Óvæntar samsemdir

10.10.2024 ~ 4 mín

Um daginn grobb­aði ég aðeins hér um það að hafa verið fyrstur til að koma orðinu blogg í íslenskan prent­miðil, sumarið 2001. Það minnsta sem ég get gert er að athuga á timarit.is hvort þetta er rétt hjá mér, sem ég geri hér og nú: Jú, það reynd­ist rétt. „Himna­ríki fáfengi­leik­ans – eða fram­tíð fjöl­miðl­unar?“ hét greinin, sem birt­ist 3. ágúst 2001. Ég mundi líka rétt hverjir viðmæl­end­urnir voru – Salvör Giss­ur­ar­dóttir, Siggi pönk og svo parið ofur­sæta og þá nýgifta, Kristján og Stella … ég varð forvit­inn um hvað hefði orðið um þau, enda deildi ég með þeim brúð­kaups­deg­inum, rudd­ist inn í hann fyrir hönd fjöl­mið­ils­ins, og var tekið af vinsemd, næstum eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Nú held ég áfram að rita þetta niður í hérumbil beinni útsend­ingu, ég gúgla hjónin og kemst að því að Kristján, sem þá var öreinda­fræð­inemi, eins og hann lýsti því sjálfur, starfar nú við áhættu­stýr­ingu hjá Íslands­banka, en að Stellu kann­ast ég lítil­lega við – mjög lítil­lega og jafn­vel það eru ýkjur – en hún var fram­kvæmda­stjóri Bókmennta­há­tíðar í Reykja­vík þegar mér var boðið að taka þátt í henni, í fyrra, og varð beint í kjöl­farið, ef ég skil rétt, umboðs­maður minn sem höfundar, þegar Forlagið breytti rétt­inda­skrif­stofu sinni í apparatið Reykja­vik Literary Agency. Allt er þetta hulið nokk­urri þoku, þetta með umboðs­störfin, og ég er ekki viss um að ég hafi hitt Stellu í því hlut­verki, bein­línis. En ég er líka svo óminn­ugur á andlit að það hafði aldrei hvarflað að mér að þar færi sama mann­eskjan og ég heim­sótti, svo gott sem boðflenna, á leyni­legum brúð­kaups­degi fyrir tæpum aldarfjórðungi.

Ég er kominn svo langt frá því sem ég ætlaði að skrifa þegar ég hóf efnis­grein­ina hér að ofan að ég man ekki lengur hvað það var. Blogg, já, fyrsta bloggið – jú, að fyrsti blogg­ari lands­ins, áður en það orð barst til lands­ins, var þó hugs­an­lega Þorgeir Þorgeir­son … hugs­an­lega. Vefur­inn Leshús, samnefndur forlaginu sem hann stofn­aði, var að minnsta kosti kominn í samband árið 2000, þegar Inter­net arkífið tók fyrsta afritið af honum. Þó er líklega rétt­ara að tala um prótó-blogg­ara: á forsíðu hét Þorgeir því að uppfæra vefinn daglega, en það hefur hann gert án vefum­sjón­ar­kerfis og án þess að það hafi endi­lega þýtt nýjar dagsettar færslur í hvert sinn.

Og nú þykir mér þó þessi óvænta uppgötvun mín um samsemd Stellu og Stellu miklu forvitni­legri en gamlar fréttir af Þorgeiri. Þau Stella og Kristján sem ég heim­sótti sumarið 2001, mér hefur alltaf verið svolítið hlýtt til þeirra, eða þess­arar myndar sem ég fékk af þeim, það var bjart yfir þeim þennan dag, og yfir blogg­inu þeirra … sú Stella sem annast nú bókmennta­heim­inn, hins vegar, ég hafði á tilfinn­ing­unni að hún hafi ekki ánægð með það þegar ég birt­ist á sviði Bókmennta­há­tíðar 2023 með grímu, einn þátt­tak­enda að því er ég best veit. Eða ekki ánægð, ég á við að ég held að hún hafi ekki haft mikla þolin­mæði fyrir því gimmikki, ekki frekar en aðrir stjórn­endur á þeim tíma. Það gæti auðvitað verið eintómt frávarp, mín eigin tauga­veiklun. Annað eins á ég til. En ef stjórn­endum á öllum sviðum þótti um þær mundir brýnt að sem flestir tækju þátt í stemm­ar­anum, að líta svo á að heims­far­aldr­inum væri lokið, þá finnst mér rökrétt að ætla að stjórn­endum viðburða hafi þótt það öðrum fremur. Að minnsta kosti bárust mér ekki efnis­rík svör við fyrir­spurnum um loftræst­ingu á hátíð­inni. Að henni lokinni reyndi ég að nálg­ast myndir af mér á svið­inu en var sagt að það hefði gleymst að taka þær … allt varð þetta svolítið enda­sleppt, hálfpart­inn eins og ég hefði ekki verið þarna.

En nú veit ég semsagt að Stella er Stella. Þetta land er of lítið til að hér eigi nokk­urn tíma við að tala um hend­ingar, við lifum í kös og rekumst hvert á annað aftur og aftur. Hvað sem fram­kvæmda­stjór­anum þótti um tikt­úrur mínar – eða hvað sem ég óttað­ist að henni þætti – þá hverfur þessi mynd ekki úr koll­inum á mér, einhvers staðar baka­til, mynd sem hún og maður­inn hennar gáfu mér óvart þegar ég var 23 ára og þau eitt­hvað álíka. Mynd af hamingju, meðal annars. Tveggja tíma gömul hjón með kampa­víns­flautur á Stúd­enta­görðum, einn ágætan vormorgun um miðjan dag í júlí.

Ég hef sinnt blaða­mennsku svo slitr­ótt. Hver sem hefur stundað hana samfellt yfir heila ævi hlýtur að vera með sneisa­fullt miðtauga­kerfi af svona teng­ingum. Og hætta að þykja neitt óvænt við þær. 

Ég hélt annars uppteknum hætti í dag og skróp­aði í útgáfupartí, ekki þó af sótt­varn­ar­ástæðum, bein­línis. En hlakka til að lesa bókina.