Svar til manns á Facebook

22.9.2024 ~ 6 mín

Ég veit að það er hópur þarna úti, hávær ef ekki stór, sem er búinn að bíta það í sig, og gerði fyrir löngu, að í heims­far­aldr­inum væru sótt­varnir stærra vanda­mál, eða að minnsta kosti athygl­is­verð­ara vanda­mál, en sóttin sjálf. Ég vil ekki gera lítið úr vanda þeirra sem kljást við eftir­köst af bólu­setn­ingum. En þau hafa nú um hríð fengið heldur meiri athygli en farald­ur­inn sjálfur, sem ég held að gefi ranga mynd af umfangi hans.

Ég geri ráð fyrir að þú takir þennan pól í hæðina í góðri trú, ég held ekki að þú gangir erinda hags­muna­að­ila á við ferða­iðn­að­inn. Við þekkj­umst ekki persónu­lega en ég geri ekki heldur ráð fyrir að þú sért félagi í Sjálf­stæð­is­flokknum, eða eigir til dæmis nokkuð undir velvild fyrr­ver­andi utan­rík­is­ráð­herr­ans sem flaug til Washington við upphaf farald­urs­ins til að grát­biðja um undan­þágu frá ferðatakmörkunum.

Mér finnst líka vert að halda til haga að ég held að með því að beina athygli að lyfja­iðn­að­inum sem hags­muna­að­ila í málinu hafirðu rétt fyrir þér um ákveðið megin­at­riði, það að hags­munir hafi ráðið miklu um hvernig viður­eignin við farald­ur­inn þróað­ist, en ekki vísindin ein eða gæskan ein eða einhver önnur háleit hugsjón. Að því sögðu held ég hins vegar að grein­ing þín á þeim hags­munum sé ófull­nægj­andi. Lyfja­iðn­að­ur­inn er subbu­legur – en það er allur kapí­tal­ismi. Og ef maður setur á vogar­skál­arnar hags­mun­ina af því að selja millj­arða sprautu­skammta, annars vegar, og hags­mun­ina af því að halda öllu heila neyslu­hag­kerfi heims­ins gang­andi, hins vegar, þá eru þeir síðar­nefndu tölu­vert þyngri.

Þetta tvennt flétt­að­ist auðvitað saman með bólu­setn­ing­unum, þegar þær voru notaðar sem tæki­færi til að sann­færa fólk um að eftir sprautu þyrfti það ekki að hafa frek­ari áhyggjur af faraldr­inum, vand­inn væri, ef ekki leystur, þá jafn leystur og hann nokk­urn tíma yrði. Bólu­setn­ing­arnar gerðu gagn: við upphaf farald­urs­ins var því spáð að án aðgerða myndu þúsundir deyja af völdum Covid á Íslandi. Þegar pest­inni var sleppt lausri, eftir bólu­setn­ingar, dóu nokkur hundruð. Það var í samræmi við spár um að bólu­efnin myndu fækka dauðs­föllum um 90 prósent eða þarumbil.

Blóð­ugt var þetta eftir sem áður. Eftir þá þöglu fórn, dauðs­föll sem voru ýmist sögð 200 eða 400 en aldrei talin af meiri nákvæmni en svo, hvað þá að þeirra væri minnst á nokk­urn hátt af þessu samfé­lagi, þá stóð almenn­ingur eftir með óform­legt skír­teini upp á vasann um að meira þyrfti ekki að aðhaf­ast, og hagkerfið gæti gengið sinn vana­gang. Eftir því sem árin líða kemur hins vegar hægt og bítandi í ljós að viðvar­anir þeirra sem sögðu bólu­efnin ekki duga ein sér, og að eftir­köst þeirrar stefnu gætu orðið veru­leg, áttu við rök að styðjast:

1. Endursmit hafa ekki reynst fátíð heldur regla því:

2. ónæmið sem vinnst við sýkingu (eða bólu­setn­ingu) er afar tíma­bundið enda:

3. höfum við gert heim­inn allan að viðvar­andi gróðra­stöð fyrir ný afbrigði.

Við þetta má sann­ar­lega bæta þeim vonbrigðum að bólu­efnin veittu aldrei vörn gegn smiti.

Það virð­ist samdóma álit sérfræð­inga nú að Covid sé ekki fyrst og fremst öndun­ar­færa­sjúk­dómur, heldur ráðist veiran á fjölda kerfa líkam­ans. Uggvæn­leg­ust þykja mér áhrifin á ónæmis­kerfið og tauga­kerfið, að meðtöldum heila: ónæmis­kerfið vegna þess að þau áhrif halda áfram að koma í ljós yfir langan tíma, það er ekki alveg útséð með hvar það endar allt; tauga­kerfið og heil­ann af því að mér þykir vænt um ýmsa getu þeirra kerfa og held að það sé tölu­verður ávinn­ingur af því að hafa þau í sem bestu standi.

