Að Trump verði Banda­ríkj­unum það sem fall Berlín­ar­múrs­ins var Austur-Þýskalandi

09.11.2024 ~ 3 mín

Daginn fyrir forseta­kosn­ing­arnar í Banda­ríkj­unum tók Joe Rogan viðtal við Elon Musk, þar sem Musk sann­færði Rogan um að kjósa Trump. Viðtalið er tveir og hálfur tími að lengd, þeir byrja á að bonda hvor við annan og við áheyr­endur með tali um hvað tölvu­leikir séu mikil­vægir, enginn ætti að fá að vera skurð­læknir sem ekki spilar tölvu­leiki, og hvað kjöt er gott og mikil­vægt, og kjöt­fram­leiðsla hafi engin áhrif á hnatt­hlýnun, áður en þeir víkja að Trump Trump Trump. Það var í þessu viðtali sem Musk sagð­ist sann­færður um, eftir að líta á gögnin, að ef Trump ynni ekki kosn­ing­arnar yrðu þetta síðustu frjálsu kosn­ing­arnar í Banda­ríkj­unum. Hvaða gögn, hvernig þá? Jú, með því að veita áður „ólög­legum innflytj­endum“ land­vist­ar­leyfi fjölgi demó­kratar stöð­ugt í hópi eigin kjós­enda, einkum í sveiflu­ríkj­unum, í næstu kosn­ingum yrði þannig gefið að demó­kratar myndu vinna og alltaf þaðan í frá. Karl­menn verða að fara út og kjósa, sagði Musk, eins og líf þeirra sé í húfi, því það er raunin. Trump Trump Trump. Fyndn­asta augna­blikið í viðtal­inu var þegar þeir reyndu að fá vitvél Musks, Grog, til að gera grín að trans fólki – sama hvað þeir reyndu tók vélin ekki þátt í því heldur beindi háðinu aftur og aftur að þeim sem óttast trans fólk. „Það þarf að vinna betur í þessu,“ sagði Musk nokkrum sinnum áður en þeir gáfust upp.

En það var undir lok viðtals­ins sem Musk sagði loks hvað hann hefði í hyggju sem vænt­an­legur stjórn­andi vænt­an­legrar stofn­unar um skil­virkni innan stjórn­sýsl­unnar. Að því er fram kom hefur skil­virkni alls enga nýja merk­ingu í þessu samhengi heldur þá sömu og hún hefur haft undan­liðna áratugi, hvar sem nýfrjáls­hyggja ryður sér til rúms: Musk vill fækka opin­berum starfs­mönnum, fækka stofn­unum, fækka reglu­gerðum og draga úr eftir­liti með og hömlum á starf­semi fyrir­tækja. Það var í því samhengi sem Musk tók fram að starfs­fólkið sem muni missa vinn­una þurfi ekki að hafa áhyggjur af því, mark­miðið sé ekki að gera þeim lífið leitt heldur sé öllum fyrir bestu að þau finni sér önnur störf á vett­vangi, þar sem þau gera meira gagn. Ímynd­aðu þér, sagði Musk, ef við færum hina leið­ina, og fjölg­uðum opin­berum starfs­mönnum, fjölg­uðum regulators, en fækk­uðum þeim sem fram­leiða verð­mætin, það væri ekki gott? Nei, það væri ekki gott, samsinnti Rogan. Þetta verður, sagði Musk loks, bara eins og þegar Austur-Þýska­land rann saman við Vestur-Þýska­land. Í austr­inu hefðu allir starfað fyrir hið opin­bera og því auðvitað misst vinn­una við samrun­ann, en síðan fundið kröftum sínum nytsam­legri farveg, enda fram­leiðni marg­falt meiri í gamla Vestur-Þýskalandi en fyrir austan.

Nú eru það nýjar fréttir fyrir umheim­inn ef opin­berar stofn­anir í Banda­ríkj­unum eru svo umsvifa­miklir vinnu­veit­endur að nærtæk­asta hlið­stæðan séu sósíal­ísku ríkin frá síðustu öld. Að vísa þangað til að tefla enda­lokum Austur-Þýska­lands fram sem lið í útskýr­ingu á því að enginn þurfi að hafa áhyggjur af breyt­ing­unum framundan, það er næstum jafn lang­sótt. Atvinnu­leysi og vesæld í Austur-Þýskalandi, allt frá múrfall­inu 1989 til þessa dags, er ein helsta og þekkt­asta ástæða þess að öfga­hægri­flokkar hafa sótt í sig veðrið í Þýskalandi: á þeim svæðum sem áður tilheyrðu Austur-Þýskalandi nýtur AfD mests fylgis.

Hinn nýkjörni forseti missti það sjálfur út úr sér í ræðu á einum síðasta fram­boðs­fund­inum fyrir kosn­ing­arnar að hann ætlaði sér „að lækka skatt­ana ykkar, binda enda á verð­bólg­una, lækka launin ykkar“ – „We will cut your taxes, end inflation, slash your wages. I’m gonna, we’re gonna do things you’ve never seen before.“ Áheyr­endur fögn­uðu og fram­bjóð­and­inn sem nú verður forseti dró ekki í land, leið­rétti ekki línuna.

Ég er bara áhorf­andi að Banda­ríkj­unum, ég hef ekki meiri innsýn í banda­rískt samfé­lag en hver annar inter­net­not­andi og sjón­varps­áhorf­andi utan þeirra. En ég veit ekki hvort kjós­endur Trumps gera sér grein fyrir hvað þau kusu. Útlend­inga­and­úð­ina, kven­fyr­ir­litn­ing­una, það allt, jú, gruggið. En hvert efna­hags­stefnan mun leiða, hvert henni er ætlað að leiða, hvað hún mun þýða fyrir þau sjálf …

Ég vildi að ég gæti sagt, að pólskum sið, ekki minn sirkus, ekki mínir apar. En áhorf­andi er auðvitað ekki nákvæmt orð, ég er viðtak­andi Banda­ríkj­anna. Eins og við öll, íbúar leppríkjanna.