Guðbergur Bergsson var að deyja. Það gerðist í gær. Það hefur verið gremja í mér síðan. Ólund.
Ekki vegna þess að ég hafi þekkt hann að ráði. Fyrst hitti ég hann þegar ég var í menntaskóla. Ég hafði valið að lesa bókina Tómas Jónsson, metsölubók, og skila um hana einhvers konar verkefni. Þetta var hópverkefni, við vorum tvö, samstarfskona mín var dökkhærð, ljósmyndari, gleraugu, klár. Áreiðanlega viturri en ég á flestan hátt enda var ég mjög heimskur unglingur. Við ákváðum það saman að hafa samband við Guðberg til að spyrja hann ákveðinna lykilspurninga beint, hvað honum hefði gengið til með bókinni og svo framvegis. Viðtalið tókum við upp á segulband og lékum það í tímanum. Kennaranum okkar var ekki alfarið skemmt yfir þessu, við áttum auðvitað að lesa bókina til enda og taka afstöðu til spurninganna sjálf, frekar en láta höfundinn tala í okkar stað. En mér þótti mikið til þessa alls koma, þótti við annars vegar svolítið snjöll og hins vegar merkilegt að hitta rithöfund.
Rithöfundurinn – hann gerði greinarmun á sér og Halldóri Laxness með því að kalla annan rithöfund og hinn skáldsagnahöfund en ég man ekki lengur hvor þeirra var hvað í hans huga og hvort honum þótti þá merkilegra – en rithöfundur var hann, og hann tók á móti okkur í blokkaríbúð í Hlíðunum. Þar var ekki margt um húsgögn. Nokkur málverk á vegg. Og svo var þarna lítið borð og stóll við það og hann sagðist hafa flutt þetta borð og þennan stól með sér í gegnum tíðina og skrifað við það. Eldhúsborð og eldhússtóll, ef ég man rétt. Mörgum árum síðar var varla að hann kannaðist við þá frásögn, þurfti að rifja það upp þegar ég bar það upp við hann, já, jú, líklega var eitthvað borð. Svo líklega hefur borðið og stóllinn alls ekki verið umlukið sama rómantíska blæ í hans huga og hjúpaði það í mínum.
Rómantíska meinlætablæ. Meinlætin voru það sem heillaði mig ekki síst. Meinlæti höfðu heillað mig áður, ég var sem sleginn þegar ég hafði nokkrum árum fyrr séð kunningja föður míns standa í eldhúsinu heima hjá sér, í íbúðarkytru, á hvítum hörklæðum, og elda sér baunir í hádegismat. Bara það, bara sjóða baunir í potti. Mung-baunir, mung-dal. Kannski hafði hann brauð með þeim. Hann hefur áreiðanlega kryddað þær. Og nú sá ég þetta tvennt í sömu hillingum, að standa og sjóða sér baunir í hádegismat, annars vegar, í næstum tómu en sólríku eldhúsi, og flytja með sér eitt borð og einn stól á ferðum sínum um veröldina til að sitja þar við og skrifa.
Guðbergur var þolinmóður við okkur. Ég veit ekki hvort honum var skemmt en hann var þolinmóður og gjafmildur og svaraði spurningum og sagði okkur allt sem við vildum vita og hann átti svör við. Hann sagði okkur til hvers hann hefði skrifað Tómas, setti bókina í samhengi við ’68-uppreisnirnar. Að skáldskapur gæti haft eitthvað með uppreisnir að gera. Jafnvel óbærilega tuðið í Tómasi. Við spurðum hvort hann þekkti kennarann okkar, hún héti hvað sem hún hét og væri íslenskufræðingur. Hann sagðist aldrei hafa þekkt neinn íslenskufræðing og ég velti því fyrir mér hvort hann hefði sagt það af vanþóknun, ég þekkti ekki opinberu persónuna nógu vel til að vita að þannig segði hann hitt og þetta. Allt var ekki eins og ég hafði búist við því. Þannig opnaði allt eitthvað. Lævíslega.
Löngu löngu seinna, kannski tuttugu árum seinna, kannski aðeins minna, þá rakst ég á Guðberg í Berlín. Ég sat við kaffihús, hann gekk fram hjá með innkaupapoka. Ég bauð honum sæti, hann þáði, mér þótti ég heiðraður. Upp úr innkaupapokanum gægðust frystir, raspaðir fiskifingur í pakka, ódýrasta fiskmeti veraldar og þó að ég væri nú orðinn fullorðinn, eða það héti það, einhvers staðar milli þrítugs og fertugs, þá vöktu þessir röspuðu fiskifingur aftur með mér meiri hrifningu en nokkuð sem hann sagði mér. Ég man ekkert hvað okkar fór á milli, en raspaðir fiskifingur hafa síðan þá verið í hávegum hafðir hér á heimilinu, sem eins konar guðafæða. Ekki allir guðir aðhyllast meinlæti en þeir þola þau allir vel.
Og enn löngu síðar er hann dáinn. Svona líður langur tími hratt. Útförin fór enn ekki fram, það var bara í gær eða fyrradag sem þetta gerðist. Og ég kvíði því mest, kannski er það angrið í mér, ég kvíði því að mæta í útförina. Ég kvíði því líka að mæta ekki, ef það skyldi verða úr. Að mæta ekki í útför er slæmt og að mæta í útför er ekki alltaf gaman heldur. Útfarir setja manni stólinn fyrir dyrnar, hvort sem maður mætir eða mætir ekki verður maður fyrir ónotum.
Ef mér er þá boðið eða hvernig sem hann hefur séð þetta fyrir sér.