Í þessari viku, á miðvikudag, flutti Lestin á RÚV pistil frá mér, þann fyrsta í svolítilli röð um upplýsingaóreiðu. Það er kannski ekki beinlínis til þess fallið að laða flesta áheyrendur að umfjöllunarefninu en ég ákvað að byrja á 19. öld, árið 1813, í Eyjafirði, þar sem sýslumaður sakaði prest um að hafa gert grín að bólusetningum. Kannski er ágætt að blogga samhliða þessum pistlum. Það er engin hætta á að bloggfærslurnar þvælist fyrir hlustendum Rásar 1, almennt, hingað rata fáir – kannski hérumbil jafn margir og fletta upp aftanmálsgreinum við lestur bóka.
Á bakvið eyrað á mér, þegar ég byrja þetta einkennilega ferðalag um viðfangsefnið, er heimsfaraldurinn. Þessi sem við segjum ekki lengur nafnið á, því um leið og einhver segir Covid hljóðnar setningin eða springur í loft upp, hverfur. Þetta kom meðal annars fram í skriflegum vitnisburði Marks Zuckerberg, eða svari hans við fyrirspurn bandarískrar þingnefndar, á dögunum: Já, skrifaði hann, við hjá Facebook létum undan þrýstingi bandarískra stjórnvalda frá því veturinn 2021/2022 og skrúfuðum niður í allri umfjöllun um Covid á miðlinum, að meðtöldum bröndurum. Zuckerberg sagðist sjá eftir þessu í dag.
Í viðtali sem Gunnar Smári Egilsson tók við Kristin Hrafnsson, ritstjóra Wikileaks, á dögunum, ræddu þeir þetta meðal annars. Gunnar Smári nefndi í því samhengi þá reynslu sem Samstöðin hefur af því að Facebook, eða einhver algóriþmi á vegum Facebook, ákveði að skrúfa niður í miðlinum vegna efnistaka – aðsókn lítilla fjölmiðla er í dag svo háð samfélagsmiðlum að hún getur hrunið á einni nóttu þegar slíkt gerist.
Þegar allir halda að enginn hafi áhuga
Ég hef furðað mig á því, allt frá vorinu 2022, hvernig það gat gerst að um leið og stjórnvöld ákváðu að fella niður allar varnir, um leið og allir smituðust og dauðsföllum fjölgaði, þá hættu allir að ræða um sjúkdóminn. Ég geri ekki ráð fyrir að undanlátssemi Facebook við bandarísk stjórnvöld hafi ráðið öllu um það, en hugsanlega skipti sú eina aðgerð töluverðu máli, ekki síst á þessu landi, þar sem þjóðmálaumræða fer að miklu leyti fram á einmitt þeim miðli.
Í fyrsta lagi hafa fjölmiðlar rekið sig á að aðsókn að fréttum um faraldurinn snarminnkaði um þær mundir – án þess að hafa neinar upplýsingar um að Zuckerberg og félagar hefðu ákveðið að svo skyldi verða. Flestar ritstjórnir hljóta að hafa tekið því sem svo að lesendur hefðu ekki lengur áhuga á viðfangsefninu.
Í öðru lagi hefur allur almenningur upplifað eitthvað hliðstætt: fálæti og viðbragðsleysi við færslum um faraldurinn um leið og hver og einn hefur skyndilega hætt að sjá færslur frá öðrum um hann, og setið eftir með þá tilfinningu að það væri hans, háns eða hennar persónulega þráhyggja og vandamál að hafa enn hugann við svo sérviskulegt viðfangsefni.
Fleira kom víst áreiðanlega til. En eitt og sér hefur þetta ekki haft lítil áhrif.
„Hátindur afneitunarinnar“
Í tímaritinu Scientific American birtist í júnímánuði grein með titilinn „We’ve Hit Peak Denial. Here’s Why We Can’t Turn Away from Reality“ eða: „Við erum á hátindi afneitunarinnar en hér er ástæðan fyrir því að við getum ekki hunsað veruleikann“.
