500 orð eru frjáls.
Það eru fjögur orð.
Og þarna voru komin átta.
Og nú voru þau orðin þrettán.
En ég þarf að telja hraðar, ég verð að ná að telja yfirstandandi setningu með. 34 segir tölvan mér en þar með eru þau líka orðin 45. 46. 47. – 49!
Eina leiðin til að telja orðin jafnóðum og þau birtast er að segja eða skrifa bara tölustafi. Þetta voru 66 orð og nú eru þau orðin – að meðtöldu því næsta: 80.
Þannig gæti ég haldið áfram. 86. 87. 88. Þarna sagði hver tala satt, svo langt sem það nær. Og svo lengi sem ég tek mark á því áliti sjálfvirka teljarans að hver tala sé aðeins eitt orð, sem er auðvitað ekki beinlínis tilfellið, ekki í raun og veru, ekki eins og maður segir þær eða myndi skrifa þær. Áttatíu og átta eru þrjú orð. En það myndi flækja málið meira en ég ræð við einmitt núna, svo ég held frekar ósannindunum til streitu, þessari hvítu lygi, að orðin eru nú orðin 172.
Það birtist um það frétt í dag að Svíar væru loks búnir að setja saman orðabókina sína, sem þeir hófust handa við árið 1883. Eftir 140 ára þrotlaust starf koma nú loks út síðustu bindi stafrófsins. Og hefst þá endurskoðun þeirra fyrstu, enda kom A‑bindið út nokkru áður en til dæmis orðið allergy, fyrir ofnæmi, barst í tungumálið. Vandi þeirra er ekki alveg óskyldur vandanum hér að ofan, með talninguna. Tungumálið hleypur fram úr manni.
Eins og allt sem ætlunin er að kortleggja. Ef ég opna Street View í Google Maps á símanum mínum sýnir það mér tíu ára gamlar svipmyndir frá Reykjavík. Eins og tímavél, að stíga inn í árið 2013, árið 2023. Ég var ekki hérna árið 2013, en mér sýnist borgin hafa verið nokkuð notaleg um það leyti. Mannlíf á götunum, miðborgin enn að nokkru leyti í þjónustu heimafólks og bílastæðið góða, eyðilandið undir Arnarhóli, þar sem nú stendur banki og hótel, það var enn á sínum stað. Ég kann ágætlega að meta nýju rýmin á milli þessara bygginga, ég skil mjög vel að þessi malarvöllur gat ekki talist framtíðarfyrirkomulag. En ég sakna hans samt. Eyðunnar í miðborginni. Það var gott að horfa yfir hana, sjá svona langt og vel.
Kannski lítur Google einhvern tíma aftur við, tekur nýjar myndir. Kannski ekki. Kannski tekur því ekki að hafa áhyggjur af því, samkeppnin á þessu sviði er áreiðanlega ekki mjög hörð, nýjar myndir af götum Reykjavíkur áreiðanlega ekki aðkallandi. Kannski eru þau í óða önn að taka myndir af öðrum götum þessa dagana. Og þegar þau geta loksins sagt: jæja, það er komið, allar götur heimsins eru nú myndaðar, þá eru þau kannski í sömu fótsporum og Svíarnir þegar þeir ljúka við orðabókina sína, að vera ekki til setunnar boðið, þurfa að hlaupa aftur á byrjunarreit. Sem eru 470 orð, sem eru 474 orð, sem eru 478 orð, sem eru 482 orð – nú hleyp ég aftur fram fyrir og tel töluna sjálfa með, þau eru þá hérmeð orðin 505.