Framundan er sjötti pistill minn í pistlaröð fyrir Lestina, sem ég sé ekki fyrir endann á sjálfur, enda hófst ég ekki handa með neitt skipulag í huga, heldur svolítið eins og maður byrjar tiltekt þegar allt er í drasli, bara einhvers staðar, vitandi að ef maður heldur áfram verður stofan, eldhúsið, jafnvel íbúðin fyrr eða síðar boðleg. Sem er þó auðvitað alltaf bara tímabundið ástand, alveg ótrúlega tímabundið, satt að segja.
Pistlarnir fjalla um eða hverfast um hugtakið upplýsingaóreiða. Óreiða er lögmál heimsins, það kennir eðlisfræðin okkur. Hver sem þekkir betur til mun áreiðanlega vilja leiðrétta mig, ég veit að svonefnt annað lögmál varmafræðinnar er tilteknara en svo, en það býður þó upp á þessa alhæfingu: veröldin stefnir að aukinni óreiðu, öll frávik frá þeirri reglu eru staðbundin og tímabundin. Og öll frávik frá þeirri reglu eru einmitt það sem við köllum upplýsingar – það er ein af ástæðum þess hvað þetta íslenska orð upplýsingaóreiða er forvitnilegt.
Á ensku er sama margræðni ekki til staðar. Óreiða eðlisfræðinnar heitir þar entropy, en óreiðan sem stjórnmálafólk hefur áhyggjur af er þar nefnd disorder. Þó ber ekki mikið á því hugtaki heldur, information disorder virðist helst notað í skýrslum evrópskra stofnana, meðal höfunda sem ekki tala ensku að móðurmáli, í enskum og bandarískum fjölmiðlum er heldur rætt um misinformation eða disinformation. Þannig væri ekki alveg úr lausu lofti gripið að segja regnhlífarhugtakið upplýsingaóreiðu vera, að einhverju leyti, séríslenskt hugtak, að því leyti sem það hefur náð fótfestu í almennri umræðu.
Ef hugtakið væri lífvera, nógu flókin lífvera til að lifa tilfinningalífi, gæti það líklega þakkað þessa útbreiðslu sína því, meðal annars, hvað inntak þess er margrætt. Upplýsingaóreiða hljómar eins og að hlutir séu á röngum stað, allt sé úti um allt, haldi sig ekki þar sem það á að vera. Þannig væri auðvelt fyrir stjórnvöld sem vilja halda einhverju leyndu fyrir almenningi að tala um upplýsingaóreiðu ef leyndarmálið skyldi leka, um leið og hverjum sem er annt um að þess háttar upplýsingar leki væri í lófa lagið að tala einmitt um spunaherferðir stjórnvalda sem upplýsingaóreiðu á móti. Upplýsingaóreiða er þannig séð nothæft orð yfir hvaða ástand upplýsinga sem mælanda er ekki að skapi.
En gott og vel, nú er tímabært að líta aðeins yfir það sem ég hef tekið til skoðunar hingað til. Í fyrsta pistli sagði ég hálfa sögu af sýslumanni á Norðurlandi og baráttu hans við upplýsingaóreiðu árið 1813. Auðvitað notaði hann ekki það orð, en hann vildi kveða í kútinn vísur sem bárust um sveitina þar sem bólusetningar voru hafðar í flimtingum. Það tókst sýslumanninum líka, að því leyti sem vísurnar finnast hvergi í dag, aðeins gögn embættisins sjálfs um rannsóknina og málsmeðferðina. Þannig vildi ég tengja hugtakið upplýsingaóreiða við aldagamla viðleitni stjórnvalda við að hafa stjórn á umræðunni.
Í öðrum pistli tók ég til skoðunar opinbera skilgreiningu hugtaksins upplýsingaóreiða, hvernig það nær ekki aðeins til ósanninda heldur líka réttra upplýsinga sem miðlað er af slæmum ásetningi. Með því vildi ég sannarlega gefa til kynna að hugtakið sjálft gæti, í höndum stjórnvalda, reynst svolítið hættulegt og að minnsta kosti vandmeðfarið andspænis hugmyndum um skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi, fjölmiðlafrelsi, listrænt frelsi, akademískt frelsi, frelsið til að móttaka og miðla upplýsingum.
