Andúð í garð útlendinga eða valinna hópa útlendinga er oft sögð stafa af „ótta við hið óþekkta“, og þá heyrist því bætt við að allir óttist hið óþekkta, jafnvel að auðvitað óttist allir hið óþekkta. Þetta er kannski ekki alltaf orðað nákvæmlega eins og því ekki rétt að tala um orðalepp en kannski hugarlepp, einhvers konar meme, eitthvað sem lítur út eins og pæling en er það ekki endilega. Setningin er sjálfbær, hún þarfnast ekki staðfestingar þarna úti, fer um á eigin spýtur. Óttast allir hið ókunnuga? Er það sjálfsagt?
Mér verður stundum hugsað til manns sem ég kynntist lítillega eftir að honum hafði verið synjað um vernd á Íslandi. Hann var Kúrdi, viðkunnanlegur maður, sem bauð mér meðal annars í mat þegar við vorum staddir í öðru landi, í sömu borg. Viðkunnanlegur en framandi mér, að sumu leyti. Þegar við stóðum á þröskuldi þess að kynnast að einhverju ráði þótti mér hann hér um bil jafn framandi og mér þætti kannski einhver sem starfar við fjármálaráðgjöf. Það var ekki eins og að kynnast geimveru, meira eins og að spjalla við hóflega fjarskyldan frænda á ættarmóti sem lifir ekki í alveg sama heimi og maður sjálfur. Segir kannski eitthvað í ætt við að allir ungir menn ættu að taka meiraprófið. Og þú ert rétt að ljúka gráðu í hugvísindum og veist ekki alveg hverju þú ættir að svara, það er ekki að frændi hafi endilega rangt fyrir sér, þú verður bara stúmm í svolitla stund og þarft þá að ákveða hvort þú nennir að yfirstíga það eða nennir því ekki. Og ég, í þessu tilfelli, mér þótti ég hafa svo margt á minni könnu, í svo mörgu að snúast í hausnum á mér, að ég bara nennti ekki að kynnast þessum mæta manni frá Kúrdistan. Það hefði áreiðanlega verið áhugavert, ég veit ekki til annars en að hann hafi verið fínn gaur, ég hefði líklega lært eitthvað á því, ekki síður en á því að kynnast þessum ímyndaða frænda mínum, sem ég sé fyrir mér að hefði kannski einhvern tíma reynt að veita mér hollráð um lífið. En ég nennti því ekki. Við og við skýtur því upp í kollinn á mér, í formi einhvers konar samviskubits, ef samviskubit snýst um að hafa misst af einhverju, eins og afturvirkt FOMO.
Er áreiðanlegt að því sé ekki eins farið með fleira fólk? Að frekar en að finna til ótta andspænis hinu ókunnuga finni það fyrir leti, tímaskorti, þreytu, nennuleysi? Er það ekki bæði fyrirgefanlegt og kannski mikilvægt að aðgreina frá öllum spurningum um réttindi? Maðurinn sem ég nennti ekki að kynnast, mikið ósköp vildi ég þó heldur að hann hefði fengið rétt sinn til verndar viðurkenndan hér á landinu. Kannski við hefðum nennt að kynnast einn daginn, kannski ekki – að vera hlynntur réttindum fólks, almennt, er ekki yfirlýsing um löngun eða getu til að eiga náinn vinskap við það allt. Ég er ekki einu sinni ættrækinn, hvað þá meira.
Ég veit að til er ótti við ókunnuga. Þó það nú væri. En ég er ekki tilbúinn að samþykkja, umhugsunarlaust, að hann hljóti að vera helsti drifkrafturinn á bakvið andúð á útlendingum. Að það blasi við. Ég er ekki viss um að leti sé það heldur, eða leti á þessum misskildu forsendum, að alþjóðleg vernd eða landvistarleyfi eða ríkisborgararéttur sé krafa um persónuleg kynni og vináttu, og við bara nennum ekki að kynnast öllu þessu fólki. En mér finnst það samt, svona út frá innsæinu einu (sem er alls ekki jafn marktækt og af er látið en þó kannski þess vert að hlusta á það) sennilegri ástæða en ótti. Erfið blanda af leti og meðvirkni, andstaða við að gefa eitthvað sem enginn bað þig um til að byrja með, styggð af toganum „Þú getur átt þinn tjakk sjálfur!“.
(Það mætti jafnvel velta fyrir sér hvort verið geti að túrismi ýti undir þetta frekar en hitt: þegar túrismi kemst yfir ákveðin mörk, verður ríkjandi í menningu, þá venjist krítískur massi fólks því að líta á það að kynnast aðkomufólki sem vinnu, fyrir hana sé greitt, og þar með hafi maður sannarlega ekki efni á að gera það ókeypis nema að vandlega yfirlögðu ráði. Að leggja það á sig án þess að þóknun komi fyrir mætti þá jafnvel, innan slíkrar menningar, jafna við undirboð sem grafi þar með undan iðnaðinum og launafólki hans.)
Ég á augljóslega ekki við að útlendingahatur sé ekki til. Þetta er hættuleg stund, sá óþverri fær nú byr undir báða vængi – ekkert bendir til annars en að nýkjörinn forseti Bandaríkjanna muni standa við fyrirheitin um viðamestu fjöldabrottvísanir í sögu landsins og svo framvegis. En stuðningurinn við áformin, undanlátssemi þeirra sem hata kannski engan en eru til í þessa vegferð, tilfinningin sem Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og fleiri, því miður, hafa nýverið viljað reiða sig á, ég er ekki viss um að ótti sé jafn gagnlegt hugtak til að skýra það allt og af er látið. Ég á enga tiltæka skýringu, hef ekki unnið greiningarvinnuna, en til bráðabirgða sýnist mér eitthvað í ætt við leti (eða níska eða tímaskortur, nennuleysi af hverju sem það stafar) sennilegri sökudólgur.