Góðar fréttir og slæmar fréttir úr Ölpunum

20.9.2024 ~ 5 mín

Í þess­ari viku, á miðviku­dag, flutti Lestin á RÚV pistil frá mér, þann fyrsta í svolít­illi röð um upplýs­inga­óreiðu. Það er kannski ekki bein­línis til þess fallið að laða flesta áheyr­endur að umfjöll­un­ar­efn­inu en ég ákvað að byrja á 19. öld, árið 1813, í Eyja­firði, þar sem sýslu­maður sakaði prest um að hafa gert grín að bólu­setn­ingum. Kannski er ágætt að blogga samhliða þessum pistlum. Það er engin hætta á að blogg­færsl­urnar þvæl­ist fyrir hlust­endum Rásar 1, almennt, hingað rata fáir – kannski hérumbil jafn margir og fletta upp aftan­máls­greinum við lestur bóka.

Á bakvið eyrað á mér, þegar ég byrja þetta einkenni­lega ferða­lag um viðfangs­efnið, er heims­far­ald­ur­inn. Þessi sem við segjum ekki lengur nafnið á, því um leið og einhver segir Covid hljóðnar setn­ingin eða springur í loft upp, hverfur. Þetta kom meðal annars fram í skrif­legum vitn­is­burði Marks Zucker­berg, eða svari hans við fyrir­spurn banda­rískrar þing­nefndar, á dögunum: Já, skrif­aði hann, við hjá Face­book létum undan þrýst­ingi banda­rískra stjórn­valda frá því vetur­inn 2021/2022 og skrúf­uðum niður í allri umfjöllun um Covid á miðl­inum, að meðtöldum brönd­urum. Zucker­berg sagð­ist sjá eftir þessu í dag.

Í viðtali sem Gunnar Smári Egils­son tók við Kristin Hrafns­son, ritstjóra Wiki­leaks, á dögunum, ræddu þeir þetta meðal annars. Gunnar Smári nefndi í því samhengi þá reynslu sem Samstöðin hefur af því að Face­book, eða einhver algór­i­þmi á vegum Face­book, ákveði að skrúfa niður í miðl­inum vegna efnistaka – aðsókn lítilla fjöl­miðla er í dag svo háð samfé­lags­miðlum að hún getur hrunið á einni nóttu þegar slíkt gerist.

Þegar allir halda að enginn hafi áhuga

Ég hef furðað mig á því, allt frá vorinu 2022, hvernig það gat gerst að um leið og stjórn­völd ákváðu að fella niður allar varnir, um leið og allir smit­uð­ust og dauðs­föllum fjölg­aði, þá hættu allir að ræða um sjúk­dóm­inn. Ég geri ekki ráð fyrir að undan­láts­semi Face­book við banda­rísk stjórn­völd hafi ráðið öllu um það, en hugs­an­lega skipti sú eina aðgerð tölu­verðu máli, ekki síst á þessu landi, þar sem þjóð­má­laum­ræða fer að miklu leyti fram á einmitt þeim miðli.

Í fyrsta lagi hafa fjöl­miðlar rekið sig á að aðsókn að fréttum um farald­ur­inn snar­minnk­aði um þær mundir – án þess að hafa neinar upplýs­ingar um að Zucker­berg og félagar hefðu ákveðið að svo skyldi verða. Flestar ritstjórnir hljóta að hafa tekið því sem svo að lesendur hefðu ekki lengur áhuga á viðfangsefninu.

Í öðru lagi hefur allur almenn­ingur upplifað eitt­hvað hlið­stætt: fálæti og viðbragðs­leysi við færslum um farald­ur­inn um leið og hver og einn hefur skyndi­lega hætt að sjá færslur frá öðrum um hann, og setið eftir með þá tilfinn­ingu að það væri hans, háns eða hennar persónu­lega þráhyggja og vanda­mál að hafa enn hugann við svo sérvisku­legt viðfangsefni.

Fleira kom víst áreið­an­lega til. En eitt og sér hefur þetta ekki haft lítil áhrif.

„Hátindur afneit­un­ar­innar“

Í tíma­rit­inu Scientific American birt­ist í júní­mán­uði grein með titil­inn „We’ve Hit Peak Denial. Here’s Why We Can’t Turn Away from Reality“ eða: „Við erum á hátindi afneit­un­ar­innar en hér er ástæðan fyrir því að við getum ekki hunsað veruleikann“. 