Enn eitt atriði sem enginn sérfræð­ingur neitar nú er að megin­smit­leið sjúk­dóms­ins er um andrúms­loft. Ekki með dropa­smiti heldur úðasmiti, eins og það heitir á íslensku. Orðin hljóma keim­lík, en það er regin­munur á því hvers konar viðbrögð þau kalla á: dropa­smit útheimtir spritt­aðar hendur og 2ja metra fjar­lægð eða svo, úðasmit þýðir að veiran liggur í loft­inu um hríð, dreif­ist víða – og að hreinsun andrúms­lofts í fjöl­förnum rýmum innan­dyra er lykil­at­riði til að verj­ast henni. Það er hægt að gera á tvennan hátt, hið minnsta: hver og einn getur hreinsað sitt loft persónu­lega, með góðri öndun­ar­grímu; en loftið má einnig hreinsa með góðri loftræst­ingu, allt frá opnum gluggum að HEPA-filterum. 

Hvers vegna er það þá ekki gert? Hvers vegna var ekki gert stór­átak í að bæta loftræst­ingu, að minnsta kosti í þeim rýmum þar sem smit eru tíðust og sem fólk kemst ekki hjá því að sækja, eins og skólum, sjúkra­húsum, heilsu­gæslu­stöðvum, sjúkra­heim­ilum … versl­unum, hví ekki, skrif­stofum og svo fram­vegis? Í stystu máli virð­ist ástæðan einfald­lega vera sú að auðvaldið komst upp með að gera minna en svo. Krafan um hreint andrúms­loft er eins og hver önnur vinnu­vernd eða neyt­enda­vernd, vernd við geislun, mengun eða slysum: þess háttar vernd hefur aldrei komið til sögunnar að frum­kvæði rekstr­ar­að­ila, heldur sem viðbragð við þrýst­ingi frá almenn­ingi, þeim hópum sem annars yrðu fyrir barð­inu á geisl­un­inni, meng­un­inni eða slys­unum. Í þetta sinn, hins vegar, í faraldr­inum fram til þessa, þá sann­færð­ist krítískur hluti almenn­ings um að hagur hans fælist fyrst og fremst í því að vera óvar­inn, það væri spurn­ing um frelsi andspænis gerræði, hver og einn yrði að njóta rétt­ar­ins til að smita og smitast.

Og það er hér sem ég álít afstöðu þína – og annarra sem eru á sama máli – hafa orðið skað­lega: með því að horfa aðeins á hags­muni og spill­ingu lyfja­fyr­ir­tækj­anna hafið þið misst sjónar á því umtals­vert meira tjóni sem við vinnum okkur ötul­lega sjálf um þessar mundir, í þágu allra heims­ins vinnu­veit­enda. Að með viðbragði á við: „Hvað viltu þá, ha, eitt­hvað eilífðar sótt­varn­ar­ríki?“ takist ykkur dag frá degi – sem fótgönguliðum í allt öðrum her en þið haldið ykkur tilheyra – að fæla fólk frá mikil­vægum spurn­ingum um hvað væri raun­veru­lega skyn­sam­legt að gera.

Tvennt mun áreið­an­lega ekki endur­taka sig héðan í frá: engin ein bylgja mun rísa jafn hátt og vorbylgjan 2022; dauðs­föll verða ekki aftur jafn tíð og þau voru fram að bólu­setn­ingum. En þó að veiran hefði frá upphafi ekkert gert nema valda þeirri greind­ar­skerð­ingu sem nú er ljóst að hún gerir, þá held ég að það væri til nokk­urs unnið að fækka smitum eins og kostur er. Að gera það ekki er reyndar í frekar mögn­uðu ósam­ræmi við áhættumat fólks almennt í sínu daglega lífi: ekki aðeins spennum við bílbelti óháð því hvort við erum á leið­inni eftir sérdeilis hættu­legum vegum eða ekki, ég hef séð full­orðið fólk hjóla um göngu­stíga í Elliða­ár­dal, í blíðskap­ar­veðri og góðri birtu, með hjálma á höfð­inu! Sjálfum þykir mér það tölu­vert asna­legri öryggis­kúltúr en að gera ráð fyrir sótt­vörnum á heil­brigð­is­stofn­unum, til dæmis. Kannski er áhugi minn á efninu þá þráhyggja, í von um samræmi í veröld sem er og verður mótsagna­kennd. En í ljósi þess að bölsýnni vísinda­menn­irnir hafa haft rétt fyrir sér um alla hluti í sögu farald­urs­ins til þessa, þá langar mig enn að smit­ast sem sjaldn­ast. Ef það væri eitt­hvað sem ég gæti annast einn með sjálfum mér, þegj­andi og hljóða­laust, þá myndi ég jafn­vel láta það duga úr þessu. En þannig virka smit­sjúk­dómar víst ekki.

Eitt enn sem ekki mun endur­taka sig: sótt­varn­ar­að­gerðir áranna 2020–2022. Ef það sem þú hefur áhyggjur af þegar þú talar um „eilífðar sótt­varn­ar­ríki“ er að við þurfum aftur að standa í röðum við matvöru­búðir, í tveggja metra fjar­lægð frá næsta manni, þá geturðu andað léttar: með laga­breyt­ingum sem gerðar voru á tíma­bil­inu var valdið til slíkra aðgerða í raun tekið af höndum sótt­varna­læknis, sem nú er háður póli­tískum meiri­hluta í hverju fótmáli. Ráðandi öfl líta auðvitað á það sem fram­farir. Ég hneig­ist til að líta það sömu augum og ýmsir sósí­al­istar, sem misráðna einka­væð­ingu, til marks um enda­lok hugmynd­ar­innar um lýðheilsu.