Borglaus borg

02.12.2023 ~ 3 mín

Það væri ósmekk­legt að líkja ferða­iðn­að­inum í Reykja­vík við hernám borg­ar­innar, á sama tíma og fólk af holdi og blóði upplifir raun­veru­legt, banvænt hernám. En þá vantar okkur annað, nothæft, krítískt hugtak yfir þetta ástand: miðborgin er eini borg­ar­hlut­inn sem mótað­ist að einhverju leyti sem félags­rými, andrými, utan einberra versl­ana, vinnu­staða og heim­ila. Ég á ekki við að þetta þrennt hafi ekki verið þar líka, heldur að í miðbænum varði fólk tíma í öðrum erindum að auki, þar var um margra ára bil „þriðji staður“ margra. Ekki aðeins er búseta þar að breyt­ast, allur rekstur ummynd­aður í þágu ferða­manna með gjald­eyri og götu­lífið með, heldur verður svæðið í sömu mund sífellt aflok­aðra með gjald­töku fyrir ferðir þangað inn. Ég er ekki að mæla á móti bíla­stæða­gjaldi og sektum eða útfærslu þess, það getur vel verið að kost­irnir vegi upp gall­ana, en það má þó halda þessum galla til haga í bókhald­inu: þrösk­uld­ur­inn að miðborg­inni fer hækkandi.

Að einhverju leyti er ég heill­aður af hinu nýja skipu­lagi, til að halda því til haga. Mér finnst bein­línis skemmti­legt að leggja í bíla­stæða­hús­inu undir Hörpu, líða upp úr jörð­inni á rúllu­stiga og stíga svo út um þessa reisu­legu bygg­ingu inn í bæinn, eins og hún sé hlið til útlanda: nýju bygg­ing­arnar þar í kring eru alfarið óstað­bundnar, gætu verið hvar sem er, rétt eins og fólkið sem ráfar þar um – gegnum þetta galdra­hlið get ég yfir­gefið Ísland á kort­eri, hvenær sem er, brugðið mér af bæ og spáss­erað í túristalandi, áður en ég held svo sömu leið til baka. Það er galdur. En það er ekki vett­vangur samfélags.

Þetta væri ekki svo baga­legt ef önnur hverfi væru skipu­lögð með andrými í huga, en svo er auðvitað ekki. Er eitt kaffi­hús í Vest­ur­bænum? Annað … í Skeif­unni? Hafið þið séð verðin á köku­sneið­unum þar? Hlíð­arnar eru bein­línis eyði­land að þessu leyti. Á margan hátt mjög indælt hverfi til búsetu – en fyrir full­orðið fólk er hér enginn vett­vangur samfé­lags. Hverfið er ekki bara torglaust, kaffi­húsa­laust og barlaust, það er meira að segja kirkju­laust og sund­laug­ar­laust. Úthverfi, að því leyt­inu til, þó að það sé land­fræði­lega svo gott sem í hjarta borgarinnar.

Nú höfum við verið hér í nokkur ár. Innan­dyra er það óskap­lega indælt. Framan af átti ég erfitt með að sofna fyrir þögn­inni hérna, hljóð­rýmið fyrir utan glugg­ann er næstum eins og úti í sveit, en það á við víðast hvar í borg­inni. (Það er eigin­lega eins og yfir­völd eigi hljóð­rýmið með húð og hári: engar raddir í gang­andi vegfar­endum, ekkert skvaldur, og einhverra hluta vegna þenja heima­menn ekki einu sinni bílflautur, aldrei nokk­urn tíma, svo það eina sem rýfur þögn­ina er stöku sírenu­væl frá sjúkra­bílum og lögreglu.) Út úr húsi eigum við aftur á móti sára­sjaldan nokk­urt erindi nema á farar­tæki, út úr hverf­inu. Ég held að þannig sé flestum hverfum Reykja­víkur háttað, nær allir íbúar Reykja­víkur séu að þessu leyti fátæk­ari en við þyrftum að vera, að hér vantar pláss fyrir samfé­lag. Að einhverju leyti venst það, en þá samkvæmt lögmál­inu „vont en það venst“.

Ég held að þetta séu engar fréttir, ég held að við vitum þetta öll. En mikið er undar­lega seigt í þessu ástandi. Ef miðbær­inn er nú varan­lega ætlaður í annað, þá þarf að finna félags­legri tilveru ný pláss. Á meðan þau eru ekki til staðar er skilj­an­legt að fólk verji miklum tíma á „samfé­lags­miðlum“. Þeir eru eins konar hinsta úrræði, nauð­vörn, þegar er búið að hrekja samfé­lag út í horn.