Ókei. Ég pistlaði. Það pistlaðist. Pistillinn útvarpaðist. Fjórði pistill minn um upplýsingaóreiðu var fluttur í Lestinni á Rás 1 í dag, við upphaf þáttar.
Hann varð óvenju langur, 1300 orð, 9 mínútur í lestri – ég óttast enn að ég lesi full hratt, finnst alltaf svolítið vandratað um taktinn, að lesa nógu hratt til að engum fari að leiðast, nógu hægt til að, ekki bara orðin skiljist heldur gefist stund, þegar við á, við hlustun, til að láta setningarnar lenda, ná þeim heim og saman. Oft enda ég á að leggja meiri áherslu á það fyrra, óttast að fólk hætti að hlusta ef bið verður eftir næsta orði, taugaveiklun sem sjálfsagt er til eitthvert gott orð yfir. En kannski ekki á íslensku. Þagnafælni gæti dugað.
Pistli pistl. Hann er svolítið samsettur, ég var helst tvístígandi yfir því við fráganginn, hvort fyrstu efnisgrein væri ofaukið, um Fredric Jameson, eða þeim síðustu, um heimsókn Selenskís, sem þó er að einhverju leyti kjarni málsins … við lesturinn þótti mér þetta allt tolla ágætlega saman, en þegar ég hlustaði á þáttinn runnu á mig tvær grímur, ég óttaðist að ég myndi missa áheyrendur, ekki í þögninni á milli orða, sem er næstum engin hvort eð er, heldur í bilinu á milli efnisþátta, að stökkin séu of snubbótt, tengingarnar skapi ekki nógu skýra samfellu … fólk detti þar á milli, hreint eins og milli skips og bryggju, ég skilji það eftir svamlandi. En það þýðir ekki lengur að fást við það, þessi er farinn frá mér.
Í stystu máli segir þar að mér finnist heldur heimskuleg sú ofureinfalda miðlun á stríðinu í Úkraínu sem birtist í íslenskum fjölmiðlum, og helst til þess fallin að þvælast ekki fyrir þegar stjórnvöld ákveða að verja milljörðum, jafnvel tugmilljörðum, úr sameiginlegum sjóðum hér til manndrápa þar.
——
Hvað er annað að frétta? Bókin eftir Fredric Jameson, sem ég vísa til í pistlinum, mér finnst hún nokkuð góð, enn sem komið er. Ég er rétt um hálfnaður – ég hef alltof lítið lesið eftir Jameson, satt að segja, en hann er á meðal þeirra höfunda sem bergmála út um allt innan marxískra fræða – eða hvað sem ætti að kalla sviðið, nákvæmlega, þá krítísku hugsun um vald sem á að einhverju leyti upphafsreit hjá Marx, að einhverju leyti hjá Freud, að einhverju leyti í París um miðja síðustu öld, og framleiddi ný hugtök af miklum þrótti, gerir það jafnvel enn – saga þessa sviðs er viðfangsefni bókarinnar sem heitir Years of Theory. Hún er uppritun á erindum Jamesons á málstofu um efnið, frá tímabilinu sem flestir kalla „í faraldrinum“ – fyrir vikið er textinn talmálslegur, lifandi, opinn, aðgengilegur á þann hátt – án þess að veigra sér hjá því að miðla lykilatriðum kenninganna. Það sem mér sýnist Jameson gera þarna, enn sem komið er, er að færa þær í búning frásagnar, frásagnarvæða ákveðið mengi hugmynda og hugsunar, þar sem eitt tekur við af öðru, ekki bara í röklegri framvindu heldur í tíma, með persónum, aðalhlutverkum og aukahlutverkum, stöðum og sviðsetningum – svolítið eins og gamaldags sagnamennska, munnleg frásagnarhefð, frekar en skáldsaga – það sem helst er unnið með því er kannski, ef það heppnast, að hafa þá pakkað tímabilinu inn, svolítið snyrtilega, og geta sagt: Þannig var það. Og hvað nú?
Ég les bókina hægt, ég geri flesta hluti hægt um þessar mundir – dagarnir líða með ógnarhraða, stútfullir af heimilislífi, framvinda á öllum öðrum sviðum er eitthvað sem dreypir, í besta falli, á meðan – ég les eins og lekur krani.
——
Var að spá í að bæta þriðja lið við þessa færslu, finnst formið kalla á það, en hef engu við að bæta. Þriðji liðurinn, þessi hér, er þá hérna eingöngu formsins vegna, aðeins til að fylla upp í einhverja hálfmeðvitaða talningu, lenda færslunni – mér finnst hún vilja innskotssetningu, ef það er rétta orðið, aðgreinda svona, með þankastriki – en geta síðan haldið áfram, eiga ekki eftir nema örfá orð þar til hún virðist fullskrifuð. Eitt eða tvö í viðbót, kannski. Tíu. Ég veit ekki, ég næ ekki að telja á meðan ég skrifa. En þetta er komið, þetta er nóg.