Ég veit að það er hópur þarna úti, hávær ef ekki stór, sem er búinn að bíta það í sig, og gerði fyrir löngu, að í heimsfaraldrinum væru sóttvarnir stærra vandamál, eða að minnsta kosti athyglisverðara vandamál, en sóttin sjálf. Ég vil ekki gera lítið úr vanda þeirra sem kljást við eftirköst af bólusetningum. En þau hafa nú um hríð fengið heldur meiri athygli en faraldurinn sjálfur, sem ég held að gefi ranga mynd af umfangi hans.
Ég geri ráð fyrir að þú takir þennan pól í hæðina í góðri trú, ég held ekki að þú gangir erinda hagsmunaaðila á við ferðaiðnaðinn. Við þekkjumst ekki persónulega en ég geri ekki heldur ráð fyrir að þú sért félagi í Sjálfstæðisflokknum, eða eigir til dæmis nokkuð undir velvild fyrrverandi utanríkisráðherrans sem flaug til Washington við upphaf faraldursins til að grátbiðja um undanþágu frá ferðatakmörkunum.
Mér finnst líka vert að halda til haga að ég held að með því að beina athygli að lyfjaiðnaðinum sem hagsmunaaðila í málinu hafirðu rétt fyrir þér um ákveðið meginatriði, það að hagsmunir hafi ráðið miklu um hvernig viðureignin við faraldurinn þróaðist, en ekki vísindin ein eða gæskan ein eða einhver önnur háleit hugsjón. Að því sögðu held ég hins vegar að greining þín á þeim hagsmunum sé ófullnægjandi. Lyfjaiðnaðurinn er subbulegur – en það er allur kapítalismi. Og ef maður setur á vogarskálarnar hagsmunina af því að selja milljarða sprautuskammta, annars vegar, og hagsmunina af því að halda öllu heila neysluhagkerfi heimsins gangandi, hins vegar, þá eru þeir síðarnefndu töluvert þyngri.
Þetta tvennt fléttaðist auðvitað saman með bólusetningunum, þegar þær voru notaðar sem tækifæri til að sannfæra fólk um að eftir sprautu þyrfti það ekki að hafa frekari áhyggjur af faraldrinum, vandinn væri, ef ekki leystur, þá jafn leystur og hann nokkurn tíma yrði. Bólusetningarnar gerðu gagn: við upphaf faraldursins var því spáð að án aðgerða myndu þúsundir deyja af völdum Covid á Íslandi. Þegar pestinni var sleppt lausri, eftir bólusetningar, dóu nokkur hundruð. Það var í samræmi við spár um að bóluefnin myndu fækka dauðsföllum um 90 prósent eða þarumbil.
Blóðugt var þetta eftir sem áður. Eftir þá þöglu fórn, dauðsföll sem voru ýmist sögð 200 eða 400 en aldrei talin af meiri nákvæmni en svo, hvað þá að þeirra væri minnst á nokkurn hátt af þessu samfélagi, þá stóð almenningur eftir með óformlegt skírteini upp á vasann um að meira þyrfti ekki að aðhafast, og hagkerfið gæti gengið sinn vanagang. Eftir því sem árin líða kemur hins vegar hægt og bítandi í ljós að viðvaranir þeirra sem sögðu bóluefnin ekki duga ein sér, og að eftirköst þeirrar stefnu gætu orðið veruleg, áttu við rök að styðjast:
1. Endursmit hafa ekki reynst fátíð heldur regla því:
2. ónæmið sem vinnst við sýkingu (eða bólusetningu) er afar tímabundið enda:
3. höfum við gert heiminn allan að viðvarandi gróðrastöð fyrir ný afbrigði.
Við þetta má sannarlega bæta þeim vonbrigðum að bóluefnin veittu aldrei vörn gegn smiti.
Það virðist samdóma álit sérfræðinga nú að Covid sé ekki fyrst og fremst öndunarfærasjúkdómur, heldur ráðist veiran á fjölda kerfa líkamans. Uggvænlegust þykja mér áhrifin á ónæmiskerfið og taugakerfið, að meðtöldum heila: ónæmiskerfið vegna þess að þau áhrif halda áfram að koma í ljós yfir langan tíma, það er ekki alveg útséð með hvar það endar allt; taugakerfið og heilann af því að mér þykir vænt um ýmsa getu þeirra kerfa og held að það sé töluverður ávinningur af því að hafa þau í sem bestu standi.