Höfund­arnir ræða um þá lágmörkun sem hefur átt sér stað – lágmörkun á umfjöllun, lágmörkun á vand­anum („hva, þetta er bara flensa,“ o.s.frv.) – og skrifa: „Lágmörk­unin heldur þögla part­inum þöglum: að heim­ur­inn er enn í heims­far­aldri, samkvæmt Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­un­inni, og að yfir 73.000 Banda­ríkja­menn dóu úr Covid árið 2023, fleiri en í bílslysum eða úr flensu. Á meðal þeirra sem hafa sýkst hafa um 10 prósent lang­vinn einkenni, alvar­legt ástand sem engin viður­kennd meðferð er til við og veldur mörgum örorku, með sjúk­dóms­byrði sem er sambæri­leg við krabba­mein eða hjarta­sjúk­dóma og er efna­hags­lega kostnað­að­ar­sam­ari en samdrátt­ur­inn mikli [2007–2009]. Ennfremur er hver sýking, óháð því hversu mild hún er, tengd veru­lega aukinni hættu á heilsu­far­svanda, að meðtal­inni vits­muna­skerð­ingu, sjálf­sónæm­is­sjúk­dómum og hjarta- og æðakvillum.“

Þau segja hunsun farald­urs­ins þannig vera gott sýni­dæmi um þá „leik­bók hópaf­neit­unar“ sem liggi til grund­vallar nýjum veru­leika okkar. Hvað gerist þegar við venj­umst því að horfa fram hjá og þola síaukið magn af tjóni, hvað gerist þegar það verður að menn­ing­ar­hefð, spyrja þau og svara: „Að dvelja á hátindi afneit­unar hjálpar okkur að þrauka, til skamms tíma. Til lengri tíma litið mun það ríða okkur á slig. Hættan er afnæm­ing: að við mætum þess­ari fordæma­lausu runu flók­inna vanda­mála, frá hnatt­hlýnun til upprisu fasisma, með óvirku samþykki frekar en að grípa til brýnna, sameig­in­legra aðgerða.“

Mér var léttir að því að sjá þessa grein, því ég upplifi þessa viðvar­andi hunsun sem ógnvekj­andi ástand á sömu forsendum og höfundar hennar. Ég held að afleið­ing­arnar af því séu takmarkalausar.

Rödd skyn­sem­innar í sviss­nesku ölpunum

Í krafti þess­arar viðvar­andi lágmörkunar/hunsunar/afneitunar myndu auðvitað margir vilja líta á skrifin sem hysteríu, eins þó að þau birt­ist í Scientific American – sem er nú bara einhvers konar popp­vís­inda­rit, hvort eð er, og hvað er svona merki­legt við það að kenna við Stan­ford, og svo fram­vegis. Hvar finnum við, milli þagnar og hávaða, hina yfir­veg­uðu rödd skyn­sem­innar sem er treyst­andi til að greina á milli þess sem er vert að hafa áhyggjur af og þess sem er óþarft að leiða hugann að? Hverjum er helst treyst­andi til að vera ekki með uppþot og óðagot yfir engu, og vera samt á varð­bergi fyrir ógnum? 

Trygg­inga­fé­lög hafa hags­muni af því einu að meta áhættu rétt, öll starf­semi þeirra grund­vall­ast á köldu mati, að ýkja hvorki né draga úr. Og það vill svona til að í upphafi þess­arar viku, um miðjan sept­em­ber 2024, gaf eitt stærsta trygg­inga­fé­lag heims, Swiss Re, út ítar­lega skýrslu um þróun umframdauðs­falla í heim­inum. Skýrsl­unni var fylgt úr hlaði með frétta­til­kynn­ingu sem bar skýran titil: „Covid-19 may lead to longest period of peacetime excess mortality, says new Swiss Re report“ — „Covid 19 gæti leitt til lengsta tíma­bils umframdauðs­falla á frið­ar­tímum, segir ný skýrsla Swiss Re“. (Látum liggja á milli hluta hvort rétt er að kalla þessi miss­eri frið­ar­tíma, líklega verða allir að afneita einhverju um þessar mundir). Swiss Re segir að ef gripið yrði til aðgerða til að hemja farald­ur­inn, og allt færi á besta veg héðan af, gætu dauðs­föll í heim­inum komist aftur í eðli­legt horf um 2028. Ég hef ekki lesið skýrsl­una alla til að sjá hvort félagið telur það líklegt.