Góðir fríhálsar

21.11.2024 ~ 2 mín

Ég heyrði því einhvern tíma fleygt að orðið frjáls væri upprunnið í samsetn­ing­unni frí-háls, og vísaði þá til þeirra sem losnað höfðu úr þræl­dómi og losnað um leið við hálsjárnið sem áður merkti stöðu þeirra. Járn um háls­inn er auðvitað ekki bara tákn heldur líka nytja­hlutur, til þess gerður að gera mann­eskj­una að nytja­hlut, eða ég ímynda mér að þannig hafi járnin verið gerð, að í þau mætti krækja, festa viðkom­andi við hvað sem hent­aði, eftir kringumstæðum.

En ef orðstofn­inn frí merkti þegar eitt­hvað í ætt við frjáls er ekki augljóst hvers vegna þörf hefði verið á nýja orðinu, að abstrakt­era frá fríhálsumfrjálsum og frelsi. Við smá gúglun kemur í ljós að svo einfalt var það heldur ekki. Frija­halsaz er frum­germanska rótin – frá því fyrir tíma ritmáls, líklega, og er þannig leidd að líkum með einhvers konar málrænni forn­leifa­fræði. Halsaz merkti háls en frija eða frijaz er sagt runnið af frum-indó-evrópska stofn­inum priHos – aftur, rót án ritmáls eða slíkra beinna heim­ilda, leidd af líkum. Og þetta priHos er sagt að hafi þýtt elskuð eða elsk­aður. Þá er aftur leitt að líkum, í ljósi þess hvernig merk­ing þess þróað­ist, að orðið hafi verið notað yfir þá sem tilheyrðu ættbálki eða klani mæland­ans, til aðgrein­ingar frá því utan­að­kom­andi fólki sem þótti tiltækt í þrældóm.

Þetta er svo ófræði­legt hjá mér að það er varla boðlegt, enda er ég enginn málvís­inda­maður. Eftir stendur að uppruni orðs­ins frelsi hafði eitt­hvað að gera með ást eða vænt­umþykju – en það væri fölsun að gerast væminn í því samhengi, forn­öldin var hvorki marxísk né disneyísk, þessi ást hafði líka eitt­hvað að gera með aðgrein­ing­una inni/úti, við/hinir. Uppruni frels­is­ins má þá segja að hafi aldrei legið þarna úti, í ástandi villtrar nátt­úru, heldur sé hugtakið frá upphafi rótfast í því að vera inni, að vera með, að tilheyra.