Pestir fara til Mars, bólu­setn­ingar á Venus

22.11.2024 ~ 4 mín

Skildu Sovét­ríkin eitt­hvað gott eftir sig, eiga þau eitt­hvað sér til máls­bóta spurði notandi á Reddit í dag. Eða spurði ekki beint, hann full­yrti að svo væri ekki, með heimsku­legri mynd, en nú er langt síðan það lögmál var kynnt til sögunnar að besta leiðin til að nálg­ast upplýs­ingar á samfé­lags­miðlum væri ekki að spyrja spurn­ingar heldur fara með fleipur, leið­rétt­ingar berist hraðar en svör, og í því ljósi má líta á þetta bull og annað sem tilbrigði við spurningu.

Fyrsta svarið var að benda á könn­un­ar­leið­angra Sovét­ríkj­anna til Venusar. Venera hétu ómönn­uðu geim­förin fjögur sem lentu á yfir­borði Venusar á árunum 1975 og 1982 og náðu að senda bæði ljós­myndir og hljóðupp­tökur þaðan til jarðar áður en þau bráðn­uðu. Enn í dag hefur þetta afrek ekki verið leikið eftir. Líklega er það vegna þess hvernig komið er fyrir Sovét­ríkj­unum í sögu­kennslu Vest­ur­landa að þessar ferðir virð­ast svolítið útundan þegar maður hugsar um geim­könnun, að minnsta kosti vissi ég ekki af þeim fyrr en á fullorðinsárum.

Næsta svar, hins vegar, var að Sovét­ríkin hefðu útrýmt bólu­sótt úr heim­inum. Það hafði ég ekki hugmynd um. Og sagan er flókn­ari – en ekki ósönn. Bólu­sótt herj­aði á mann­kyn í þrjú þúsund ár, hið minnsta. Og hún var skæð, bólu­sótt dró 20–30 prósent þeirra sem veikt­ust af henni til dauða. Vísi að bólu­setn­ingu má fyrst finna í rituðum heim­ildum frá Kína á 16. öld, þar sem þurrk­uðu efni úr sárum sjúk­linga var blásið í nef ósýktra, sem veikt­ust í kjöl­farið lítil­lega en voru eftir það ónæmir fyrir sjúk­dómnum. Þaðan barst hugmyndin til Evrópu og breidd­ist út hundrað árum síðar. Sjálflærður skoti nokkur, Johnnie Noti­ons, þróaði ferlið þannig að það yrði áhættu­minna, auka­verk­anir og andlát fátíð­ari. Edward Jenner hét loks enskur læknir sem uppgötv­aði að notast mætti við efni úr sárum af völdum annars sjúk­dóms, kúabólu, til að bólu­setja mann­fólk gegn bólu­sótt. Það var árið 1796 og upp úr alda­mót­unum breidd­ist þessi aðferð um heim­inn, meðal annars hingað til Íslands. Um miðja 19. öld var bólu­setn­ing víða gerð að skyldu, meðal annars hér. Þannig var sjúk­dóm­ur­inn ýmist upprættur eða honum haldið í skefjum víða um heim, á tilteknum svæðum og innan tiltek­inna ríkja, en átti það þó til að taka sig upp aftur þegar smit bárust til þeirra annars staðar að.

Hér á landi varði bólu­setn­ing­ar­skyldan til ársins 1978, þegar hún var felld niður með lögum – en um það leyti hafði líka bólu­sótt verið útrýmt í heim­inum öllum. Og það er þar sem Sovét­ríkin komu við sögu.

Viktor Zhdanov hét sovéski veiru- og faralds­fræð­ing­ur­inn sem lagði það til við Alþjóða­heil­brigð­is­þing Samein­uðu þjóð­anna (sem mótar stefnu Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­un­ar­innar) að uppræta bólu­sótt alþjóð­lega. Það var árið 1958, á hápunkti kalda stríðs­ins, en með heppi­legum snún­ingi í einmitt þessu samhengi: eftir að hverfa frá störfum þings­ins í mótmæla­skyni, árið 1949, sneru Sovét­ríkin aftur undir nýrri forystu Nikita Khrúst­sjov þetta ár. Sagt er að Sovét­menn hafi viljað láta til sín taka frá byrjun, til að storka yfir­ráðum Banda­ríkj­anna á svið­inu, um leið og önnur aðild­ar­ríki hafi viljað taka þeim og nýju foryst­unni fagn­andi. Og því varð það úr að þessi fordæma­lausa áætlun var samþykkt. Úr varð umfangs­mikið samstarfs­verk­efni Banda­ríkj­anna og Sovét­ríkj­anna: Sovét­ríkin lögðu í byrjun til 25 millj­ónir bólu­efna­skammta á ári, sem fjölg­aði þar til skammt­arnir urðu 1,4 millj­arðar alls. Það tiltekna bólu­efni sem fram­leitt var í Sovét­ríkj­unum var frost­þurrkað, sem gerði það stöð­ugt og nýti­legt í ólíku lofts­lagi. Banda­ríkin lögðu til starfs­fólk og stóran hluta fjár­mögn­unar, en fjár­magnið kom þó víðar að, frá 40 ríkjum alls. Og svo var í stystu máli bólu­sett og bólu­sett og bólu­sett og skimað og bólu­sett þar til rúmum tveimur áratugum síðar, 1977, að síðasta skráða tilfellið af bólu­sótt kom upp í Sómalíu. 1978 var því bólu­setn­ing­ar­skyldan afnumin á Íslandi og 1979 stað­festi Alþjóða­heil­brigð­is­ráðið að smit­sjúk­dóm­ur­inn bólu­sótt væri einfald­lega úr sögunni.

Enn í dag er þetta eina dæmi þess að mann­kyni hafi lánast að útrýma smit­sjúk­dómi. Ég veit ekki við gengi hvaða árs er miðað þegar sagt er að herferðin hafi alls kostað um 300 millj­ónir dala, en sömu heim­ildir herma að Banda­ríkin ein hafi fyrir vikið sparað sér þá fjár­hæð á tveggja mánaða fresti allar götur síðan, aðeins talið í þeim fjár­munum sem annars færu í endur­teknar bólu­setn­ingar innanlands.

Það getur hugs­ast að annað eins verk­efni sé ekki mögu­legt innan þess þrönga ramma sem ímynd­un­ar­afli okkar er settur í heimi án bylt­ingar. Geim­ferða­langa okkar daga virð­ist að minnsta kosti oftar dreyma um Mars en Venus.