Búninga­deild hugmynd­ar­innar um verðskuldun

07.10.2024 ~ 5 mín

Ég las fínan pistil á dögunum, frá manni sem er yngri en ég og ég man þess vegna því miður ekki hvað heitir. Framan af ævinni langar mann mest að ganga í augun á þeim sem eru eldri en maður sjálfur, og leggur á minnið hvað hinir og þessir heita í von um að einn daginn líti þeir á mann sem jafn­ingja – þegar þar að kemur, eða kæmi, að það kæmi til greina, þá eru þeir … ég segi ekki allir dauðir, það væru ýkjur. Alla­vega, ég las fínan pistil, um það að þekkja ekki nágranna sína. Allir keyri af stað í vinn­una á morgn­ana með sama röflið í útvarp­inu um hvernig samfé­lagið er að fara til fjand­ans, enginn heils­ist þó, á leið­inni hver í sinn bíl og sína vinnu, og höfund­ur­inn hafi hugsað með sér: samfé­lag á leið­inni til fjand­ans? Hvaða samfé­lag? Eða eitt­hvað í þá veru.

En vill maður þekkja nágranna sína? Eru það ekki frekar ummerki um vanþroskað borg­ar­sam­fé­lag, samfé­lag sem hefur ekki alveg slitið sveita­skónum, kann enn ekki að fagna firr­ing­unni? Ég meina þetta ekki sem öfug­mæli, kannski er til betra orð en firr­ing í þessu samhengi, en það er ekki lítið frelsi sem felst í því að fara nafn­laus um stræti og torg, ókunn­ugur öllum. Grund­vallar­frelsi, jafn­vel, forsenda þess að maður skilji yfir­leitt hugmynd­ina um almenn réttindi.

Líklega hef ég ekki slitið sveita­skónum alveg heldur, því ég veit þó hvað pistla­höf­und­ur­inn á við, ég gæti jafn­vel sagt að ég hafi tvíbenta afstöðu í málinu. Huggu­leg­heitin sem maður ímyndar sér að finn­ist í smábæjum, frelsi þess að vera öllum ókunn­ugur á förnum vegi í stór­borgum … þar sem hver og einn leitar þó auðvitað sinna huggu­leg­heita með föstum viðkomu­stöðum, hverf­is­bar, kaffi­húsi, viðburðum á tilteknu sviði. Að nógu margir sjái mann þó nógu reglu­bundið til að einhver spyrji sig, ef mann vantar of lengi: hvað ætli hafi orðið um hvað-sem-hann-heitir?

Hvers vegna fór ég að hugsa um þetta? Ég ætlaði að skrifa eitt­hvað um hættu­leg­ustu hugmyndir heims­ins – síðan áttaði ég mig á að heimur væri full vítt og breitt í þessu samhengi, vildi heldur nota „hugmynda­heim“ – en hugmyndir hugmynda­heims­ins er svolítið hjákát­leg klifun. Og hvaða hugmynda­heim á ég þá við? Ég er alla­vega farinn að hall­ast að því að sá fjöl­skrúð­ugi sarpur misvel skil­greindra hugmynda sem fram að alda­mótum var kall­aður „nýald­ar­speki“, stundum uppnefndur „kukl“, en er í dag svo útbreiddur að hann er eigin­lega ekki kall­aður neitt, ekki frekar en fiskar eiga orð yfir vatn – mengi sem grund­vall­ast á upphafn­ingu heil­brigðis, nátt­úru og hamingju, sem einhvers til að rækta með ástundun, hvort sem er jóga eða hugleiðslu, dvalar í óbyggðum, tilteknu mataræði, neyslu „hugvíkk­andi“ efna og svo fram­vegis – að þetta sé ekki sakleys­is­legt tómstundagaman eða vitleysa sem þurfi ekki að taka alvar­lega, heldur hættu­legar hugmyndir sem grafi undan getu okkar til að virða rétt hvert annars.

