Ég heyrði því einhvern tíma fleygt að orðið frjáls væri upprunnið í samsetningunni frí-háls, og vísaði þá til þeirra sem losnað höfðu úr þrældómi og losnað um leið við hálsjárnið sem áður merkti stöðu þeirra. Járn um hálsinn er auðvitað ekki bara tákn heldur líka nytjahlutur, til þess gerður að gera manneskjuna að nytjahlut, eða ég ímynda mér að þannig hafi járnin verið gerð, að í þau mætti krækja, festa viðkomandi við hvað sem hentaði, eftir kringumstæðum.
En ef orðstofninn frí merkti þegar eitthvað í ætt við frjáls er ekki augljóst hvers vegna þörf hefði verið á nýja orðinu, að abstraktera frá fríhálsum að frjálsum og frelsi. Við smá gúglun kemur í ljós að svo einfalt var það heldur ekki. Frijahalsaz er frumgermanska rótin – frá því fyrir tíma ritmáls, líklega, og er þannig leidd að líkum með einhvers konar málrænni fornleifafræði. Halsaz merkti háls en frija eða frijaz er sagt runnið af frum-indó-evrópska stofninum priHos – aftur, rót án ritmáls eða slíkra beinna heimilda, leidd af líkum. Og þetta priHos er sagt að hafi þýtt elskuð eða elskaður. Þá er aftur leitt að líkum, í ljósi þess hvernig merking þess þróaðist, að orðið hafi verið notað yfir þá sem tilheyrðu ættbálki eða klani mælandans, til aðgreiningar frá því utanaðkomandi fólki sem þótti tiltækt í þrældóm.
Þetta er svo ófræðilegt hjá mér að það er varla boðlegt, enda er ég enginn málvísindamaður. Eftir stendur að uppruni orðsins frelsi hafði eitthvað að gera með ást eða væntumþykju – en það væri fölsun að gerast væminn í því samhengi, fornöldin var hvorki marxísk né disneyísk, þessi ást hafði líka eitthvað að gera með aðgreininguna inni/úti, við/hinir. Uppruni frelsisins má þá segja að hafi aldrei legið þarna úti, í ástandi villtrar náttúru, heldur sé hugtakið frá upphafi rótfast í því að vera inni, að vera með, að tilheyra.