Það væri ósmekklegt að líkja ferðaiðnaðinum í Reykjavík við hernám borgarinnar, á sama tíma og fólk af holdi og blóði upplifir raunverulegt, banvænt hernám. En þá vantar okkur annað, nothæft, krítískt hugtak yfir þetta ástand: miðborgin er eini borgarhlutinn sem mótaðist að einhverju leyti sem félagsrými, andrými, utan einberra verslana, vinnustaða og heimila. Ég á ekki við að þetta þrennt hafi ekki verið þar líka, heldur að í miðbænum varði fólk tíma í öðrum erindum að auki, þar var um margra ára bil „þriðji staður“ margra. Ekki aðeins er búseta þar að breytast, allur rekstur ummyndaður í þágu ferðamanna með gjaldeyri og götulífið með, heldur verður svæðið í sömu mund sífellt aflokaðra með gjaldtöku fyrir ferðir þangað inn. Ég er ekki að mæla á móti bílastæðagjaldi og sektum eða útfærslu þess, það getur vel verið að kostirnir vegi upp gallana, en það má þó halda þessum galla til haga í bókhaldinu: þröskuldurinn að miðborginni fer hækkandi.
Að einhverju leyti er ég heillaður af hinu nýja skipulagi, til að halda því til haga. Mér finnst beinlínis skemmtilegt að leggja í bílastæðahúsinu undir Hörpu, líða upp úr jörðinni á rúllustiga og stíga svo út um þessa reisulegu byggingu inn í bæinn, eins og hún sé hlið til útlanda: nýju byggingarnar þar í kring eru alfarið óstaðbundnar, gætu verið hvar sem er, rétt eins og fólkið sem ráfar þar um – gegnum þetta galdrahlið get ég yfirgefið Ísland á korteri, hvenær sem er, brugðið mér af bæ og spásserað í túristalandi, áður en ég held svo sömu leið til baka. Það er galdur. En það er ekki vettvangur samfélags.
Þetta væri ekki svo bagalegt ef önnur hverfi væru skipulögð með andrými í huga, en svo er auðvitað ekki. Er eitt kaffihús í Vesturbænum? Annað … í Skeifunni? Hafið þið séð verðin á kökusneiðunum þar? Hlíðarnar eru beinlínis eyðiland að þessu leyti. Á margan hátt mjög indælt hverfi til búsetu – en fyrir fullorðið fólk er hér enginn vettvangur samfélags. Hverfið er ekki bara torglaust, kaffihúsalaust og barlaust, það er meira að segja kirkjulaust og sundlaugarlaust. Úthverfi, að því leytinu til, þó að það sé landfræðilega svo gott sem í hjarta borgarinnar.
Nú höfum við verið hér í nokkur ár. Innandyra er það óskaplega indælt. Framan af átti ég erfitt með að sofna fyrir þögninni hérna, hljóðrýmið fyrir utan gluggann er næstum eins og úti í sveit, en það á við víðast hvar í borginni. (Það er eiginlega eins og yfirvöld eigi hljóðrýmið með húð og hári: engar raddir í gangandi vegfarendum, ekkert skvaldur, og einhverra hluta vegna þenja heimamenn ekki einu sinni bílflautur, aldrei nokkurn tíma, svo það eina sem rýfur þögnina er stöku sírenuvæl frá sjúkrabílum og lögreglu.) Út úr húsi eigum við aftur á móti sárasjaldan nokkurt erindi nema á farartæki, út úr hverfinu. Ég held að þannig sé flestum hverfum Reykjavíkur háttað, nær allir íbúar Reykjavíkur séu að þessu leyti fátækari en við þyrftum að vera, að hér vantar pláss fyrir samfélag. Að einhverju leyti venst það, en þá samkvæmt lögmálinu „vont en það venst“.
Ég held að þetta séu engar fréttir, ég held að við vitum þetta öll. En mikið er undarlega seigt í þessu ástandi. Ef miðbærinn er nú varanlega ætlaður í annað, þá þarf að finna félagslegri tilveru ný pláss. Á meðan þau eru ekki til staðar er skiljanlegt að fólk verji miklum tíma á „samfélagsmiðlum“. Þeir eru eins konar hinsta úrræði, nauðvörn, þegar er búið að hrekja samfélag út í horn.