Um daginn grobbaði ég aðeins hér um það að hafa verið fyrstur til að koma orðinu blogg í íslenskan prentmiðil, sumarið 2001. Það minnsta sem ég get gert er að athuga á timarit.is hvort þetta er rétt hjá mér, sem ég geri hér og nú: Jú, það reyndist rétt. „Himnaríki fáfengileikans – eða framtíð fjölmiðlunar?“ hét greinin, sem birtist 3. ágúst 2001. Ég mundi líka rétt hverjir viðmælendurnir voru – Salvör Gissurardóttir, Siggi pönk og svo parið ofursæta og þá nýgifta, Kristján og Stella … ég varð forvitinn um hvað hefði orðið um þau, enda deildi ég með þeim brúðkaupsdeginum, ruddist inn í hann fyrir hönd fjölmiðilsins, og var tekið af vinsemd, næstum eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Nú held ég áfram að rita þetta niður í hérumbil beinni útsendingu, ég gúgla hjónin og kemst að því að Kristján, sem þá var öreindafræðinemi, eins og hann lýsti því sjálfur, starfar nú við áhættustýringu hjá Íslandsbanka, en að Stellu kannast ég lítillega við – mjög lítillega og jafnvel það eru ýkjur – en hún var framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík þegar mér var boðið að taka þátt í henni, í fyrra, og varð beint í kjölfarið, ef ég skil rétt, umboðsmaður minn sem höfundar, þegar Forlagið breytti réttindaskrifstofu sinni í apparatið Reykjavik Literary Agency. Allt er þetta hulið nokkurri þoku, þetta með umboðsstörfin, og ég er ekki viss um að ég hafi hitt Stellu í því hlutverki, beinlínis. En ég er líka svo óminnugur á andlit að það hafði aldrei hvarflað að mér að þar færi sama manneskjan og ég heimsótti, svo gott sem boðflenna, á leynilegum brúðkaupsdegi fyrir tæpum aldarfjórðungi.
Ég er kominn svo langt frá því sem ég ætlaði að skrifa þegar ég hóf efnisgreinina hér að ofan að ég man ekki lengur hvað það var. Blogg, já, fyrsta bloggið – jú, að fyrsti bloggari landsins, áður en það orð barst til landsins, var þó hugsanlega Þorgeir Þorgeirson … hugsanlega. Vefurinn Leshús, samnefndur forlaginu sem hann stofnaði, var að minnsta kosti kominn í samband árið 2000, þegar Internet arkífið tók fyrsta afritið af honum. Þó er líklega réttara að tala um prótó-bloggara: á forsíðu hét Þorgeir því að uppfæra vefinn daglega, en það hefur hann gert án vefumsjónarkerfis og án þess að það hafi endilega þýtt nýjar dagsettar færslur í hvert sinn.
Og nú þykir mér þó þessi óvænta uppgötvun mín um samsemd Stellu og Stellu miklu forvitnilegri en gamlar fréttir af Þorgeiri. Þau Stella og Kristján sem ég heimsótti sumarið 2001, mér hefur alltaf verið svolítið hlýtt til þeirra, eða þessarar myndar sem ég fékk af þeim, það var bjart yfir þeim þennan dag, og yfir blogginu þeirra … sú Stella sem annast nú bókmenntaheiminn, hins vegar, ég hafði á tilfinningunni að hún hafi ekki ánægð með það þegar ég birtist á sviði Bókmenntahátíðar 2023 með grímu, einn þátttakenda að því er ég best veit. Eða ekki ánægð, ég á við að ég held að hún hafi ekki haft mikla þolinmæði fyrir því gimmikki, ekki frekar en aðrir stjórnendur á þeim tíma. Það gæti auðvitað verið eintómt frávarp, mín eigin taugaveiklun. Annað eins á ég til. En ef stjórnendum á öllum sviðum þótti um þær mundir brýnt að sem flestir tækju þátt í stemmaranum, að líta svo á að heimsfaraldrinum væri lokið, þá finnst mér rökrétt að ætla að stjórnendum viðburða hafi þótt það öðrum fremur. Að minnsta kosti bárust mér ekki efnisrík svör við fyrirspurnum um loftræstingu á hátíðinni. Að henni lokinni reyndi ég að nálgast myndir af mér á sviðinu en var sagt að það hefði gleymst að taka þær … allt varð þetta svolítið endasleppt, hálfpartinn eins og ég hefði ekki verið þarna.
En nú veit ég semsagt að Stella er Stella. Þetta land er of lítið til að hér eigi nokkurn tíma við að tala um hendingar, við lifum í kös og rekumst hvert á annað aftur og aftur. Hvað sem framkvæmdastjóranum þótti um tiktúrur mínar – eða hvað sem ég óttaðist að henni þætti – þá hverfur þessi mynd ekki úr kollinum á mér, einhvers staðar bakatil, mynd sem hún og maðurinn hennar gáfu mér óvart þegar ég var 23 ára og þau eitthvað álíka. Mynd af hamingju, meðal annars. Tveggja tíma gömul hjón með kampavínsflautur á Stúdentagörðum, einn ágætan vormorgun um miðjan dag í júlí.
Ég hef sinnt blaðamennsku svo slitrótt. Hver sem hefur stundað hana samfellt yfir heila ævi hlýtur að vera með sneisafullt miðtaugakerfi af svona tengingum. Og hætta að þykja neitt óvænt við þær.
Ég hélt annars uppteknum hætti í dag og skrópaði í útgáfupartí, ekki þó af sóttvarnarástæðum, beinlínis. En hlakka til að lesa bókina.