Höfundarnir ræða um þá lágmörkun sem hefur átt sér stað – lágmörkun á umfjöllun, lágmörkun á vandanum („hva, þetta er bara flensa,“ o.s.frv.) – og skrifa: „Lágmörkunin heldur þögla partinum þöglum: að heimurinn er enn í heimsfaraldri, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, og að yfir 73.000 Bandaríkjamenn dóu úr Covid árið 2023, fleiri en í bílslysum eða úr flensu. Á meðal þeirra sem hafa sýkst hafa um 10 prósent langvinn einkenni, alvarlegt ástand sem engin viðurkennd meðferð er til við og veldur mörgum örorku, með sjúkdómsbyrði sem er sambærileg við krabbamein eða hjartasjúkdóma og er efnahagslega kostnaðaðarsamari en samdrátturinn mikli [2007–2009]. Ennfremur er hver sýking, óháð því hversu mild hún er, tengd verulega aukinni hættu á heilsufarsvanda, að meðtalinni vitsmunaskerðingu, sjálfsónæmissjúkdómum og hjarta- og æðakvillum.“
Þau segja hunsun faraldursins þannig vera gott sýnidæmi um þá „leikbók hópafneitunar“ sem liggi til grundvallar nýjum veruleika okkar. Hvað gerist þegar við venjumst því að horfa fram hjá og þola síaukið magn af tjóni, hvað gerist þegar það verður að menningarhefð, spyrja þau og svara: „Að dvelja á hátindi afneitunar hjálpar okkur að þrauka, til skamms tíma. Til lengri tíma litið mun það ríða okkur á slig. Hættan er afnæming: að við mætum þessari fordæmalausu runu flókinna vandamála, frá hnatthlýnun til upprisu fasisma, með óvirku samþykki frekar en að grípa til brýnna, sameiginlegra aðgerða.“
Mér var léttir að því að sjá þessa grein, því ég upplifi þessa viðvarandi hunsun sem ógnvekjandi ástand á sömu forsendum og höfundar hennar. Ég held að afleiðingarnar af því séu takmarkalausar.
Rödd skynseminnar í svissnesku ölpunum
Í krafti þessarar viðvarandi lágmörkunar/hunsunar/afneitunar myndu auðvitað margir vilja líta á skrifin sem hysteríu, eins þó að þau birtist í Scientific American – sem er nú bara einhvers konar poppvísindarit, hvort eð er, og hvað er svona merkilegt við það að kenna við Stanford, og svo framvegis. Hvar finnum við, milli þagnar og hávaða, hina yfirveguðu rödd skynseminnar sem er treystandi til að greina á milli þess sem er vert að hafa áhyggjur af og þess sem er óþarft að leiða hugann að? Hverjum er helst treystandi til að vera ekki með uppþot og óðagot yfir engu, og vera samt á varðbergi fyrir ógnum?
Tryggingafélög hafa hagsmuni af því einu að meta áhættu rétt, öll starfsemi þeirra grundvallast á köldu mati, að ýkja hvorki né draga úr. Og það vill svona til að í upphafi þessarar viku, um miðjan september 2024, gaf eitt stærsta tryggingafélag heims, Swiss Re, út ítarlega skýrslu um þróun umframdauðsfalla í heiminum. Skýrslunni var fylgt úr hlaði með fréttatilkynningu sem bar skýran titil: „Covid-19 may lead to longest period of peacetime excess mortality, says new Swiss Re report“ — „Covid 19 gæti leitt til lengsta tímabils umframdauðsfalla á friðartímum, segir ný skýrsla Swiss Re“. (Látum liggja á milli hluta hvort rétt er að kalla þessi misseri friðartíma, líklega verða allir að afneita einhverju um þessar mundir). Swiss Re segir að ef gripið yrði til aðgerða til að hemja faraldurinn, og allt færi á besta veg héðan af, gætu dauðsföll í heiminum komist aftur í eðlilegt horf um 2028. Ég hef ekki lesið skýrsluna alla til að sjá hvort félagið telur það líklegt.