Afleit hugmynd, að borða sand

27.10.2023 ~ 3 mín

500 orð eru frjáls.

Þegar ég fór að sofa í gærkvöldi … og nokkru áður en ég fór að sofa, raunar, fyrr um kvöldið, þá var ég með eitt­hvað í huga til að skrifa hér, eitt­hvað sem mér þótti kannski ekki áríð­andi en að minnsta kosti borð­leggj­andi, og hugs­aði með mér að það væri best að geyma það til morg­uns, ef ég ætlaði að halda mig við efnið, frelsa 500 orð á dag, vera þá ekki að hraða út mikið fleiri orðum en það á sama deginum. En nú þegar ég sest aftur við er alveg stolið úr mér hvað þetta var.

Það er varla forvitni­legt fyrir sjálfum mér, hvað þá fyrir aðra, en a) þannig var það nú samt og b) þetta er ekki vett­vangur neinnar kröfu um áhuga­verð­leika, þetta er sandkassi.

Ég á mjög skýrar minn­ingar um sjálfan mig sem einhvern sem hafði ánægju af sand­kössum. Ég meina bókstaf­legum sand­kössum, ég man eftir sjálfum mér sitj­andi með skóflu og fötu, fyll­andi fötuna með sandi, sturt­andi úr henni í von um að turn­inn standi, ég man eftir hugleið­ingum um ákjós­an­leg­asta ástand sands upp á það að vera, hversu miklu máli skipti að hann væri nægi­lega votur, hversu mikil vonbrigði alþurr sandur var. Ég man eftir mér sem mann­eskju með ekki bara áhuga, ánægju og getu tengda sand­kössum heldur einhvers konar dómgreind að auki. Ég man eftir furð­unni yfir börnum sem kusu að borða sand, sem mér sýnd­ist afleit hugmynd. Það er ekki víst að þessar minn­ingar séu í raun allar frá því ég var á sand­kassa­aldri, því ég átti líka yngri systkini sem ég fylgdi oft út að leika sér, pass­aði. Ef ég á minn­ingar af sand­kössum í tengslum við litríka, bólstr­aða samfest­inga, snjógalla, og í tengslum við vett­linga sem virt­ust alltaf heldur þykkir og ómeð­færi­legir til að hand­leika skóflur eða fást við sand af mikilli natni, þá grunar mig að það séu minn­ingar af þeim, og ég þá verið orðinn 10, jafn­vel 12 ára gamall. Og svo hafa þær kannski gróið saman með tímanum, minn­ingar af sjálfum mér og minn­ingar af systkinum mínum, minni er víst ekki nákvæmt. Eftir sem áður á ég minn­ingar um sjálfan mig sem mann­eskju með ákveðin tengsl við sand­kassa, sem fastan punkt í tilver­unni, vett­vang ákveð­inna athafna sem mér voru hugleiknar. Og í minn­ing­unni er það ég, alveg óslitið, sami ég sem satt í þessum sand­kössum, og sitt svo hér við fartölv­una mína, hálf­fimm­tugur, kalla bloggið mitt sand­kassa og geri ráð fyrir að það skilj­ist. Það er skrítin samfella.

Ég er þreyttur á fréttum. Mér finnst ekki eftir­sókn­ar­vert að þær verði mikið fleiri á næst­unni. Mér finnst meira en nógu margir hafa verið drepnir, mér finnst meira en nógu mikil spenna hafa safn­ast upp, meira en nóg af flestum gerðum atvika. Upp úr alda­mótum voru vinsælar einhvers konar hreyf­ingar, á Vest­ur­löndum, sem hétu „slow“-hitt og þetta. Slow food var mest áber­andi, og kannski fyrst, kannski voru allar hinar bara minni­háttar afsprengi, en saman­lagt skil­uðu þær þó þeim hughrifum að það væri ákjós­an­legt að lifa hægar en fólk almennt gerði um þær mundir, gefa sér meiri tíma í hlut­ina, elda kvöld­mat í róleg­heitum frekar en sækja tilbú­inn mat á leið­inni heim, og svo fram­vegis. Hugleiðsla, jóga, öndun­aræf­ingar, að ganga – jafn­vel bóklestur var líklega settur í samhengi þess­arar hugmyndar. Ekki bara að það væri gott fyrir hvern og einn persónu­lega að hægja á sér heldur gott fyrir alla að allir hægðu á sér. Ég skil það sjón­ar­mið. Mér sýnast engar líkur á að það nái fram að ganga og ég ætla ekki að berja höfð­inu við stein­inn, en ég skil það.