Ég las fínan pistil á dögunum, frá manni sem er yngri en ég og ég man þess vegna því miður ekki hvað heitir. Framan af ævinni langar mann mest að ganga í augun á þeim sem eru eldri en maður sjálfur, og leggur á minnið hvað hinir og þessir heita í von um að einn daginn líti þeir á mann sem jafningja – þegar þar að kemur, eða kæmi, að það kæmi til greina, þá eru þeir … ég segi ekki allir dauðir, það væru ýkjur. Allavega, ég las fínan pistil, um það að þekkja ekki nágranna sína. Allir keyri af stað í vinnuna á morgnana með sama röflið í útvarpinu um hvernig samfélagið er að fara til fjandans, enginn heilsist þó, á leiðinni hver í sinn bíl og sína vinnu, og höfundurinn hafi hugsað með sér: samfélag á leiðinni til fjandans? Hvaða samfélag? Eða eitthvað í þá veru.
En vill maður þekkja nágranna sína? Eru það ekki frekar ummerki um vanþroskað borgarsamfélag, samfélag sem hefur ekki alveg slitið sveitaskónum, kann enn ekki að fagna firringunni? Ég meina þetta ekki sem öfugmæli, kannski er til betra orð en firring í þessu samhengi, en það er ekki lítið frelsi sem felst í því að fara nafnlaus um stræti og torg, ókunnugur öllum. Grundvallarfrelsi, jafnvel, forsenda þess að maður skilji yfirleitt hugmyndina um almenn réttindi.
Líklega hef ég ekki slitið sveitaskónum alveg heldur, því ég veit þó hvað pistlahöfundurinn á við, ég gæti jafnvel sagt að ég hafi tvíbenta afstöðu í málinu. Huggulegheitin sem maður ímyndar sér að finnist í smábæjum, frelsi þess að vera öllum ókunnugur á förnum vegi í stórborgum … þar sem hver og einn leitar þó auðvitað sinna huggulegheita með föstum viðkomustöðum, hverfisbar, kaffihúsi, viðburðum á tilteknu sviði. Að nógu margir sjái mann þó nógu reglubundið til að einhver spyrji sig, ef mann vantar of lengi: hvað ætli hafi orðið um hvað-sem-hann-heitir?
Hvers vegna fór ég að hugsa um þetta? Ég ætlaði að skrifa eitthvað um hættulegustu hugmyndir heimsins – síðan áttaði ég mig á að heimur væri full vítt og breitt í þessu samhengi, vildi heldur nota „hugmyndaheim“ – en hugmyndir hugmyndaheimsins er svolítið hjákátleg klifun. Og hvaða hugmyndaheim á ég þá við? Ég er allavega farinn að hallast að því að sá fjölskrúðugi sarpur misvel skilgreindra hugmynda sem fram að aldamótum var kallaður „nýaldarspeki“, stundum uppnefndur „kukl“, en er í dag svo útbreiddur að hann er eiginlega ekki kallaður neitt, ekki frekar en fiskar eiga orð yfir vatn – mengi sem grundvallast á upphafningu heilbrigðis, náttúru og hamingju, sem einhvers til að rækta með ástundun, hvort sem er jóga eða hugleiðslu, dvalar í óbyggðum, tilteknu mataræði, neyslu „hugvíkkandi“ efna og svo framvegis – að þetta sé ekki sakleysislegt tómstundagaman eða vitleysa sem þurfi ekki að taka alvarlega, heldur hættulegar hugmyndir sem grafi undan getu okkar til að virða rétt hvert annars.
Hvernig? Með áherslu á hugmyndina um verðskuldun. Að með réttri iðju, réttri iðkun, megirðu gera ráð fyrir að uppskera allt frá góðri heilsu til peninga og hamingju. Á móti kemur þá að óhamingja, fátækt, heilsubrestur eða dauði er á einn eða annan veg verðskuldaður líka, eitthvað sem hver og einn hefur samkvæmt skilgreiningu kallað yfir sig sjálfur, með því að villast af veginum, stunda ekki það sem hann hefði átt að stunda. Skakkaföll og hörmungar verða þannig eitthvað til að yppta öxlum yfir – aldrei sorgleg, hvað þá til marks um óréttlæti, heldur gangur lífsins í réttlátum heimi.
Að hvað sem gerist sé þegar öllu er á botninn hvolft – vegna sjálfskapaðs heilsubrests, vegna karma, vegna þess hvernig „náttúran leitar jafnvægis“ – að í krafti einhvers allsherjarlögmáls sem hnýti veröldina saman sé hvað sem gerist þegar öllu er á botninn hvolft réttlátt, eins og það á að vera eða eins og það hlýtur að vera, það er ekki bara friðandi og sefandi hugmynd, heppileg til persónulegs flótta hvers og eins frá nokkurri ábyrgð á að deila heimi með öðrum, heldur, í krafti útbreiðslu sinnar, sundurliðandi afl sem rímar fullkomlega við sundurliðunarþarfir og sundurliðunarkröfur síðkapítalismans.
Hugmyndin um rétt – grundvallarhugmynd nútímans í pólitískum skilningi – er alveg ósamræmanleg við hugmyndina um verðskuldun. Enginn á rétt vegna þess að hann eigi hann skilið, réttur er ekki áunninn, heldur yfirlýstur og viðurkenndur óháð öllum öðrum eiginleikum þeirra sem njóta hans.
Til dæmis mætti nefna 25. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna: „Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.“ Samkvæmt skilgreiningu er þetta réttur þinn, án þess að þú hafir gert nokkuð til að verðskulda hann – þú átt rétt á góðu heilbrigðiskerfi og húsnæði, alveg óháð því hvort þú mætir í ræktina eða reykir, borðar vegan eða sviðasultu, hugleiðir eða röflar á samfélagsmiðlum, býður af þér góðan þokka eða ert almennt álitinn óþolandi. Þess vegna er hugmyndin um mannréttindi enn róttæk hugmynd, því andstæða hugmyndin um verðskuldun stingur upp kollinum, aftur og aftur, í nýjum búningum, til að berja hana niður.
Og það var þaðan sem hugur minn hvarflaði að þessum ágæta pistli sem ég rakst á. Það minnsta sem ég get gert til að sporna gegn hinni viðvarandi sundurliðun er að leita hann aftur uppi og gá hvað höfundurinn heitir. Stefán Ingvar Vigfússon heitir hann. Pistillinn birtist í Heimildinni undir titlinum „Ég þekki ekki nágranna mína“.
Að því sögðu gerðist það einhvern tíma á síðustu árum að ég komst af því æviskeiði þar sem flest fólk er eldra en ég sjálfur yfir á hitt skeiðið, þegar flest fólk er yngra en ég sjálfur. Mér væri áreiðanlega fyrir bestu að fara að leggja á minnið hvað sumt af því heitir. Þekki ég sjálfan mig rétt mun það þó ganga töluvert hægar en sem nemur þessari linnulausu þróun, að fólki sem er yngra en ég heldur áfram að fjölga, hinum heldur áfram að fækka.
Sjötti október 2024. Þetta var fínn dagur. Fallegt haust.