Í þriðja pistli tók ég dæmi um orðaleppa og hugtök sem að því er virðist ábyrgir og jafnvel frjálslyndir stjórnmálamenn styðjast við, en fela í sér rangfærslur. Eitt dæmi er orðið þegn, sem ráðherrar hafa notað í ræðum allt fram á síðustu ár, þó að engir þegnar fyrirfinnist í lýðveldum, aðeins ríkisborgarar, og það sé grundvallarmunur, sem varði einmitt hitt dæmið: hvað réttindi eru. Oft heyrist því haldið fram að réttindum fylgi skyldur, sem er rangt, samkvæmt skilgreiningu: leyfi geta verið háð ýmiss konar skilyrðum og skyldum en réttindi eru eitthvað sem þú nýtur skilyrðislaust. Hér vildi ég gefa til kynna að væri á ferðinni upplýsingaóreiða, í merkingunni óskýrleiki, sem fulltrúar stjórnvalda eiga það til að viðhalda og ríkisvaldið getur jafnvel notið góðs af í viðvarandi valdaátökum sínum við samfélagið.
Í fjórða pistli tók ég til athugunar þær upplýsingar sem mér hefur þótt vanta í umfjöllun um Úkraínustríðið, það er allt það sem gæti kastað rýrð á úkraínsk stjórnvöld, Úkraínuher eða þá nýju stefnu íslenskra stjórnvalda að fjármagna hernað og vopnakaup annars ríkis, fjármagna stríðsátök. Ég sagði að mér sýndist fjölmiðlar leggja undarlega mikið kapp á að halda frásögninni einfaldri og flytja hvorki fréttir né sýna myndir sem gætu gert fólki erfiðara fyrir að kyngja þeirri stefnu. Þar hangir á spýtunni að við, sem lifum á stríðstímum, lifum líka umlukin stríðsáróðri, sem takmarkar og skilyrðir sýn okkar og skilning.
Í síðasta pistli, þeim fimmta, velti ég loks vöngum yfir því hvernig við erum umlukin internetinu, svo á jörðu sem á himni, og hvernig við erum um leið umlukin Elon Musk, hægri hönd verðandi Bandaríkjaforseta, sem á meðal annars meirihluta þeirra gervihnatta sem nú eru á braut um jörðu. Ef ég hefði hugsað aðeins skýrar þegar ég setti þann pistil saman hefði ég getað orðað það sem svo að við værum föst í meltingarfarvegi Musks, jafnvel í grennd við ristil Musks, en líklega hefði það verið óþarfi. Þannig gerði ég því skóna að framundan væri tími þar sem hugsanlega yrði erfitt að stíga út fyrir hvaða upplýsingaramma eða upplýsingaóreiðu sem hið nýja hagsmunbandalag bandarískra tæknibræðra og ráðamanna mun vilja halda að okkur.
Er tiltektinni þá að verða lokið? Er farið að glitta svo vel í stofuna undir öllu draslinu að ég geti sagst vera með einhvers konar tilgátu í höndunum? Nei, enn ekki. Ég get þó tekið ofangreint saman í eina tímabundna ályktun, að minnsta kosti: mörkin á milli upplýsinga og upplýsingaóreiðu eru alls ekki skýr, og ekki óháð sjónarhóli. Við lifum í upplýsingaátökum. Um leið og okkur þyrstir í að finna einhvers konar haldreipi utan þeirra, sannleika sem stendur óháður þeim átökum, þá virðast allir þeir sem beita fyrir sig orðinu upplýsingaóreiða helst beita því einmitt sem vopni í þessum sömu átökum. Hvert snúum við okkur þá? Spurningin er: hverju er treystandi?