látið er eins og launaðir fulltrúar hagsmunaaðila – símsvarar – séu marktækir viðmælendur, orð þeirra feli í sér skoðanir, á bakvið þau sé sál, eða að minnsta kosti persóna, dómgreind, afstaða og tilfinningar.
Það er auðvitað þess vegna sem gervigreindin mun mjög auðveldlega koma sér fyrir á meðal okkar, ryðja sér til rúms, gerir það nú þegar, við vorum löngu búin að tæma okkur að innan, hegða okkur eins og vitvélar sjálf, og láta sem ekkert sé.