Þó ekki sé nema til að glöggva sjálfan mig áður en lengra er haldið

21.11.2024 ~ 5 mín

Framundan er sjötti pist­ill minn í pistlaröð fyrir Lest­ina, sem ég sé ekki fyrir endann á sjálfur, enda hófst ég ekki handa með neitt skipu­lag í huga, heldur svolítið eins og maður byrjar tiltekt þegar allt er í drasli, bara einhvers staðar, vitandi að ef maður heldur áfram verður stofan, eldhúsið, jafn­vel íbúðin fyrr eða síðar boðleg. Sem er þó auðvitað alltaf bara tíma­bundið ástand, alveg ótrú­lega tíma­bundið, satt að segja.

Pistl­arnir fjalla um eða hverf­ast um hugtakið upplýs­inga­óreiða. Óreiða er lögmál heims­ins, það kennir eðlis­fræðin okkur. Hver sem þekkir betur til mun áreið­an­lega vilja leið­rétta mig, ég veit að svonefnt annað lögmál varma­fræð­innar er tiltekn­ara en svo, en það býður þó upp á þessa alhæf­ingu: veröldin stefnir að aukinni óreiðu, öll frávik frá þeirri reglu eru stað­bundin og tíma­bundin. Og öll frávik frá þeirri reglu eru einmitt það sem við köllum upplýs­ingar – það er ein af ástæðum þess hvað þetta íslenska orð upplýs­inga­óreiða er forvitnilegt.

Á ensku er sama margræðni ekki til staðar. Óreiða eðlis­fræð­innar heitir þar entropy, en óreiðan sem stjórn­mála­fólk hefur áhyggjur af er þar nefnd disor­der. Þó ber ekki mikið á því hugtaki heldur, information disor­der virð­ist helst notað í skýrslum evrópskra stofn­ana, meðal höfunda sem ekki tala ensku að móður­máli, í enskum og banda­rískum fjöl­miðlum er heldur rætt um misin­formation eða disin­formation. Þannig væri ekki alveg úr lausu lofti gripið að segja regn­hlíf­ar­hug­takið upplýs­inga­óreiðu vera, að einhverju leyti, sérís­lenskt hugtak, að því leyti sem það hefur náð fótfestu í almennri umræðu.

Ef hugtakið væri lífvera, nógu flókin lífvera til að lifa tilfinn­inga­lífi, gæti það líklega þakkað þessa útbreiðslu sína því, meðal annars, hvað inntak þess er margrætt. Upplýs­inga­óreiða hljómar eins og að hlutir séu á röngum stað, allt sé úti um allt, haldi sig ekki þar sem það á að vera. Þannig væri auðvelt fyrir stjórn­völd sem vilja halda einhverju leyndu fyrir almenn­ingi að tala um upplýs­inga­óreiðu ef leynd­ar­málið skyldi leka, um leið og hverjum sem er annt um að þess háttar upplýs­ingar leki væri í lófa lagið að tala einmitt um spuna­her­ferðir stjórn­valda sem upplýs­inga­óreiðu á móti. Upplýs­inga­óreiða er þannig séð nothæft orð yfir hvaða ástand upplýs­inga sem mælanda er ekki að skapi.

En gott og vel, nú er tíma­bært að líta aðeins yfir það sem ég hef tekið til skoð­unar hingað til. Í fyrsta pistli sagði ég hálfa sögu af sýslu­manni á Norð­ur­landi og baráttu hans við upplýs­inga­óreiðu árið 1813. Auðvitað notaði hann ekki það orð, en hann vildi kveða í kútinn vísur sem bárust um sveit­ina þar sem bólu­setn­ingar voru hafðar í flimt­ingum. Það tókst sýslu­mann­inum líka, að því leyti sem vísurnar finn­ast hvergi í dag, aðeins gögn embætt­is­ins sjálfs um rann­sókn­ina og máls­með­ferð­ina. Þannig vildi ég tengja hugtakið upplýs­inga­óreiða við aldagamla viðleitni stjórn­valda við að hafa stjórn á umræðunni.

