Einatt segir: a og nú

26.10.2023 ~ 4 mín

Ég sá að í nýlegu tíma­riti sagð­ist einhver óviss hvað hann skyldi kalla bókina sem ég lét frá mér á síðasta ári, Tugt­húsið, hún gæti ekki heitið skáld­saga, því þar væri ekki nóg skáldað. Hvernig ókunn­ugt fólk notar orðin sín er auðvitað ekki mitt mál, en jú, Tugt­húsið er skáld­saga, jafn mikil skáld­saga og sann­sögu­leg kvik­mynd er kvik­mynd. Það breytir ekki öllu í því tilliti hvaðan efni­við­ur­inn er fenginn.

Að því sögðu, þá hafa fangar tugt­húss­ins aðeins haldið áfram að kalla á mig. Ég skil að bókin hafi skapað þau hughrif hjá einhverjum að þar hafi öllu verið komið að sem sögu húss­ins varðar, en svo einfalt er það víst ekki. Lista­verk krefja mann um að velja. Í tilfelli þeirrar bókar valdi ég meðal annars að segja fyrst og fremst sögur þeirra sem fórust í húsinu.

Ein þeirra persóna sem dvaldi í tugt­hús­inu við Arnar­hól stutta stund og dó þar ekki hét Sigríður Gunn­laugs­dóttir. Það var á frið­ar­tímum í húsinu, á milli blóð­baða, og þar með á þeim tíma sem ekki er þunga­miðja bókar­innar. Sigríður þessi var kölluð Skáld-Sigga, Sigga skálda eða bara Skálda og eftir hana hafa varð­veist nokkur ljóð. Við og við þegar ég sé níðvísur eða háðsvísur útundan mér, til dæmis á Face­book, þar sem þess háttar birt­ist stundum í tengslum við stjórn­mál, þá hvarflar að mér níðvísan sem Sigga skálda orti um eigin­mann sinn. Flestar hinna blikna í saman­burði, ekki bara vegna þess hvað níðvísan um Gísla Gísla­son er rætin og ekki bara vegna þess hvað hún er góð, í merk­ing­unni sterk, og myndin sem hún dregur upp skýr, heldur hvað hún er nútíma­leg, hvað hún umgengst brag­ar­hætti af mikill leikgleði.

Frásögnin af þeim Sigríði og Gísla var ekki bara undan­skilin í Tugt­hús­inu vegna þess að þau dóu hvor­ugt í húsinu, heldur líka vegna þess að helsta vigtin í þeirri sögu er það sem eftir lifir af kveð­skap Sigríðar. Og þó að þeir séu til sem kunna að innlima gamlan kveð­skap í nýjar bækur, þá gekk það í mínum huga ekki upp innan þess­arar. Það litla sem þar sést glitta í kvæði persóna sem koma við sögu er að mestu endursagt. Ef ég man rétt leyn­ist ein ljóð­lína einhvers staðar í bókinni, meira hefði í mínum huga rifið lesand­ann of frek­lega úr frásagnarhættinum.

Og þessa níðvísu Sigríðar um Gísla er ekki hægt að endur­segja, inntakið molnar sundur ef maður rýfur formið:

Sástu mann, svipþungan, fattvaxinn,
gráleitan, grettir oft kampaskinn,
teprar augu, viprar vör,
vanur á kæki,
góma beitir hvössum hjör,
hlát­urs með skræki,
hárþunnur, hnútar í skalla,
hugstoltur, ræður sér valla,
níðorður um nábúa alla;
einatt segir: a og nú.

Lyginn, svik­ull, latur, þrár,
hann lofar sig sjálfur,
lyginn, svik­ull, latur, þrár,
hann lofar sig sjálfur.

Ég þykist hafa ýmsa fjör­una sopið og samt er ég feginn að vera ekki hann Gísli, þetta er ógur­leg lýsing að sitja undir.

Ég fletti aðeins upp þeim gögnum sem ég er með um þau, nú síðast þegar hugur minn leit­aði til vísunnar, til að komast að því hvort þetta hefði verið eins og mér sýnd­ist líklegt, að hún hefði lent í tugt­hús­inu fyrir einhver afglöp hans. Og já, það var víst raunin. Það var hann sem stal tveimur sauðum, skar þá og sauð þá, á meðan hún var fjarri heim­il­inu. Þar sem hún át af þeim bita, eftir að hún kom heim, og brenndi svo skinnin til að farga sönn­un­ar­gögn­unum fyrir mann sinn hlaut hún þó einnig dóm, þegar allt komst upp. Bless­un­ar­lega höfðu ný lög tekið gildi þegar þetta var, mild­ari við sauða­þjófa en þau fyrri. Sýslu­mað­ur­inn sem dæmdi málið hét Ísleifur Einars­son. Hann var aðeins yngri en þau hjónin, 27 ára gamall, en þau voru bæði komin yfir þrítugt. „Engin skepna þarf hjá oss Íslend­ingum meir helgi eða laga verndar en sauð­kindin á mörk­inni,“ sagði Ísleifur og dæmdi þau eftir gömlu lögunum, hann til húðstrýk­ingar og lífs­tíðar þræl­dóms í Kaup­manna­höfn, en hana til ársvistar í tugt­hús­inu við Arnar­hól. Það var 1792. Níðið sem Sigga skálda orti um sýslu­mann­inn komst ekki í hálf­kvist við vísuna að ofan, en reið hefur hún þó verið sýslu­mann­inum líka:

Engu hnjaski mæta má
maður­inn gulusjúki;
kæsisaski kemst ei frá
kapp­inn vaski þingið á.

Svona dómur varð ekki fram­kvæmdur nema með stað­fest­ingu Alþingis. Sýslu­maður mætti ekki á þingið. Kannski var hann með gulu. Kannski var hann hræddur við Sigríði. Og kannski vissi hann upp á sig sökina, að lögskýr­ingar hans um frið­helgi sauð­kind­ar­innar stæð­ust ekki skoðun í krafti nýju laganna. Í öllu falli mild­aði Alþingi dóminn veru­lega, sagði lífs­tíð­ar­dóma fyrir sauða­þjófnað liðna tíð: Gísli fékk ár í tugt­hús­inu, Sigríður mánuð.

Þau tórðu í hjóna­band­inu til ársins 1820, þegar leiðir skildu, en lifðu bæði nokkuð langa ævi, Gísli í 14 ár eftir skiln­að­inn, fram yfir sjötugt, Sigríður að minnsta kosti hátt í nírætt, síðast spurð­ist til hennar í rituðum heim­ildum sem 87 ára gamallar barn­fóstru, árið 1840.

Flest það sem hér kemur fram um þau hjónin, að meðtöldum vísum Sigríðar, má finna í meist­ara­prófs­rit­gerð Eiríks Hermanns­sonar í sagn­fræði, Vonsku­verk og misgjörn­ingar, frá árinu 2016. Sögu hjón­anna Sigríðar og Gísla hélt Hannes Péturs­son til haga í sagna­þætt­inum „Gleymd kona og geldsauðir tveir“, sem vísað er til í ritgerð Eiríks, og er auðvelt að hafa uppi á. Orð sýslu­manns­ins eru úr dóma­bók Húnavatnssýslu.

Og þetta hér er ekki skáld­skapur. Þetta eru bara upplýsingar.