Umhverfislega hlýt ég að hljóma siðblindur ef ég segi: þegar ég hef lokið við verk þætti mér gott að henda tölvunni minni eða koma henni fyrir í geymslu og byrja næsta verk á nýrri tölvu, ósnertri. Ég hef auðvitað ekki efni á öðru eins, og þó ég hefði efni á því veit ég ekki hvort mér þætti það verjandi … en það er þessi tilfinning að byrja með hreint borð, það er ekki sjálfgefið að finna hana við útatað borð, eins þó að maður stafli þar nýjum blaðabunka.
Maður þarf að finna leiðir til að lifa með sérviskunni sinni. Og fúnkera þó að hún fái ekki allar sínar ítrustu óskir uppfylltar. Hugurinn er takmarkalaus, segja þau, holdið ekki. Ég veit ekki með takmarkaleysið, en hann er heimtufrekur. Og veröldin takmörkuð auðlind.
——
Það er komið að því að huga að næsta pistli fyrir Lestina. Þegar ég tala um nýja tölvu milli verka meina ég ekki milli pistla, heldur þessi sem leggja undir sig allt plássið á meðan á þeim stendur.
Ég þarf hins vegar að taka einhverja ákvörðun um þessa pistla. Sá þriðji í röðinni var rýr. Ástæðan getur verið af tvennum toga: hugleysi eða hugstol. Hugleysi, í hefðbundinni merkingu, að vera ragur. Það er vel inni í myndinni. Á því má sigrast. Hugstol er verra, þegar maður er ekki ragur við að segja eitthvað heldur hefur ekkert að segja. Í þessu tilfelli um tiltekið viðfangsefni, sem ég valdi mér þó sjálfur.
Hvað í ósköpunum lá mér svona á að segja um upplýsingaóreiðu?
Mér finnst hugtakið forvitnilegt, fyndið og hafa næstum endalaust fasískt pótentíal. Fff. Að vilja berjast gegn, ekki bara ósannindum, heldur líka sannindum sem sett eru fram með skaðlegum ásetningi, hver sem tekur sér það hlutverk er kominn á ansi hálan ís. En það eru nokkurra ára gamlar fréttir, ég held að hugtakið kveiki ekki lengur í neinum, ekki heldur sjálfum mér.
Það sem þarf að tala um, hér og nú, er eitthvað annað.
Eða:
Það sem þarf að tala um hér og nú er einmitt þetta. Ef áhuginn á því hefur dofnað er það ekki vegna þess að það er ekki lengur áhugavert heldur vegna þess að það er svo alltumlykjandi að við tökum ekki lengur eftir því. Ekki bara meint upplýsingaóreiða heldur einmitt meintu átökin við hana. Samfélagsmiðlar segjast vera að berjast gegn upplýsingaóreiðu, fjölmiðlar segjast vera að gera það, stjórnvöld segjast gera það – allur almenningur ver frístundum sínum í að greiða úr upplýsingaóreiðu og nokkur hluti fólks vinnutímanum áreiðanlega líka.
Ég sé hvað setur. Hvort ég finn einhvern flöt á þessu, eitthvað sem mér finnst taka því að segja, næstu sólarhringa.
——
Selenskí er að koma. Hver sem tekur á móti honum, tekur í höndina á honum, á viðræður við hann, veitir honum loforð, brosir framan í myndavél með honum, veit annað hvort betur en ég hvað hann eða hún er að gera, eða er færari í að halda ró sinni andspænis eigin vanþekkingu og vanhæfni. Það þarf ekki að taka fram að innrás Rússa er glæpsamleg og Pútín óféti. Það þýðir ekki heldur sjálfkrafa að manni finnist yfirráð nokkurs ríkis yfir landsvæði þess virði að stefna hundruðum þúsunda ungs fólks í opinn dauða, limlesta enn fleiri, og hætta á enn víðtækari skelfingar. Mesta gæfa Íslands andspænis innrásum hefur hingað til verið sú að hafa engan her, geta ekki veitt viðspyrnu: það átti við þegar Jörgen Jörgensen stofnaði lýðveldið góða en skammvinna sumarið 1809 og það átti við þegar breski herinn kom hingað vorið 1940. Ætti það líka við ef innrásarliðið væri rússneskt? En kínverskt? Hefði það átt við ef Þjóðverjar hefðu verið fyrri til? Ég kann ekki að svara þannig spurningum, ég kann bara að lamast andspænis þeim, eins og Hamlet, þó án þess að vera svo vel máli farinn prins.
Maður má vera Hamlet á meðan maður er í fæðingarorlofi. En svo þarf manni líklega að byrja aftur að finnast eitthvað, af mikilli festu, eins þegar maður veit ekki. Í millitíðinni finnst mér bara undravert að fólk virðist almennt eiga auðvelt með að taka skýra og afdráttarlausa afstöðu með einum, á móti öðrum, í stríði. Að þegar A drepi B sé það réttlátt, og sjálfsögð kurteisi að leiða ekki hugann of mikið að því, en þegar B drepi A sé það ranglátt og engin refsing nógu þung. Vegna ágreinings um, þegar allt kemur til alls, fasteignir.
——
Sem minnir mig á: að kjósa. Ég myndi kjósa hvaða framboð sem legði til að Ísland fæli Sameinuðu þjóðunum að setja lýðveldinu nýja stjórnarskrá. Sá hnútur verður að minnsta kosti áreiðanlega ekki leystur innanlands úr þessu.