Í öðrum pistli tók ég til skoð­unar opin­bera skil­grein­ingu hugtaks­ins upplýs­inga­óreiða, hvernig það nær ekki aðeins til ósann­inda heldur líka réttra upplýs­inga sem miðlað er af slæmum ásetn­ingi. Með því vildi ég sann­ar­lega gefa til kynna að hugtakið sjálft gæti, í höndum stjórn­valda, reynst svolítið hættu­legt og að minnsta kosti vand­með­farið andspænis hugmyndum um skoð­ana­frelsi, tján­ing­ar­frelsi, fjöl­miðla­frelsi, list­rænt frelsi, akademískt frelsi, frelsið til að móttaka og miðla upplýsingum.

Í þriðja pistli tók ég dæmi um orðaleppa og hugtök sem að því er virð­ist ábyrgir og jafn­vel frjáls­lyndir stjórn­mála­menn styðj­ast við, en fela í sér rang­færslur. Eitt dæmi er orðið þegn, sem ráðherrar hafa notað í ræðum allt fram á síðustu ár, þó að engir þegnar fyrir­finn­ist í lýðveldum, aðeins ríkis­borg­arar, og það sé grund­vall­armunur, sem varði einmitt hitt dæmið: hvað rétt­indi eru. Oft heyr­ist því haldið fram að rétt­indum fylgi skyldur, sem er rangt, samkvæmt skil­grein­ingu: leyfi geta verið háð ýmiss konar skil­yrðum og skyldum en rétt­indi eru eitt­hvað sem þú nýtur skil­yrð­is­laust. Hér vildi ég gefa til kynna að væri á ferð­inni upplýs­inga­óreiða, í merk­ing­unni óskýr­leiki, sem full­trúar stjórn­valda eiga það til að viðhalda og ríkis­valdið getur jafn­vel notið góðs af í viðvar­andi valda­átökum sínum við samfélagið.

Í fjórða pistli tók ég til athug­unar þær upplýs­ingar sem mér hefur þótt vanta í umfjöllun um Úkraínu­stríðið, það er allt það sem gæti kastað rýrð á úkraínsk stjórn­völd, Úkraínu­her eða þá nýju stefnu íslenskra stjórn­valda að fjár­magna hernað og vopna­kaup annars ríkis, fjár­magna stríðs­átök. Ég sagði að mér sýnd­ist fjöl­miðlar leggja undar­lega mikið kapp á að halda frásögn­inni einfaldri og flytja hvorki fréttir né sýna myndir sem gætu gert fólki erfið­ara fyrir að kyngja þeirri stefnu. Þar hangir á spýt­unni að við, sem lifum á stríðs­tímum, lifum líka umlukin stríðs­áróðri, sem takmarkar og skil­yrðir sýn okkar og skilning.

Í síðasta pistli, þeim fimmta, velti ég loks vöngum yfir því hvernig við erum umlukin inter­net­inu, svo á jörðu sem á himni, og hvernig við erum um leið umlukin Elon Musk, hægri hönd verð­andi Banda­ríkja­for­seta, sem á meðal annars meiri­hluta þeirra gervi­hnatta sem nú eru á braut um jörðu. Ef ég hefði hugsað aðeins skýrar þegar ég setti þann pistil saman hefði ég getað orðað það sem svo að við værum föst í melt­ing­ar­far­vegi Musks, jafn­vel í grennd við ristil Musks, en líklega hefði það verið óþarfi. Þannig gerði ég því skóna að framundan væri tími þar sem hugs­an­lega yrði erfitt að stíga út fyrir hvaða upplýs­ing­aramma eða upplýs­inga­óreiðu sem hið nýja hags­mun­banda­lag banda­rískra tækni­bræðra og ráða­manna mun vilja halda að okkur.

Er tiltekt­inni þá að verða lokið? Er farið að glitta svo vel í stof­una undir öllu drasl­inu að ég geti sagst vera með einhvers konar tilgátu í hönd­unum? Nei, enn ekki. Ég get þó tekið ofan­greint saman í eina tíma­bundna ályktun, að minnsta kosti: mörkin á milli upplýs­inga og upplýs­inga­óreiðu eru alls ekki skýr, og ekki óháð sjón­ar­hóli. Við lifum í upplýs­inga­átökum. Um leið og okkur þyrstir í að finna einhvers konar hald­reipi utan þeirra, sann­leika sem stendur óháður þeim átökum, þá virð­ast allir þeir sem beita fyrir sig orðinu upplýs­inga­óreiða helst beita því einmitt sem vopni í þessum sömu átökum. Hvert snúum við okkur þá? Spurn­ingin er: hverju er treystandi?