Skildu Sovétríkin eitthvað gott eftir sig, eiga þau eitthvað sér til málsbóta spurði notandi á Reddit í dag. Eða spurði ekki beint, hann fullyrti að svo væri ekki, með heimskulegri mynd, en nú er langt síðan það lögmál var kynnt til sögunnar að besta leiðin til að nálgast upplýsingar á samfélagsmiðlum væri ekki að spyrja spurningar heldur fara með fleipur, leiðréttingar berist hraðar en svör, og í því ljósi má líta á þetta bull og annað sem tilbrigði við spurningu.
Fyrsta svarið var að benda á könnunarleiðangra Sovétríkjanna til Venusar. Venera hétu ómönnuðu geimförin fjögur sem lentu á yfirborði Venusar á árunum 1975 og 1982 og náðu að senda bæði ljósmyndir og hljóðupptökur þaðan til jarðar áður en þau bráðnuðu. Enn í dag hefur þetta afrek ekki verið leikið eftir. Líklega er það vegna þess hvernig komið er fyrir Sovétríkjunum í sögukennslu Vesturlanda að þessar ferðir virðast svolítið útundan þegar maður hugsar um geimkönnun, að minnsta kosti vissi ég ekki af þeim fyrr en á fullorðinsárum.
Næsta svar, hins vegar, var að Sovétríkin hefðu útrýmt bólusótt úr heiminum. Það hafði ég ekki hugmynd um. Og sagan er flóknari – en ekki ósönn. Bólusótt herjaði á mannkyn í þrjú þúsund ár, hið minnsta. Og hún var skæð, bólusótt dró 20–30 prósent þeirra sem veiktust af henni til dauða. Vísi að bólusetningu má fyrst finna í rituðum heimildum frá Kína á 16. öld, þar sem þurrkuðu efni úr sárum sjúklinga var blásið í nef ósýktra, sem veiktust í kjölfarið lítillega en voru eftir það ónæmir fyrir sjúkdómnum. Þaðan barst hugmyndin til Evrópu og breiddist út hundrað árum síðar. Sjálflærður skoti nokkur, Johnnie Notions, þróaði ferlið þannig að það yrði áhættuminna, aukaverkanir og andlát fátíðari. Edward Jenner hét loks enskur læknir sem uppgötvaði að notast mætti við efni úr sárum af völdum annars sjúkdóms, kúabólu, til að bólusetja mannfólk gegn bólusótt. Það var árið 1796 og upp úr aldamótunum breiddist þessi aðferð um heiminn, meðal annars hingað til Íslands. Um miðja 19. öld var bólusetning víða gerð að skyldu, meðal annars hér. Þannig var sjúkdómurinn ýmist upprættur eða honum haldið í skefjum víða um heim, á tilteknum svæðum og innan tiltekinna ríkja, en átti það þó til að taka sig upp aftur þegar smit bárust til þeirra annars staðar að.
Hér á landi varði bólusetningarskyldan til ársins 1978, þegar hún var felld niður með lögum – en um það leyti hafði líka bólusótt verið útrýmt í heiminum öllum. Og það er þar sem Sovétríkin komu við sögu.
Viktor Zhdanov hét sovéski veiru- og faraldsfræðingurinn sem lagði það til við Alþjóðaheilbrigðisþing Sameinuðu þjóðanna (sem mótar stefnu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar) að uppræta bólusótt alþjóðlega. Það var árið 1958, á hápunkti kalda stríðsins, en með heppilegum snúningi í einmitt þessu samhengi: eftir að hverfa frá störfum þingsins í mótmælaskyni, árið 1949, sneru Sovétríkin aftur undir nýrri forystu Nikita Khrústsjov þetta ár. Sagt er að Sovétmenn hafi viljað láta til sín taka frá byrjun, til að storka yfirráðum Bandaríkjanna á sviðinu, um leið og önnur aðildarríki hafi viljað taka þeim og nýju forystunni fagnandi. Og því varð það úr að þessi fordæmalausa áætlun var samþykkt. Úr varð umfangsmikið samstarfsverkefni Bandaríkjanna og Sovétríkjanna: Sovétríkin lögðu í byrjun til 25 milljónir bóluefnaskammta á ári, sem fjölgaði þar til skammtarnir urðu 1,4 milljarðar alls. Það tiltekna bóluefni sem framleitt var í Sovétríkjunum var frostþurrkað, sem gerði það stöðugt og nýtilegt í ólíku loftslagi. Bandaríkin lögðu til starfsfólk og stóran hluta fjármögnunar, en fjármagnið kom þó víðar að, frá 40 ríkjum alls. Og svo var í stystu máli bólusett og bólusett og bólusett og skimað og bólusett þar til rúmum tveimur áratugum síðar, 1977, að síðasta skráða tilfellið af bólusótt kom upp í Sómalíu. 1978 var því bólusetningarskyldan afnumin á Íslandi og 1979 staðfesti Alþjóðaheilbrigðisráðið að smitsjúkdómurinn bólusótt væri einfaldlega úr sögunni.
Enn í dag er þetta eina dæmi þess að mannkyni hafi lánast að útrýma smitsjúkdómi. Ég veit ekki við gengi hvaða árs er miðað þegar sagt er að herferðin hafi alls kostað um 300 milljónir dala, en sömu heimildir herma að Bandaríkin ein hafi fyrir vikið sparað sér þá fjárhæð á tveggja mánaða fresti allar götur síðan, aðeins talið í þeim fjármunum sem annars færu í endurteknar bólusetningar innanlands.
Það getur hugsast að annað eins verkefni sé ekki mögulegt innan þess þrönga ramma sem ímyndunarafli okkar er settur í heimi án byltingar. Geimferðalanga okkar daga virðist að minnsta kosti oftar dreyma um Mars en Venus.