Daginn fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum tók Joe Rogan viðtal við Elon Musk, þar sem Musk sannfærði Rogan um að kjósa Trump. Viðtalið er tveir og hálfur tími að lengd, þeir byrja á að bonda hvor við annan og við áheyrendur með tali um hvað tölvuleikir séu mikilvægir, enginn ætti að fá að vera skurðlæknir sem ekki spilar tölvuleiki, og hvað kjöt er gott og mikilvægt, og kjötframleiðsla hafi engin áhrif á hnatthlýnun, áður en þeir víkja að Trump Trump Trump. Það var í þessu viðtali sem Musk sagðist sannfærður um, eftir að líta á gögnin, að ef Trump ynni ekki kosningarnar yrðu þetta síðustu frjálsu kosningarnar í Bandaríkjunum. Hvaða gögn, hvernig þá? Jú, með því að veita áður „ólöglegum innflytjendum“ landvistarleyfi fjölgi demókratar stöðugt í hópi eigin kjósenda, einkum í sveifluríkjunum, í næstu kosningum yrði þannig gefið að demókratar myndu vinna og alltaf þaðan í frá. Karlmenn verða að fara út og kjósa, sagði Musk, eins og líf þeirra sé í húfi, því það er raunin. Trump Trump Trump. Fyndnasta augnablikið í viðtalinu var þegar þeir reyndu að fá vitvél Musks, Grog, til að gera grín að trans fólki – sama hvað þeir reyndu tók vélin ekki þátt í því heldur beindi háðinu aftur og aftur að þeim sem óttast trans fólk. „Það þarf að vinna betur í þessu,“ sagði Musk nokkrum sinnum áður en þeir gáfust upp.
En það var undir lok viðtalsins sem Musk sagði loks hvað hann hefði í hyggju sem væntanlegur stjórnandi væntanlegrar stofnunar um skilvirkni innan stjórnsýslunnar. Að því er fram kom hefur skilvirkni alls enga nýja merkingu í þessu samhengi heldur þá sömu og hún hefur haft undanliðna áratugi, hvar sem nýfrjálshyggja ryður sér til rúms: Musk vill fækka opinberum starfsmönnum, fækka stofnunum, fækka reglugerðum og draga úr eftirliti með og hömlum á starfsemi fyrirtækja. Það var í því samhengi sem Musk tók fram að starfsfólkið sem muni missa vinnuna þurfi ekki að hafa áhyggjur af því, markmiðið sé ekki að gera þeim lífið leitt heldur sé öllum fyrir bestu að þau finni sér önnur störf á vettvangi, þar sem þau gera meira gagn. Ímyndaðu þér, sagði Musk, ef við færum hina leiðina, og fjölguðum opinberum starfsmönnum, fjölguðum regulators, en fækkuðum þeim sem framleiða verðmætin, það væri ekki gott? Nei, það væri ekki gott, samsinnti Rogan. Þetta verður, sagði Musk loks, bara eins og þegar Austur-Þýskaland rann saman við Vestur-Þýskaland. Í austrinu hefðu allir starfað fyrir hið opinbera og því auðvitað misst vinnuna við samrunann, en síðan fundið kröftum sínum nytsamlegri farveg, enda framleiðni margfalt meiri í gamla Vestur-Þýskalandi en fyrir austan.
Nú eru það nýjar fréttir fyrir umheiminn ef opinberar stofnanir í Bandaríkjunum eru svo umsvifamiklir vinnuveitendur að nærtækasta hliðstæðan séu sósíalísku ríkin frá síðustu öld. Að vísa þangað til að tefla endalokum Austur-Þýskalands fram sem lið í útskýringu á því að enginn þurfi að hafa áhyggjur af breytingunum framundan, það er næstum jafn langsótt. Atvinnuleysi og vesæld í Austur-Þýskalandi, allt frá múrfallinu 1989 til þessa dags, er ein helsta og þekktasta ástæða þess að öfgahægriflokkar hafa sótt í sig veðrið í Þýskalandi: á þeim svæðum sem áður tilheyrðu Austur-Þýskalandi nýtur AfD mests fylgis.
Hinn nýkjörni forseti missti það sjálfur út úr sér í ræðu á einum síðasta framboðsfundinum fyrir kosningarnar að hann ætlaði sér „að lækka skattana ykkar, binda enda á verðbólguna, lækka launin ykkar“ – „We will cut your taxes, end inflation, slash your wages. I’m gonna, we’re gonna do things you’ve never seen before.“ Áheyrendur fögnuðu og frambjóðandinn sem nú verður forseti dró ekki í land, leiðrétti ekki línuna.
Ég er bara áhorfandi að Bandaríkjunum, ég hef ekki meiri innsýn í bandarískt samfélag en hver annar internetnotandi og sjónvarpsáhorfandi utan þeirra. En ég veit ekki hvort kjósendur Trumps gera sér grein fyrir hvað þau kusu. Útlendingaandúðina, kvenfyrirlitninguna, það allt, jú, gruggið. En hvert efnahagsstefnan mun leiða, hvert henni er ætlað að leiða, hvað hún mun þýða fyrir þau sjálf …
Ég vildi að ég gæti sagt, að pólskum sið, ekki minn sirkus, ekki mínir apar. En áhorfandi er auðvitað ekki nákvæmt orð, ég er viðtakandi Bandaríkjanna. Eins og við öll, íbúar leppríkjanna.