Að fólk óttist ekki hið óþekkta heldur nenni því ekki

08.11.2024 ~ 4 mín

Andúð í garð útlend­inga eða valinna hópa útlend­inga er oft sögð stafa af „ótta við hið óþekkta“, og þá heyr­ist því bætt við að allir óttist hið óþekkta, jafn­vel að auðvitað óttist allir hið óþekkta. Þetta er kannski ekki alltaf orðað nákvæm­lega eins og því ekki rétt að tala um orðalepp en kannski hugarlepp, einhvers konar meme, eitt­hvað sem lítur út eins og pæling en er það ekki endi­lega. Setn­ingin er sjálf­bær, hún þarfn­ast ekki stað­fest­ingar þarna úti, fer um á eigin spýtur. Óttast allir hið ókunn­uga? Er það sjálfsagt?

Mér verður stundum hugsað til manns sem ég kynnt­ist lítil­lega eftir að honum hafði verið synjað um vernd á Íslandi. Hann var Kúrdi, viðkunn­an­legur maður, sem bauð mér meðal annars í mat þegar við vorum staddir í öðru landi, í sömu borg. Viðkunn­an­legur en fram­andi mér, að sumu leyti. Þegar við stóðum á þrösk­uldi þess að kynn­ast að einhverju ráði þótti mér hann hér um bil jafn fram­andi og mér þætti kannski einhver sem starfar við fjár­mála­ráð­gjöf. Það var ekki eins og að kynn­ast geim­veru, meira eins og að spjalla við hóflega fjar­skyldan frænda á ættar­móti sem lifir ekki í alveg sama heimi og maður sjálfur. Segir kannski eitt­hvað í ætt við að allir ungir menn ættu að taka meira­prófið. Og þú ert rétt að ljúka gráðu í hugvís­indum og veist ekki alveg hverju þú ættir að svara, það er ekki að frændi hafi endi­lega rangt fyrir sér, þú verður bara stúmm í svolitla stund og þarft þá að ákveða hvort þú nennir að yfir­stíga það eða nennir því ekki. Og ég, í þessu tilfelli, mér þótti ég hafa svo margt á minni könnu, í svo mörgu að snúast í hausnum á mér, að ég bara nennti ekki að kynn­ast þessum mæta manni frá Kúrd­istan. Það hefði áreið­an­lega verið áhuga­vert, ég veit ekki til annars en að hann hafi verið fínn gaur, ég hefði líklega lært eitt­hvað á því, ekki síður en á því að kynn­ast þessum ímynd­aða frænda mínum, sem ég sé fyrir mér að hefði kannski einhvern tíma reynt að veita mér holl­ráð um lífið. En ég nennti því ekki. Við og við skýtur því upp í koll­inn á mér, í formi einhvers konar samvisku­bits, ef samvisku­bit snýst um að hafa misst af einhverju, eins og aftur­virkt FOMO.

Er áreið­an­legt að því sé ekki eins farið með fleira fólk? Að frekar en að finna til ótta andspænis hinu ókunn­uga finni það fyrir leti, tíma­skorti, þreytu, nennu­leysi? Er það ekki bæði fyrir­gef­an­legt og kannski mikil­vægt að aðgreina frá öllum spurn­ingum um rétt­indi? Maður­inn sem ég nennti ekki að kynn­ast, mikið ósköp vildi ég þó heldur að hann hefði fengið rétt sinn til verndar viður­kenndan hér á land­inu. Kannski við hefðum nennt að kynn­ast einn daginn, kannski ekki – að vera hlynntur rétt­indum fólks, almennt, er ekki yfir­lýs­ing um löngun eða getu til að eiga náinn vinskap við það allt. Ég er ekki einu sinni ættræk­inn, hvað þá meira.

Ég veit að til er ótti við ókunn­uga. Þó það nú væri. En ég er ekki tilbú­inn að samþykkja, umhugs­un­ar­laust, að hann hljóti að vera helsti drif­kraft­ur­inn á bakvið andúð á útlend­ingum. Að það blasi við. Ég er ekki viss um að leti sé það heldur, eða leti á þessum misskildu forsendum, að alþjóð­leg vernd eða land­vist­ar­leyfi eða ríkis­borg­ara­réttur sé krafa um persónu­leg kynni og vináttu, og við bara nennum ekki að kynn­ast öllu þessu fólki. En mér finnst það samt, svona út frá innsæ­inu einu (sem er alls ekki jafn mark­tækt og af er látið en þó kannski þess vert að hlusta á það) senni­legri ástæða en ótti. Erfið blanda af leti og meðvirkni, andstaða við að gefa eitt­hvað sem enginn bað þig um til að byrja með, styggð af toganum „Þú getur átt þinn tjakk sjálfur!“.

(Það mætti jafn­vel velta fyrir sér hvort verið geti að túrismi ýti undir þetta frekar en hitt: þegar túrismi kemst yfir ákveðin mörk, verður ríkj­andi í menn­ingu, þá venj­ist krítískur massi fólks því að líta á það að kynn­ast aðkomu­fólki sem vinnu, fyrir hana sé greitt, og þar með hafi maður sann­ar­lega ekki efni á að gera það ókeypis nema að vand­lega yfir­lögðu ráði. Að leggja það á sig án þess að þóknun komi fyrir mætti þá jafn­vel, innan slíkrar menn­ingar, jafna við undir­boð sem grafi þar með undan iðnað­inum og launa­fólki hans.)

Ég á augljós­lega ekki við að útlend­inga­hatur sé ekki til. Þetta er hættu­leg stund, sá óþverri fær nú byr undir báða vængi – ekkert bendir til annars en að nýkjör­inn forseti Banda­ríkj­anna muni standa við fyrir­heitin um viða­mestu fjölda­brott­vís­anir í sögu lands­ins og svo fram­vegis. En stuðn­ing­ur­inn við áformin, undan­láts­semi þeirra sem hata kannski engan en eru til í þessa vegferð, tilfinn­ingin sem Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, Miðflokk­ur­inn og fleiri, því miður, hafa nýverið viljað reiða sig á, ég er ekki viss um að ótti sé jafn gagn­legt hugtak til að skýra það allt og af er látið. Ég á enga tiltæka skýr­ingu, hef ekki unnið grein­ing­ar­vinn­una, en til bráða­birgða sýnist mér eitt­hvað í ætt við leti (eða níska eða tíma­skortur, nennu­leysi af hverju sem það stafar) senni­legri sökudólgur.