Pistl um vopn og lýðveldi liðhlaupanna

30.10.2024 ~ 3 mín

Ókei. Ég pistl­aði. Það pistl­að­ist. Pist­ill­inn útvarp­að­ist. Fjórði pist­ill minn um upplýs­inga­óreiðu var fluttur í Lest­inni á Rás 1 í dag, við upphaf þáttar.

Hann varð óvenju langur, 1300 orð, 9 mínútur í lestri – ég óttast enn að ég lesi full hratt, finnst alltaf svolítið vandratað um takt­inn, að lesa nógu hratt til að engum fari að leið­ast, nógu hægt til að, ekki bara orðin skilj­ist heldur gefist stund, þegar við á, við hlustun, til að láta setn­ing­arnar lenda, ná þeim heim og saman. Oft enda ég á að leggja meiri áherslu á það fyrra, óttast að fólk hætti að hlusta ef bið verður eftir næsta orði, tauga­veiklun sem sjálfsagt er til eitt­hvert gott orð yfir. En kannski ekki á íslensku. Þagna­fælni gæti dugað.

Pistli pistl. Hann er svolítið samsettur, ég var helst tvístíg­andi yfir því við frágang­inn, hvort fyrstu efnis­grein væri ofaukið, um Fredric Jame­son, eða þeim síðustu, um heim­sókn Selenskís, sem þó er að einhverju leyti kjarni máls­ins … við lest­ur­inn þótti mér þetta allt tolla ágæt­lega saman, en þegar ég hlustaði á þátt­inn runnu á mig tvær grímur, ég óttað­ist að ég myndi missa áheyr­endur, ekki í þögn­inni á milli orða, sem er næstum engin hvort eð er, heldur í bilinu á milli efnis­þátta, að stökkin séu of snubbótt, teng­ing­arnar skapi ekki nógu skýra samfellu … fólk detti þar á milli, hreint eins og milli skips og bryggju, ég skilji það eftir svamlandi. En það þýðir ekki lengur að fást við það, þessi er farinn frá mér.

Í stystu máli segir þar að mér finn­ist heldur heimsku­leg sú ofur­ein­falda miðlun á stríð­inu í Úkraínu sem birt­ist í íslenskum fjöl­miðlum, og helst til þess fallin að þvæl­ast ekki fyrir þegar stjórn­völd ákveða að verja millj­örðum, jafn­vel tugmillj­örðum, úr sameig­in­legum sjóðum hér til mann­drápa þar.

——

Hvað er annað að frétta? Bókin eftir Fredric Jame­son, sem ég vísa til í pistl­inum, mér finnst hún nokkuð góð, enn sem komið er. Ég er rétt um hálfn­aður – ég hef alltof lítið lesið eftir Jame­son, satt að segja, en hann er á meðal þeirra höfunda sem berg­mála út um allt innan marxí­skra fræða – eða hvað sem ætti að kalla sviðið, nákvæm­lega, þá krítísku hugsun um vald sem á að einhverju leyti upphafs­reit hjá Marx, að einhverju leyti hjá Freud, að einhverju leyti í París um miðja síðustu öld, og fram­leiddi ný hugtök af miklum þrótti, gerir það jafn­vel enn – saga þessa sviðs er viðfangs­efni bókar­innar sem heitir Years of Theory. Hún er uppritun á erindum Jame­sons á málstofu um efnið, frá tíma­bil­inu sem flestir kalla „í faraldr­inum“ – fyrir vikið er text­inn talmáls­legur, lifandi, opinn, aðgengi­legur á þann hátt – án þess að veigra sér hjá því að miðla lykil­at­riðum kenn­ing­anna. Það sem mér sýnist Jame­son gera þarna, enn sem komið er, er að færa þær í búning frásagnar, frásagn­ar­væða ákveðið mengi hugmynda og hugs­unar, þar sem eitt tekur við af öðru, ekki bara í röklegri fram­vindu heldur í tíma, með persónum, aðal­hlut­verkum og auka­hlut­verkum, stöðum og svið­setn­ingum – svolítið eins og gamaldags sagna­mennska, munn­leg frásagn­ar­hefð, frekar en skáld­saga – það sem helst er unnið með því er kannski, ef það heppn­ast, að hafa þá pakkað tíma­bil­inu inn, svolítið snyrti­lega, og geta sagt: Þannig var það. Og hvað nú?

Ég les bókina hægt, ég geri flesta hluti hægt um þessar mundir – dagarnir líða með ógnar­hraða, stút­fullir af heim­il­is­lífi, fram­vinda á öllum öðrum sviðum er eitt­hvað sem dreypir, í besta falli, á meðan – ég les eins og lekur krani.

——

Var að spá í að bæta þriðja lið við þessa færslu, finnst formið kalla á það, en hef engu við að bæta. Þriðji liður­inn, þessi hér, er þá hérna eingöngu forms­ins vegna, aðeins til að fylla upp í einhverja hálf­með­vit­aða taln­ingu, lenda færsl­unni – mér finnst hún vilja innskots­setn­ingu, ef það er rétta orðið, aðgreinda svona, með þankastriki – en geta síðan haldið áfram, eiga ekki eftir nema örfá orð þar til hún virð­ist fullskrifuð. Eitt eða tvö í viðbót, kannski. Tíu. Ég veit ekki, ég næ ekki að telja á meðan ég skrifa. En þetta er komið, þetta er nóg.