Hver er ekki vitvél?

14.6.2023 ~ 2 mín

Um daginn sá ég frétt um gjald­töku af flug­fé­lögum, þar sem aðeins var rætt við einn mann, forstjóra Icelandair. Hann sagði að sér þætti gjald­takan slæm hugmynd. Það eru ekki fréttir, og raunar varla orð, hann bein­línis vinnur við að finn­ast það slæm hugmynd, hann yrði rekinn ef hann segði það ekki. Þetta var svolítið eins og að hlusta á sjálf­virkan símsvara.

Í tengslum við hryðju­verka­málið hafa ummæli verj­anda sakborn­ing­anna ítrekað orðið að fyrir­sögnum, oftast eitt­hvað í þá veru að það sé nú hreint ekki víst að þetta stand­ist allt saman. Það eru ekki heldur orð, þau færa lesendum engar upplýs­ingar því það er fyrir­fram­gefið að einmitt það hlýtur verj­and­inn að segja, hann vinnur við það, honum er það skylt. Símsvari.

Og nú les ég frétt frá RÚV um að streym­isveitan Stor­ytel hygg­ist láta tölvur leysa leik­ara af hólmi, láta vélraddir lesa bækur. Það blasir við að þetta mun gerast víða næstu miss­erin, að vélar munu leysa fólk af hólmi við eitt og annað. Það mun gerast vegna hagræð­is­ins. Í frétt­inni er rætt við „samskipta­stjóra“ fyrir­tæk­is­ins. Ég geri ráð fyrir að það sé heiti á sömu stöðu og upplýs­inga­full­trúi, það er eins konar símsvarastaða. Samskipta­stjór­inn segir af og frá að málið snúist um hagræði og ávinn­ing heldur snúist það um lesendur, sem eigi „skilið val um hver les“. Hver, í merk­ing­unni enginn, auðvitað, því vélin er ekki bein­línis persóna og hún les ekki bein­línis eitt né neitt, en látum það liggja á milli hluta: lesendur eiga skilið að velja hvers konar rödd það er sem færir þeim orð úr bókum. Við vissum það ekki áður en nú verður rang­lætið leið­rétt, við fáum loks það sem við eigum skilið.

Þetta eru þó orð að því leyti sem þau eru vill­andi, útúr­snún­ingur, og þar með ekki hundrað prósent fyrir­sjá­an­leg, ólíkt orðum forstjór­ans og verj­and­ans í hinum dæmunum. En eftir sem áður líður mér eins og það sé verið að hafa mig að fífli þegar ég tek á móti frétt eftir frétt þar sem látið er eins og laun­aðir full­trúar hags­muna­að­ila – símsvarar – séu mark­tækir viðmæl­endur, orð þeirra feli í sér skoð­anir, á bakvið þau sé sál, eða að minnsta kosti persóna, dómgreind, afstaða og tilfinningar.

Það er auðvitað þess vegna sem gervi­greindin mun mjög auðveld­lega koma sér fyrir á meðal okkar, ryðja sér til rúms, gerir það nú þegar, við vorum löngu búin að tæma okkur að innan, hegða okkur eins og vitvélar sjálf, og láta sem ekkert sé.