Leysa vand­ann? Ókei … en hefurðu spáð í að hunsa hann?

17.6.2023 ~ 4 mín

Í heim­inum er nokkur hópur fólks, þar á meðal nokkur hópur sérfræð­inga, sem lítur svo á að þegar stjórn­völd flestra ríkja ákváðu að fella niður sótt­varnir vegna heims­far­ald­urs­ins, hafi það ekki verið sigur­stund, faraldr­inum hafi ekki í neinum skiln­ingi verið lokið, heldur bláköld uppgjöf. Farald­ur­inn hafi unnið. Og heldur nú áfram að geisa. Við höfum aðeins ákveðið að loka augunum fyrir því.

Þau benda á að enn dregur hann fjölda fólks til dauða.

Þau benda á að enn fleiri sitja uppi með afleið­ingar sem eru allt frá því að vera baga­legar til þess að vera lífs­hamlandi fötlun.

Þau benda á að enn sé ekki útséð með lang­tíma­af­leið­ingar sýkingar, hvað þá endur­tek­inna sýkinga.

Og þau benda á að enn haldi veiran áfram að stökkbreytast.

Í öllu þessu vísa þau til rann­sókna. Og þau draga upp hlið­stæður úr sögunni, segja að það að ekki hafi verið ráðist í alþjóð­legt átak um bætt loft­gæði jafn­gildi tregð­unni til að bregð­ast við þegar kom í ljós, á 19. öld, að kólera breidd­ist út með óhreinu vatni. Það tók víst langan tíma að festa í sessi ný viðmið um aðgang fólks að hreinu vatni.

Þau benda á að lífs­líkur fólks í öllum heims­álfum hafa dreg­ist saman í faraldr­inum. Í Banda­ríkj­unum um heil tvö ár.

Þau segja að fólki hafi verið talin trú um að það væri í þeirra hag að hætta öllum sótt­vörnum, þegar það hafi í raun aðeins verið í hag ákveð­inna hluta hagkerf­is­ins, hins og þessa iðnaðar.

Og þau segja að með því að fall­ast á þetta, fall­ast á það í einu samhentu átaki að gera ekki neitt, bein­línis ekki neitt, til að forða jafn­vel fólki í þekktum, viðkvæmum hópum frá banvænni farsótt, hafi verið fall­ist á nýtt grund­vall­ar­við­mið sem ekki sjái fyrir endann á afleið­ing­unum af.

Þau segja að þannig sé verið að venja okkur við fjölda­dauða sem mætti komast hjá og fjölda­fötlun sem mætti líka komast hjá, sem eðli­legt ástand.

Þau segja að það kyndi undir fylgi öfga­hægri­hreyf­inga um allan heim. Vegna þess, segja þau, að það viðmið sem þannig hafi verið innsiglað sé að skipta fólki, umyrða­laust, í þau sem mega missa sín og þau sem ekki mega missa sín. Verð­mæt líf og verð­laus líf. Og þau sem mega missa sín, þau megi þá missa sín í þágu þess að verð­mætu lífin verði ekki fyrir trufl­unum. Í þágu skemmt­ana, í þágu eðli­legs lífs, og auðvitað í þágu hagvaxtar.

Þau segja að þar með séu hlið­araf­leið­ing­arnar þó ekki fylli­lega upp taldar, enda séu viðvar­andi veik­indi tugmillj­óna ein undir­liggj­andi ástæða þeirrar verð­bólgu sem nú geisar um allan heim.

Þau sjá reyndar ýmsar fréttir í þessu ljósi. Fréttir af hnignun heil­brigðis­kerfa á öllum Vest­ur­löndum, til dæmis, að búist sé við að þau verði ekki jafn vel mönnuð á næstu árum og þau voru fram til 2019. Fréttir af tónlist­ar­mönnum sem hætta við tónlist­ar­ferða­lög vegna skyndi­legra veik­inda. Hitt og þetta. Þau sjá ekki betur, raunar, en að verið sé að mylja úr veröld­inni, hola hana að innan, eigin­lega riði allt til falls.

Og þau segja að þetta viðmið vísi ekki á gott í samhengi við hnatt­hlýnun, meðal annarra hörm­unga framundan. Ef sama viðmiði verði fylgt andspænis þeirri vá og er nú fylgt í faraldr­inum, þá verði fallið frá sameig­in­legum aðgerðum og vörnum fyrr en síðar, fólki falið að tækla breyttar aðstæður sem vanda­mál einstak­linga, hnatt­hlýnun verði þá spurn­ing um að festa kaup á góðri lóð á góðum stað, eiga góða viftu. Því ekki ætlum við að taka höndum saman um að fyrir­byggja vanda.

Mér þykir ekki sérlega lang­sótt sjálfum að líta á Úkraínu­stríðið í þessu ljósi: að einmitt þegar stjórn­völd ákváðu að gefast upp fyrir sameig­in­legum óvini hafi öllum hentað vel að beina athygl­inni að einhverju allt öðru, helst einhverju hávaða­sömu. Það sé ekki endi­lega meðvituð ákvörðun, þaðan af síður nokk­urs konar samsæri, heldur hliðri tjónið sem við samþykktum að þegja um dómgreind flestra leik­enda: Pútín hafi þótt tilvalið að fást við vanda sem hann kann á – land og hernað – með tækjum sem hann ræður yfir, frekar en að hafa hugann við hitt sem hann réði ekki við. NATO-liðum þyki það bara tilvalið líka. Allir séu geim, öllum henti þetta bara býsna vel. Nema þeim sem fyrir verða, auðvitað, almenn­ingi í Úkraínu, hermönnum frá bæði Úkraínu og Rússlandi. En dauðs­föllin meðal þeirra eru svo langtum færri en dauðs­föllin í faraldr­inum enn sem komið er, að samkvæmt hinu nýja normi er það ekkert til að staldra við.

Eitt­hvað á þessa leið er fólk að velta vöngum. Og það má finna sum þeirra á twitter, undir myllu­merk­inu #covidis­notover.