500 orð eru frjáls.
Hvaða verk hafa verið skrifuð um bilið milli orða og reyndar? Eða hefur kannski aldrei verið skrifað um neitt annað?
Ég er enn í sjokki, eiginlega, eftir vorið 2022, þegar landið ákvað að þagna um heimsfaraldurinn. Á meðan – við vitum ekki hversu margir dóu. Þessi bylgja reið yfir landið. 200 manns dóu úr Covid, sögðu opinberar tölur. Svo voru umframdauðsföllin talin og reyndust 400. Landlæknir sagðist ekki vita um neinar aðrar skýringar en faraldurinn, líklega hefðu þá 400 dáið úr Covid árið 2022, langflest þarna um vorið.
Og að þegja svona í kór um það, á meðan, láta eins og ekkert væri, halda því svo áfram – mér finnst eins og við höfum skriðið gegnum einhver ormagöng og komið röngu megin út. Sem samfélag. Því þögnin var ekki afleiðingalaus, þögnin var forsenda þess að pestin fengi að breiða úr sér í friði, að við létum sem ekkert væri, endurheimtum „eðlilegt líf“ eins og það var kallað.
Sérfræðingar bentu á að ef aðeins yrði stuðst við bóluefnin og allar aðrar varnir felldar niður, þá myndi veiran halda áfram að taka mið af aðstæðum, þróast, og ganga svo hring eftir hring um kroppana okkar í nýjum afbrigðum, án nokkurs fyrirsjáanlegs enda.
Þess vegna er ekkert óvænt við að bráðamóttakan í Fossvogi láti vita af því í dag að hún sé yfirfull, þar verði forgangsraðað og sjúklingar sem geti leitað annað ættu að leita annað. Og ekkert óvænt við að það komi í ljós að orsökin fyrir álaginu er Covid. Ein bylgjan enn. Það er ekkert óvænt við það að þögnin og hunsunin hafi ekki dugað til að kveða faraldurinn sjálfan í kútinn.
Það sem er hins vegar óvænt, eða að minnsta kosti fréttnæmt, er að Ísland virðist nú loksins eiga sitt eigið afbrigði af sjúkdómnum, sem hefur slegið í gegn í þessu viðstöðulausa hindrunarhlaupi afbrigðanna. Það hefur fengið raðnúmerið JN.1. Mér sýnist ekki úr vegi að kalla það Jón. Og ég held að það hafi ýmsa kosti, þó ekki sé nema til að brúa bilið milli orða og reyndar. Covid er leiðinlegt orð en ég hef aldrei þekkt leiðinlegan Jón. Ef einhver segist vera með flensu geturðu nú spurt á móti: ertu viss? Tókstu test? Gætir verið með Jón.
Öðrum þræðinum er þetta augljóslega bjálfaleg, gamaldags, íslensk hótfyndni. En samt.
——
Annars ætlaði ég ekki að hafa hugann við þetta. Ég hef við annað að fást. Vona ég. Er að laga mig að þeim veruleika að vera í vinnu, stóran hluta dags, og þar með búinn í vinnu þegar þeim hluta lýkur. Laga mig að honum í þeim skilningi að gæta þess að hafa þó tíma, eftir vinnu, til að gera eitthvað annað við orð en ég geri í vinnunni. Orðin í vinnunni eru ekki sjálfvirk, en þau ferðast eftir nokkuð skýrt afmörkuðum rásum og snúa að kunnuglegum viðfangsefnum. Þar eru verkföll, þar eru stríð, þar er efnahagsástand. Og eftir vinnu, þegar degi lýkur, þá plagar það mig líklega, eftir því sem tíminn líður og dögunum fjölgar, að þar hafi ekki verið mikið frelsi. Ekki mitt frelsi, sem nær ekki lengra en launaseðill og alþjóðasamningar, heldur orðanna. Þau vilja gera fleira. Þau eru aðgangshörð og halda á lofti óbilgjarnri kröfu um að gera fleira. Stundum hef ég ekki hugmynd um hvað, held að þetta séu eintómir órar í þeim. Enda kem ég svo hingað, í sandkassann, til að leyfa þeim að spreyta sig, og þau skófla í sig sandinum og segjast svo, á meðan þau bryðja hann, öll heita Jón.
En þá eru komin 500 orð. Ríflega. Ég býð ekki í meira eftir vinnu.