Ég opnaði fyrst vef árið 1997, ef ég man rétt, til birtingar á eigin efni og annarra. En það var ekki blogg, enska orðið „blog“ virðist fyrst hafa birst árið 1999.
Nýhil-bloggið var hugsanlega fyrsta bloggið sem ég átti aðild að, 2003. Tilfinningin er að það hafi liðið heil eilífð frá þeim tíma og þar til Facebook varð fyrst á vegi mínum, 2007, tvö gjörólík tímabil, en þó eru það aðeins fjögur ár, blasir nú við mér. Fyrsta einkabloggið mitt opnaði ég einhvern tíma þarna á milli, kannski 2005. Nei, 2004, sé ég núna, sumarið 2004. Ágúst 2004, nánar tiltekið. Sem þýðir að ég hef nýverið átt 20 ára bloggafmæli.
Þetta fyrsta var á blogspot.com, of ungæðislegt til að ég kæri mig um að gefa upp titilinn á því nú, enda öll lykilorð löngu gleymd og grafin og ómögulegt að eyða vandræðalegum færslum héðan af, sem ég get mér til um að séu fleiri en ein og kannski fleiri en fimmtíu. Líklega var það sumarið 2008 sem ég notaði WordPress í fyrsta sinn og færði mig á this.is-síðu, einhverjum árum síðar opnaði ég hauksmas.org, þar sem ég beið bara, ef satt skal segja, þolinmóður, frá 2016, held ég, þar til slóðin haukurmar.com losnaði, einhvern tíma eftir 2020. Kannski væri betur við hæfi að nota .is-lén undir efni sem er hvort eð er allt á íslensku og kannski er það ekki lengur miklu dýrara, eins og það var, en þó fellur mér líka ágætlega að netið sé ekki allt svo þjóð- og staðbundið.
Bloggið þjónar sannarlega ekki sama tilgangi í dag og það gerði þarna í upphafi. Ég á ekki við mitt blogg, þó sama megi segja um það, heldur bloggið yfirleitt, sem fyrirbæri. Það varð fyrst á vegi mínum sumarið 2001, þegar ég var sumarstarfsmaður hjá Morgunblaðinu og skrifaði um það grein í vikulega mannlífskálfinn Daglegt líf. Ég held að það hafi verið í fyrsta sinn sem orðið blogg birtist í íslenskum prentmiðli – ég nenni ekki að gá að því núna, en ég hafði að minnsta kosti ekki séð það nefnt áður. Þá tók ég viðtöl við Sigga pönk, sem bloggaði um anarkisma; við nýgift par sem bloggaði um líf sitt fyrir vini og ættingja á meðan þau dvöldu við nám erlendis; og við Salvöru Gissurardóttur, held ég, sem mig minnir að hafi bloggað um skólamál. Kannski voru fleiri þarna, en þau töldust öll til fyrstu íslensku bloggaranna. Til að gera grein fyrir fyrirbærinu hef ég áreiðanlega líkt því við einhvers konar dagbók á netinu.
Námsparið sem vill halda sambandi við fjölskyldu sína myndi í dag nota samfélagsmiðla. Anarkistarnir virðast upp til hópa gera það líka, að því leyti sem anarkismi þrífst þá lengur á netinu. Blogg um skólamál – ef ég man rétt hvað Salvör var að gera og að ég hafi rætt við hana, sem væri auðvelt fyrir mig að athuga auðvitað en til hvers að leita heimilda sem eru öllum aðgengilegar hvort eð er? – mögulega myndi maður enn nota blogg fyrir slíka umfjöllun í dag. Mögulega.
Á árunum frá 2004 til 2007, eða þar um bil, man ég að mér þótti bloggið mitt hægt og bítandi verða hluti af litlu vistkerfi blogga sem áttu í einhvers konar samtali sín á milli. Samtali einhverfra, kannski, eða því sem heitir parallel play í þroskafræðum, þegar börn læra að leika sér, ekki beint við önnur börn, heldur samsíða þeim. Einn að lita, annar í legó, eða kannski hvor í sínu legó og gjóa augunum hvor til annars við og við, fylgjast með. Mér finnst það notalegt tegund af nærveru, ég held að parallel play sé hápunkturinn á einhverju.
Íðorðasafn lumaði á þýðingunni Samhliða leikir og skilgreinir þá svona: leikir tveggja eða fleiri barna hlið við hlið, að nokkru leyti óháðir hver öðrum, en iðkaðir af meiri áhuga vegna samveru. Einmitt það. Meiri áhugi vegna samveru.
(Íðorðasafn lumar ekki á neinni skárri þýðingu á blog en þessari sem festi rætur, blogg.)
Þetta vistkerfi dagaði uppi eftir tilkomu samfélagsmiðla. Eða dagaði uppi … jú, eitthvað svoleiðis. Og úr varð þá minni áhugi vegna fjarveru.
En fyrir vikið er nóg pláss hérna. Hreint og gott loft. Maður ætti að geta nýtt það, þó ekki væri nema til að dreifa aðeins úr sér. Dreifa úr hausnum á sér.
Og ef manni finnst það einskis virði eitt og sér, ef manni finnst orðum ekki ætlað að sprikla, eða það sé að minnsta kosti hjákátleg árátta miðað við marksæknari notkunarmöguleika þeirra, þá eru þess dæmi að bloggfærslum hafi mistekist að koma því til skila sem þeim var ætlað en ekki linnt látum fyrr en þær voru orðnar heilar bækur. Ef þér finnst tíma þínum illa varið við lestur færslunnar sem nú er að ljúka, á ég við, bíddu þá bara þar til þú lest alla bókina.