Hvernig? Með áherslu á hugmynd­ina um verð­skuldun. Að með réttri iðju, réttri iðkun, megirðu gera ráð fyrir að uppskera allt frá góðri heilsu til peninga og hamingju. Á móti kemur þá að óham­ingja, fátækt, heilsu­brestur eða dauði er á einn eða annan veg verð­skuld­aður líka, eitt­hvað sem hver og einn hefur samkvæmt skil­grein­ingu kallað yfir sig sjálfur, með því að vill­ast af veginum, stunda ekki það sem hann hefði átt að stunda. Skakka­föll og hörm­ungar verða þannig eitt­hvað til að yppta öxlum yfir – aldrei sorg­leg, hvað þá til marks um órétt­læti, heldur gangur lífs­ins í rétt­látum heimi.

Að hvað sem gerist sé þegar öllu er á botn­inn hvolft – vegna sjálf­skap­aðs heilsu­brests, vegna karma, vegna þess hvernig „nátt­úran leitar jafn­vægis“ – að í krafti einhvers alls­herj­ar­lög­máls sem hnýti veröld­ina saman sé hvað sem gerist þegar öllu er á botn­inn hvolft rétt­látt, eins og það á að vera eða eins og það hlýtur að vera, það er ekki bara frið­andi og sefandi hugmynd, heppi­leg til persónu­legs flótta hvers og eins frá nokk­urri ábyrgð á að deila heimi með öðrum, heldur, í krafti útbreiðslu sinnar, sund­urlið­andi afl sem rímar full­kom­lega við sund­urlið­un­ar­þarfir og sund­urlið­un­ar­kröfur síðkapítalismans.

Hugmyndin um rétt – grund­vall­ar­hug­mynd nútím­ans í póli­tískum skiln­ingi – er alveg ósam­ræm­an­leg við hugmynd­ina um verð­skuldun. Enginn á rétt vegna þess að hann eigi hann skilið, réttur er ekki áunn­inn, heldur yfir­lýstur og viður­kenndur óháð öllum öðrum eigin­leikum þeirra sem njóta hans.

Til dæmis mætti nefna 25. grein Mann­rétt­inda­yf­ir­lýs­ingar Samein­uðu þjóð­anna: „Allir eiga rétt á lífs­kjörum sem nauð­syn­leg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjöl­skyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, lækn­is­hjálp og nauð­syn­leg félags­leg þjón­usta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnu­leysis, veik­inda, fötl­unar, fyrir­vinnum­issis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.“ Samkvæmt skil­grein­ingu er þetta réttur þinn, án þess að þú hafir gert nokkuð til að verð­skulda hann – þú átt rétt á góðu heil­brigðis­kerfi og húsnæði, alveg óháð því hvort þú mætir í rækt­ina eða reykir, borðar vegan eða sviða­sultu, hugleiðir eða röflar á samfé­lags­miðlum, býður af þér góðan þokka eða ert almennt álit­inn óþol­andi. Þess vegna er hugmyndin um mann­rétt­indi enn róttæk hugmynd, því andstæða hugmyndin um verð­skuldun stingur upp koll­inum, aftur og aftur, í nýjum búningum, til að berja hana niður.

Og það var þaðan sem hugur minn hvarfl­aði að þessum ágæta pistli sem ég rakst á. Það minnsta sem ég get gert til að sporna gegn hinni viðvar­andi sund­urliðun er að leita hann aftur uppi og gá hvað höfund­ur­inn heitir. Stefán Ingvar Vigfús­son heitir hann. Pist­ill­inn birt­ist í Heim­ild­inni undir titl­inum „Ég þekki ekki nágranna mína“.

Að því sögðu gerð­ist það einhvern tíma á síðustu árum að ég komst af því æviskeiði þar sem flest fólk er eldra en ég sjálfur yfir á hitt skeiðið, þegar flest fólk er yngra en ég sjálfur. Mér væri áreið­an­lega fyrir bestu að fara að leggja á minnið hvað sumt af því heitir. Þekki ég sjálfan mig rétt mun það þó ganga tölu­vert hægar en sem nemur þess­ari linnu­lausu þróun, að fólki sem er yngra en ég heldur áfram að fjölga, hinum heldur áfram að fækka.


Sjötti októ­ber 2024. Þetta var fínn dagur. Fallegt haust.