Pistill númer tvö fór í loftið í dag – eru tveir pistlar röð? Ef tvennt getur talist röð, þá er þetta yfirstandandi pistlaröð … en ef þrennt þarf til að teljast röð, þá er þetta annar pistillinn í fyrirhugaðri pistlaröð. Í öllu falli hefur Lestin nú flutt tvo pistla frá mér um upplýsingaóreiðu, og þess er vænst að þeim fjölgi, þeir raðist upp, annan hvern miðvikudag, þar til komin er einhver reiða á allar þessar upplýsingar.
Pistilinn í dag hóf ég ekki á öðrum áratug 19. aldar, eins og ég gerði í þeim fyrsta, heldur byrjaði ég hér heima og sagði frá klakaboxum sem við keyptum á dögunum, hvernig óskhyggja mín um notagildi boxanna var næstum búin að plasteitra heimagerða barnamaukið okkar … ég held að það sé betur til þess fallið að ná athygli hlustenda en 19. öldin, sem er óhjákvæmilega erfiðara að sjá fyrir sér. Klakabox er nokkuð skýr mynd, ein og sér, sýslumaður á 19. öld er það ekki. Hverju klæddist hann? Þetta var myndlaust land um þær mundir, eða þar um bil, við þurfum að fara ýmsar krókaleiðir til að gera okkur mynd af því hvernig sýslumaður leit út á ferðum sínum.
Nema hvað – nú þegar ég ætlaði að hlusta á pistilinn, til að gá hvernig hann hefði skilað sér, ekki síst hvort hljóðið hefði ekki áreiðanlega verið skárra í þetta sinn en síðast – þá reynist hann ekki aðgengilegur í spilara RÚV. Allur heili Lestarþátturinn er þar reyndar ekki. Aðrir þættir dagsins, Víðsjá, Spegillinn, fréttatímarnir, allt heila klabbið er þarna, en Lestin ekki.
Að því er ég best man hefur það hingað til undantekningalaust reynst vera einhvers konar tæknivilla þegar svona gerist, þegar efni sem ég hef látið frá mér hverfur af netinu, og óðar en ég hef hlaupið upp til handa og fóta yfir málinu birtist efnið aftur, villan leiðrétt, allt með felldu. Ég get látið þá tilhugsun kitla mig, mitt í yfirstandandi, marglaga heilaþoku, að meðal setninganna um klakaboxin hafi leynst ein eða tvær sem hafi strokið einhverjum svona vitlaust, menn hafi hringt símtöl – menn sem hringja símtöl hafi hringt sín símtöl og gert mönnum sem taka á móti símtölum ljóst að pistillinn um klakaboxin hafi verið óboðlegur – hann hafi jafnvel falið í sér upplýsingaóreiðu sem Ríkisútvarpið geti ekki veitt vettvang, hann verði að hverfa.
En nei, þessar sjö mínútur hafa nú varla verið svo hættulegar. Líklegra er að einhver hafi gleymt að ýta á takka áður en þau fóru heim úr vinnunni, og smelli á hann strax í fyrramálið.
Aðrar fréttir? Ég lá eftir mat og las nýlegt viðtal við Javier Cercas. Gott viðtal sem fékk mig til að langa að lesa það sem ég hef ekki lesið eftir hann, en eiginlega enn meira til að lesa aftur það sem ég hef þegar lesið. Viðtalið er á ensku, það var ein lína í því sem mig langaði að undirstrika, en ég var ekki með blýant innan seilingar … ég fann hana aftur: „I suspect that in every writer there is an initial uprooting, a falling off-balance, and for me, that feeling became permanent.“ Af ástæðum sem er ekki tilefni til að gera grein fyrir hér þótti mér sérstaklega vænt um þessa línu í dag.
Í veröldinni er í dag ein manneskja sem ég get kallað ritstjórann minn og við komumst að því nýverið að við erum nágrannar, hún býr ekki bara í sömu götu heldur í húsinu hér ská á móti. Nei, heimurinn er ekki svona lítill en þetta land er það. Þetta er rétt nógu mikil nálægð til að ég get komið upp um vandræðalega marga bresti, frá degi til dags, sem ég reyni annars að halda frá faglegum samskiptum. Ég kann mjög vel að meta ritstjórann minn, það er ekki þannig, og ef ég væri minna klaufskur í samskiptum væri eintóm ánægja að rekast á hana á förnum vegi. En ég er víst á meðal þeirra sem finnst stundum taugastrekkjandi að sjást yfirleitt. Að sjást, ég á við að vera sýnilegur, að hafa rúmtak og endurvarpa ljósi. Ef ég ímynda mér hina fullkomnu borg, hina algeru borg, þá væri það staður þar sem enginn veit hvar nokkur önnur manneskja býr, þar sem farið væri með slíkar upplýsingar sem strangasta trúnaðarmál, og opinberar stofnanir þyrftu dómsúrskurð til að fletta þeim upp. Í þessum heimi er ekki á allt kosið, ég sit uppi með sjálfan mig, annars vegar, ófullkomna borg hins vegar.
—
Morguninn eftir:
Búið að ýta á takkann, pistillinn kominn á sinn stað, mínútu 21.