Ekkert orð er við hæfi. Augljóslega. Jafnvel að kalla þessa yfirstandandi atburði eitthvað yfirleitt felur í sér afstöðu af þeim toga sem gæti einn daginn kostað einhvern eitthvað. Er þetta stríð? Og ef það er stríð er það þá stríð á milli Ísraels og Hamas, Ísraels og Gasa-svæðisins eða Ísraels og Palestínu? Eða eru átökin of einhliða þessa dagana til að tala um stríð? Eru þetta bara árásir, viðvarandi árásir, Ísraels á … Hamas? Á Gasa? Á Palestínu? Myndi það þá ekki heita eitthvað annað, værum við þá ekki komin hættulega nærri … hverju? Blóðbaði? Fjöldamorði? Hvar liggja mörkin milli fjöldamorðs og þjóðarmorðs? Er það við tíu þúsund manns? Hundrað þúsund? Þeir eru auðvitað til sem þætti of langt gengið að tala um árásir, allt séu þetta aðeins varnir, og þeir eru líka til sem finnst það ekki endilega of langt gengið en nenna ekki að hugsa það til hlítar áður en þeir opna á sér munninn og vilja helst gæta að því að út um hann komi engin orð, engin alvarleg orð hið minnsta, engin orð með merkingu, því merking getur valdið manni vandræðum, og þá reyna þeir að gæta þess að aðrir láti ekki frá sér merkingarbær orð heldur. Og þó að þeir segi þá ekki endilega berum orðum að ekkert orð sé við hæfi, enda hneigist þeir ekki til alhæfinga, þá væri hægt að halda áfram að bera undir þá orð eftir orð eftir orð eftir orð og þeir myndu halda áfram að hrista hausinn yfir hverju einasta: ekki þetta, ekki þetta, nei, ekki þetta, ekki þetta – þar til næstum öll orð væru búin. Næstum öll.
Því auðvitað eru til leiðir fram hjá þessum vandræðum. Og þær má næstum allar finna í ályktuninni sem Alþingi samþykkti í vikunni og þingmenn vörpuðu öndinni léttar yfir að hefði tekist. Gott ef hver einasti viðstaddur þingmaður sagðist ekki stoltur yfir því að Alþingi hefði lánast að ná samstöðu í málinu. Hefja sig upp fyrir argaþrasið. Skiljanlega. En samstöðu um hvað?
„Ályktun um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs“ heitir sú gerð ályktunarinnar sem þessi breiða samstaða náðist um. Ekki „ályktun um að fordæma aðgerðir Ísraelshers í Palestínu og kalla eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum“ eins og upphaflega var lagt til. Nýi titillinn forðast ekki aðeins að fordæma eitt né neitt, hann forðast líka að staðsetja átökin eða nefna aðila þeirra – í titli ályktunarinnar eiga þau sér hvorki stað í Ísrael, enda væri langt gengið að segja Gasa hluta af Ísrael, né í Palestínu, sem gæti líka valdið úlfúð enda frömdu Hamas-liðar sína árás innan landamæra Ísraels – heldur fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég skil það orðaval mjög vel, ég sé kosti þess sjálfur og er þó ekki þjóðþing. Titillinn vísar þannig til afstöðu án þess að segja hver hún er og landrýmis eða yfirráðasvæðis án þess að nefna það beint.
Það sem fylgir er síðan nógu laust við afdráttarleysi til að forsætisráðherra getur sagt að það sendi „skýr skilaboð út í alþjóðasamfélagið, skýran vilja Alþingis um tafarlaust vopnahlé“ í sömu mund og óbreyttur þingmaður lætur bóka að hann samþykki ályktunina með hliðsjón af þeim skilningi „að með orðalaginu „vopnahlé af mannúðarástæðum“ sé átt við það sem kanadísk stjórnvöld kölluðu “humanitarian pause“ í skýringum á tilvísaðri tillögu þeirra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þ.e. tímabundið hlé á átökum til að liðka fyrir mannúðaraðstoð“ – með öðrum orðum að með orðinu vopnahlé sé hreint ekki átt við vopnahlé, enda vilji Alþingi alls ekki að átökunum linni. Þennan tvenna fullkomlega andstæða skilning á inntaki ályktunarinnar sem Alþingi náði samstöðu um lögðu ráðherrann og þingmaðurinn fram í umræðum um málið á sama þingi, sama síðdegið, án þess að úr yrði nokkur deila. Samstaða þingsins grundvallaðist á því að ekki yrði skorið úr um hvað samstaðan snerist.
Því ekkert markvert orð er við hæfi, þau ganga of langt, þau eru of afdráttarlaus. Nú er stríð, við þurfum að gefa því frið fyrir þeim gegndarlausa skýrleika sem orð geta haft í för með sér.