Enn eitt atriði sem enginn sérfræðingur neitar nú er að meginsmitleið sjúkdómsins er um andrúmsloft. Ekki með dropasmiti heldur úðasmiti, eins og það heitir á íslensku. Orðin hljóma keimlík, en það er reginmunur á því hvers konar viðbrögð þau kalla á: dropasmit útheimtir sprittaðar hendur og 2ja metra fjarlægð eða svo, úðasmit þýðir að veiran liggur í loftinu um hríð, dreifist víða – og að hreinsun andrúmslofts í fjölförnum rýmum innandyra er lykilatriði til að verjast henni. Það er hægt að gera á tvennan hátt, hið minnsta: hver og einn getur hreinsað sitt loft persónulega, með góðri öndunargrímu; en loftið má einnig hreinsa með góðri loftræstingu, allt frá opnum gluggum að HEPA-filterum.
Hvers vegna er það þá ekki gert? Hvers vegna var ekki gert stórátak í að bæta loftræstingu, að minnsta kosti í þeim rýmum þar sem smit eru tíðust og sem fólk kemst ekki hjá því að sækja, eins og skólum, sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, sjúkraheimilum … verslunum, hví ekki, skrifstofum og svo framvegis? Í stystu máli virðist ástæðan einfaldlega vera sú að auðvaldið komst upp með að gera minna en svo. Krafan um hreint andrúmsloft er eins og hver önnur vinnuvernd eða neytendavernd, vernd við geislun, mengun eða slysum: þess háttar vernd hefur aldrei komið til sögunnar að frumkvæði rekstraraðila, heldur sem viðbragð við þrýstingi frá almenningi, þeim hópum sem annars yrðu fyrir barðinu á geisluninni, menguninni eða slysunum. Í þetta sinn, hins vegar, í faraldrinum fram til þessa, þá sannfærðist krítískur hluti almennings um að hagur hans fælist fyrst og fremst í því að vera óvarinn, það væri spurning um frelsi andspænis gerræði, hver og einn yrði að njóta réttarins til að smita og smitast.
Og það er hér sem ég álít afstöðu þína – og annarra sem eru á sama máli – hafa orðið skaðlega: með því að horfa aðeins á hagsmuni og spillingu lyfjafyrirtækjanna hafið þið misst sjónar á því umtalsvert meira tjóni sem við vinnum okkur ötullega sjálf um þessar mundir, í þágu allra heimsins vinnuveitenda. Að með viðbragði á við: „Hvað viltu þá, ha, eitthvað eilífðar sóttvarnarríki?“ takist ykkur dag frá degi – sem fótgönguliðum í allt öðrum her en þið haldið ykkur tilheyra – að fæla fólk frá mikilvægum spurningum um hvað væri raunverulega skynsamlegt að gera.
Tvennt mun áreiðanlega ekki endurtaka sig héðan í frá: engin ein bylgja mun rísa jafn hátt og vorbylgjan 2022; dauðsföll verða ekki aftur jafn tíð og þau voru fram að bólusetningum. En þó að veiran hefði frá upphafi ekkert gert nema valda þeirri greindarskerðingu sem nú er ljóst að hún gerir, þá held ég að það væri til nokkurs unnið að fækka smitum eins og kostur er. Að gera það ekki er reyndar í frekar mögnuðu ósamræmi við áhættumat fólks almennt í sínu daglega lífi: ekki aðeins spennum við bílbelti óháð því hvort við erum á leiðinni eftir sérdeilis hættulegum vegum eða ekki, ég hef séð fullorðið fólk hjóla um göngustíga í Elliðaárdal, í blíðskaparveðri og góðri birtu, með hjálma á höfðinu! Sjálfum þykir mér það töluvert asnalegri öryggiskúltúr en að gera ráð fyrir sóttvörnum á heilbrigðisstofnunum, til dæmis. Kannski er áhugi minn á efninu þá þráhyggja, í von um samræmi í veröld sem er og verður mótsagnakennd. En í ljósi þess að bölsýnni vísindamennirnir hafa haft rétt fyrir sér um alla hluti í sögu faraldursins til þessa, þá langar mig enn að smitast sem sjaldnast. Ef það væri eitthvað sem ég gæti annast einn með sjálfum mér, þegjandi og hljóðalaust, þá myndi ég jafnvel láta það duga úr þessu. En þannig virka smitsjúkdómar víst ekki.
Eitt enn sem ekki mun endurtaka sig: sóttvarnaraðgerðir áranna 2020–2022. Ef það sem þú hefur áhyggjur af þegar þú talar um „eilífðar sóttvarnarríki“ er að við þurfum aftur að standa í röðum við matvörubúðir, í tveggja metra fjarlægð frá næsta manni, þá geturðu andað léttar: með lagabreytingum sem gerðar voru á tímabilinu var valdið til slíkra aðgerða í raun tekið af höndum sóttvarnalæknis, sem nú er háður pólitískum meirihluta í hverju fótmáli. Ráðandi öfl líta auðvitað á það sem framfarir. Ég hneigist til að líta það sömu augum og ýmsir sósíalistar, sem misráðna einkavæðingu, til marks um endalok hugmyndarinnar um lýðheilsu.