Guðbergur

07.9.2023 ~ 4 mín

Guðbergur Bergs­son var að deyja. Það gerð­ist í gær. Það hefur verið gremja í mér síðan. Ólund.

Ekki vegna þess að ég hafi þekkt hann að ráði. Fyrst hitti ég hann þegar ég var í mennta­skóla. Ég hafði valið að lesa bókina Tómas Jóns­son, metsölu­bók, og skila um hana einhvers konar verk­efni. Þetta var hópverk­efni, við vorum tvö, samstarfs­kona mín var dökk­hærð, ljós­mynd­ari, gler­augu, klár. Áreið­an­lega viturri en ég á flestan hátt enda var ég mjög heimskur unglingur. Við ákváðum það saman að hafa samband við Guðberg til að spyrja hann ákveð­inna lykil­spurn­inga beint, hvað honum hefði gengið til með bókinni og svo fram­vegis. Viðtalið tókum við upp á segul­band og lékum það í tímanum. Kenn­ar­anum okkar var ekki alfarið skemmt yfir þessu, við áttum auðvitað að lesa bókina til enda og taka afstöðu til spurn­ing­anna sjálf, frekar en láta höfund­inn tala í okkar stað. En mér þótti mikið til þessa alls koma, þótti við annars vegar svolítið snjöll og hins vegar merki­legt að hitta rithöfund.

Rithöf­und­ur­inn – hann gerði grein­ar­mun á sér og Hall­dóri Laxness með því að kalla annan rithöf­und og hinn skáld­sagna­höf­und en ég man ekki lengur hvor þeirra var hvað í hans huga og hvort honum þótti þá merki­legra – en rithöf­undur var hann, og hann tók á móti okkur í blokka­r­í­búð í Hlíð­unum. Þar var ekki margt um húsgögn. Nokkur málverk á vegg. Og svo var þarna lítið borð og stóll við það og hann sagð­ist hafa flutt þetta borð og þennan stól með sér í gegnum tíðina og skrifað við það. Eldhús­borð og eldhús­stóll, ef ég man rétt. Mörgum árum síðar var varla að hann kann­að­ist við þá frásögn, þurfti að rifja það upp þegar ég bar það upp við hann, já, jú, líklega var eitt­hvað borð. Svo líklega hefur borðið og stóll­inn alls ekki verið umlukið sama róman­tíska blæ í hans huga og hjúp­aði það í mínum.

Róman­tíska mein­læta­blæ. Mein­lætin voru það sem heill­aði mig ekki síst. Mein­læti höfðu heillað mig áður, ég var sem sleg­inn þegar ég hafði nokkrum árum fyrr séð kunn­ingja föður míns standa í eldhús­inu heima hjá sér, í íbúð­arkytru, á hvítum hörklæðum, og elda sér baunir í hádeg­is­mat. Bara það, bara sjóða baunir í potti. Mung-baunir, mung-dal. Kannski hafði hann brauð með þeim. Hann hefur áreið­an­lega kryddað þær. Og nú sá ég þetta tvennt í sömu hill­ingum, að standa og sjóða sér baunir í hádeg­is­mat, annars vegar, í næstum tómu en sólríku eldhúsi, og flytja með sér eitt borð og einn stól á ferðum sínum um veröld­ina til að sitja þar við og skrifa.

Guðbergur var þolin­móður við okkur. Ég veit ekki hvort honum var skemmt en hann var þolin­móður og gjaf­mildur og svar­aði spurn­ingum og sagði okkur allt sem við vildum vita og hann átti svör við. Hann sagði okkur til hvers hann hefði skrifað Tómas, setti bókina í samhengi við ’68-uppreisn­irnar. Að skáld­skapur gæti haft eitt­hvað með uppreisnir að gera. Jafn­vel óbæri­lega tuðið í Tómasi. Við spurðum hvort hann þekkti kenn­ar­ann okkar, hún héti hvað sem hún hét og væri íslensku­fræð­ingur. Hann sagð­ist aldrei hafa þekkt neinn íslensku­fræð­ing og ég velti því fyrir mér hvort hann hefði sagt það af vanþóknun, ég þekkti ekki opin­beru persón­una nógu vel til að vita að þannig segði hann hitt og þetta. Allt var ekki eins og ég hafði búist við því. Þannig opnaði allt eitt­hvað. Lævíslega.

Löngu löngu seinna, kannski tutt­ugu árum seinna, kannski aðeins minna, þá rakst ég á Guðberg í Berlín. Ég sat við kaffi­hús, hann gekk fram hjá með innkaupa­poka. Ég bauð honum sæti, hann þáði, mér þótti ég heiðr­aður. Upp úr innkaupa­pok­anum gægð­ust frystir, raspaðir fiskif­ingur í pakka, ódýr­asta fisk­meti veraldar og þó að ég væri nú orðinn full­orð­inn, eða það héti það, einhvers staðar milli þrítugs og fertugs, þá vöktu þessir röspuðu fiskif­ingur aftur með mér meiri hrifn­ingu en nokkuð sem hann sagði mér. Ég man ekkert hvað okkar fór á milli, en raspaðir fiskif­ingur hafa síðan þá verið í hávegum hafðir hér á heim­il­inu, sem eins konar guða­fæða. Ekki allir guðir aðhyll­ast mein­læti en þeir þola þau allir vel.

Og enn löngu síðar er hann dáinn. Svona líður langur tími hratt. Útförin fór enn ekki fram, það var bara í gær eða fyrra­dag sem þetta gerð­ist. Og ég kvíði því mest, kannski er það angrið í mér, ég kvíði því að mæta í útför­ina. Ég kvíði því líka að mæta ekki, ef það skyldi verða úr. Að mæta ekki í útför er slæmt og að mæta í útför er ekki alltaf gaman heldur. Útfarir setja manni stól­inn fyrir dyrnar, hvort sem maður mætir eða mætir ekki verður maður fyrir ónotum.

Ef mér er þá boðið eða hvernig sem hann hefur séð þetta fyrir sér.