500 orð eru frjáls.
Þegar ég fór að sofa í gærkvöldi … og nokkru áður en ég fór að sofa, raunar, fyrr um kvöldið, þá var ég með eitthvað í huga til að skrifa hér, eitthvað sem mér þótti kannski ekki áríðandi en að minnsta kosti borðleggjandi, og hugsaði með mér að það væri best að geyma það til morguns, ef ég ætlaði að halda mig við efnið, frelsa 500 orð á dag, vera þá ekki að hraða út mikið fleiri orðum en það á sama deginum. En nú þegar ég sest aftur við er alveg stolið úr mér hvað þetta var.
Það er varla forvitnilegt fyrir sjálfum mér, hvað þá fyrir aðra, en a) þannig var það nú samt og b) þetta er ekki vettvangur neinnar kröfu um áhugaverðleika, þetta er sandkassi.
Ég á mjög skýrar minningar um sjálfan mig sem einhvern sem hafði ánægju af sandkössum. Ég meina bókstaflegum sandkössum, ég man eftir sjálfum mér sitjandi með skóflu og fötu, fyllandi fötuna með sandi, sturtandi úr henni í von um að turninn standi, ég man eftir hugleiðingum um ákjósanlegasta ástand sands upp á það að vera, hversu miklu máli skipti að hann væri nægilega votur, hversu mikil vonbrigði alþurr sandur var. Ég man eftir mér sem manneskju með ekki bara áhuga, ánægju og getu tengda sandkössum heldur einhvers konar dómgreind að auki. Ég man eftir furðunni yfir börnum sem kusu að borða sand, sem mér sýndist afleit hugmynd. Það er ekki víst að þessar minningar séu í raun allar frá því ég var á sandkassaaldri, því ég átti líka yngri systkini sem ég fylgdi oft út að leika sér, passaði. Ef ég á minningar af sandkössum í tengslum við litríka, bólstraða samfestinga, snjógalla, og í tengslum við vettlinga sem virtust alltaf heldur þykkir og ómeðfærilegir til að handleika skóflur eða fást við sand af mikilli natni, þá grunar mig að það séu minningar af þeim, og ég þá verið orðinn 10, jafnvel 12 ára gamall. Og svo hafa þær kannski gróið saman með tímanum, minningar af sjálfum mér og minningar af systkinum mínum, minni er víst ekki nákvæmt. Eftir sem áður á ég minningar um sjálfan mig sem manneskju með ákveðin tengsl við sandkassa, sem fastan punkt í tilverunni, vettvang ákveðinna athafna sem mér voru hugleiknar. Og í minningunni er það ég, alveg óslitið, sami ég sem satt í þessum sandkössum, og sitt svo hér við fartölvuna mína, hálffimmtugur, kalla bloggið mitt sandkassa og geri ráð fyrir að það skiljist. Það er skrítin samfella.
Ég er þreyttur á fréttum. Mér finnst ekki eftirsóknarvert að þær verði mikið fleiri á næstunni. Mér finnst meira en nógu margir hafa verið drepnir, mér finnst meira en nógu mikil spenna hafa safnast upp, meira en nóg af flestum gerðum atvika. Upp úr aldamótum voru vinsælar einhvers konar hreyfingar, á Vesturlöndum, sem hétu „slow“-hitt og þetta. Slow food var mest áberandi, og kannski fyrst, kannski voru allar hinar bara minniháttar afsprengi, en samanlagt skiluðu þær þó þeim hughrifum að það væri ákjósanlegt að lifa hægar en fólk almennt gerði um þær mundir, gefa sér meiri tíma í hlutina, elda kvöldmat í rólegheitum frekar en sækja tilbúinn mat á leiðinni heim, og svo framvegis. Hugleiðsla, jóga, öndunaræfingar, að ganga – jafnvel bóklestur var líklega settur í samhengi þessarar hugmyndar. Ekki bara að það væri gott fyrir hvern og einn persónulega að hægja á sér heldur gott fyrir alla að allir hægðu á sér. Ég skil það sjónarmið. Mér sýnast engar líkur á að það nái fram að ganga og ég ætla ekki að berja höfðinu við steininn, en ég skil það.