Ég veit að fjöldi fólks vinnur við tvo tölvuskjái, þetta virðist vera orðin standard uppsetning á sumum skrifstofum, tveir skjáir hlið við hlið – ég hef alltaf á tilfinningunni að miðpunktur athygli minnar yrði þá í bilinu eða svörtu röndinni á milli þeirra – athygli mín þarf miðpunkt.
Samkeppnin milli kosninganna og jólabókaflóðsins virkar svipað á mig – að athygli umfjöllunarinnar verði að endingu á hvorugu … og þá kannski hvergi, yfirleitt. Enda virðist stærsta frétt síðustu daga hafa verið skandall á skátamóti …
——
Ég reyni að lesa bækur sem ég opna til enda, ef ég geri það ekki teljast þær ekki með, eru ekki „bækur sem ég las á árinu“, þegar upp er staðið. En mikið óskaplega er það stundum erfitt. Jafnvel áhugaverðar bækur … ég man ekki hvenær ég naut þess síðast að lesa bók til enda, frekar en þrauka. Ég á ekki við að allar bækur séu svona slæmar heldur: hvað varð um athyglina mína? Og þá meina ég ekki: síminn minn gleypti hana, heldur er þetta beinlínis spurning: Hvað varð um hana?
Ekki að ég geri ráð fyrir að bloggið mitt geti svarað henni.
——
Ég er áskrifandi að erlendu tímariti sem kemur út á tveggja vikna fresti. Mín eintök eru prentuð og send frá Þýskalandi, þó að ritið sé bandarískt. Í vikunni bárust mér samdægurs heftið frá 3. október og 17. október. Það var einhvern tíma um 25. október. Það er bagalegt að búa við svona lélega póstþjónustu, kippir ýmsu úr sambandi, tímaritin eru eiginlega komin yfir síðasta söludag þegar ég fæ þau í hendurnar, og dvelja stundum bara í plastinu. Þó hæfa þau betur athygli minni – maður les ekki tímarit frá upphafi til enda heldur flettir gegnum það og velur úr. Nú væri notalegt að liggja og lesa tímarit ef mér liði ekki eins og pósturinn væri að hafa mig að fífli á meðan.
——
Þó hafa þessar sendingar það fram yfir bókasendingar frá útlöndum að tímaritin berast beint í póstkassann minn án nokkurrar kröfu um viðbótarframlag til íslenskra fyrirtækja og stofnana. Til að leysa bók úr haldi póstsins þarf að greiða eitt og annað, ýmist fyrir sendingu eða við móttöku, svo endanlegt verð, hingaðkomið, er yfirleitt tvö- til þrefalt uppsett verð. Þessir þröskuldar eru til óþurftar. Þeir hafa kannski ekki mest um það að segja hvert hlutfallið er nú milli bóklestrar og netlestrar (hefur það verið mælt?) en þeir hafa áreiðanlega sitt að segja.
——
Nú gúgla ég til að rifja upp hvað gjöldin heita. „Okkur langar aðeins að skýra út gjöld fyrir sendingar frá útlöndum …“ segir Pósturinn í nóvember 2020, og „reglur um gjafasendingar í aðdraganda jólanna.“ Síðan eru þau talin í millifyrirsögnum: Aðflutningsgjöld, umsýslugjald og sendingargjald – um það síðastnefnda er sérstaklega tekið fram að heimild fyrir gjaldinu sé í lögum um póstþjónustu „en Alþingi bætti þessu inn til að koma í veg fyrir það tap sem var á erlendum sendingum sökum óhagstæðra alþjóðasamninga …“
Þessir óhagstæðu alþjóðsamningar, snerust þeir ekki um smápinkla frá kínverskum netverslunum? Og fyrir vikið hækka allar aðfluttar bækur í verði?
——
Allavega. Athyglin er einhvers staðar þarna á milli. Á milli tveggja tölvuskjáa, á milli umsýslugjalds og sendingargjalds.
——
Spádómur: Til að verja íslenska tungu munu stjórnvöld velta fyrir sér þeim möguleika að skattleggja útlensku. Gerð verða líkön, kannaður möguleikinn á slettuteljara í alla síma fyrir 2030. Hann yrði annað hvort innbyggður í rafrænu skilríkin eða island.is appið. Öll innheimta sjálfvirk og skatturinn, málvilluskatturinn, sjálfbær, tekjurnar af honum nýttar til frekari þróunar á hugbúnaðinum. Hvað sem er, þau munu kanna alla möguleika aðra en að leggja fjármagn í, til dæmis, að greiða götu aðfluttra til íslenskunáms.