Ekkert er við hæfi

11.11.2023 ~ 3 mín

Ekkert orð er við hæfi. Augljós­lega. Jafn­vel að kalla þessa yfir­stand­andi atburði eitt­hvað yfir­leitt felur í sér afstöðu af þeim toga sem gæti einn daginn kostað einhvern eitt­hvað. Er þetta stríð? Og ef það er stríð er það þá stríð á milli Ísra­els og Hamas, Ísra­els og Gasa-svæð­is­ins eða Ísra­els og Palestínu? Eða eru átökin of einhliða þessa dagana til að tala um stríð? Eru þetta bara árásir, viðvar­andi árásir, Ísra­els á … Hamas? Á Gasa? Á Palestínu? Myndi það þá ekki heita eitt­hvað annað, værum við þá ekki komin hættu­lega nærri … hverju? Blóð­baði? Fjölda­morði? Hvar liggja mörkin milli fjölda­morðs og þjóð­armorðs? Er það við tíu þúsund manns? Hundrað þúsund? Þeir eru auðvitað til sem þætti of langt gengið að tala um árásir, allt séu þetta aðeins varnir, og þeir eru líka til sem finnst það ekki endi­lega of langt gengið en nenna ekki að hugsa það til hlítar áður en þeir opna á sér munn­inn og vilja helst gæta að því að út um hann komi engin orð, engin alvar­leg orð hið minnsta, engin orð með merk­ingu, því merk­ing getur valdið manni vand­ræðum, og þá reyna þeir að gæta þess að aðrir láti ekki frá sér merk­ing­ar­bær orð heldur. Og þó að þeir segi þá ekki endi­lega berum orðum að ekkert orð sé við hæfi, enda hneig­ist þeir ekki til alhæf­inga, þá væri hægt að halda áfram að bera undir þá orð eftir orð eftir orð eftir orð og þeir myndu halda áfram að hrista haus­inn yfir hverju einasta: ekki þetta, ekki þetta, nei, ekki þetta, ekki þetta – þar til næstum öll orð væru búin. Næstum öll.

Því auðvitað eru til leiðir fram hjá þessum vand­ræðum. Og þær má næstum allar finna í álykt­un­inni sem Alþingi samþykkti í vikunni og þing­menn vörp­uðu öndinni léttar yfir að hefði tekist. Gott ef hver einasti viðstaddur þing­maður sagð­ist ekki stoltur yfir því að Alþingi hefði lánast að ná samstöðu í málinu. Hefja sig upp fyrir arga­þrasið. Skilj­an­lega. En samstöðu um hvað?

„Ályktun um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarð­ar­hafs“ heitir sú gerð álykt­un­ar­innar sem þessi breiða samstaða náðist um. Ekki „ályktun um að fordæma aðgerðir Ísra­els­hers í Palestínu og kalla eftir tafar­lausu vopna­hléi af mann­úð­ar­ástæðum“ eins og upphaf­lega var lagt til. Nýi titill­inn forð­ast ekki aðeins að fordæma eitt né neitt, hann forð­ast líka að stað­setja átökin eða nefna aðila þeirra – í titli álykt­un­ar­innar eiga þau sér hvorki stað í Ísrael, enda væri langt gengið að segja Gasa hluta af Ísrael, né í Palestínu, sem gæti líka valdið úlfúð enda frömdu Hamas-liðar sína árás innan landa­mæra Ísra­els – heldur fyrir botni Miðjarð­ar­hafs. Ég skil það orða­val mjög vel, ég sé kosti þess sjálfur og er þó ekki þjóð­þing. Titill­inn vísar þannig til afstöðu án þess að segja hver hún er og land­rýmis eða yfir­ráða­svæðis án þess að nefna það beint.

Það sem fylgir er síðan nógu laust við afdrátt­ar­leysi til að forsæt­is­ráð­herra getur sagt að það sendi „skýr skila­boð út í alþjóða­sam­fé­lagið, skýran vilja Alþingis um tafar­laust vopna­hlé“ í sömu mund og óbreyttur þing­maður lætur bóka að hann samþykki álykt­un­ina með hlið­sjón af þeim skiln­ingi „að með orða­lag­inu „vopna­hlé af mann­úð­ar­ástæðum“ sé átt við það sem kanadísk stjórn­völd köll­uðu “humanit­arian pause“ í skýr­ingum á tilvís­aðri tillögu þeirra á alls­herj­ar­þingi Samein­uðu þjóð­anna, þ.e. tíma­bundið hlé á átökum til að liðka fyrir mann­úð­ar­að­stoð“ – með öðrum orðum að með orðinu vopna­hlé sé hreint ekki átt við vopna­hlé, enda vilji Alþingi alls ekki að átök­unum linni. Þennan tvenna full­kom­lega andstæða skiln­ing á inntaki álykt­un­ar­innar sem Alþingi náði samstöðu um lögðu ráðherr­ann og þing­mað­ur­inn fram í umræðum um málið á sama þingi, sama síðdegið, án þess að úr yrði nokkur deila. Samstaða þings­ins grund­vall­að­ist á því að ekki yrði skorið úr um hvað samstaðan snerist.

Því ekkert markvert orð er við hæfi, þau ganga of langt, þau eru of afdrátt­ar­laus. Nú er stríð, við þurfum að gefa því frið fyrir þeim gegnd­ar­lausa skýr­leika sem orð geta haft í för með sér.