Sjö athyglir

01.11.2024 ~ 3 mín

Ég veit að fjöldi fólks vinnur við tvo tölvu­skjái, þetta virð­ist vera orðin stand­ard uppsetn­ing á sumum skrif­stofum, tveir skjáir hlið við hlið – ég hef alltaf á tilfinn­ing­unni að miðpunktur athygli minnar yrði þá í bilinu eða svörtu rönd­inni á milli þeirra – athygli mín þarf miðpunkt.

Samkeppnin milli kosn­ing­anna og jóla­bóka­flóðs­ins virkar svipað á mig – að athygli umfjöll­un­ar­innar verði að endingu á hvor­ugu … og þá kannski hvergi, yfir­leitt. Enda virð­ist stærsta frétt síðustu daga hafa verið skandall á skátamóti …

——

Ég reyni að lesa bækur sem ég opna til enda, ef ég geri það ekki telj­ast þær ekki með, eru ekki „bækur sem ég las á árinu“, þegar upp er staðið. En mikið óskap­lega er það stundum erfitt. Jafn­vel áhuga­verðar bækur … ég man ekki hvenær ég naut þess síðast að lesa bók til enda, frekar en þrauka. Ég á ekki við að allar bækur séu svona slæmar heldur: hvað varð um athygl­ina mína? Og þá meina ég ekki: síminn minn gleypti hana, heldur er þetta bein­línis spurn­ing: Hvað varð um hana?

Ekki að ég geri ráð fyrir að bloggið mitt geti svarað henni.

——

Ég er áskrif­andi að erlendu tíma­riti sem kemur út á tveggja vikna fresti. Mín eintök eru prentuð og send frá Þýskalandi, þó að ritið sé banda­rískt. Í vikunni bárust mér samdæg­urs heftið frá 3. októ­ber og 17. októ­ber. Það var einhvern tíma um 25. októ­ber. Það er baga­legt að búa við svona lélega póst­þjón­ustu, kippir ýmsu úr sambandi, tíma­ritin eru eigin­lega komin yfir síðasta sölu­dag þegar ég fæ þau í hend­urnar, og dvelja stundum bara í plast­inu. Þó hæfa þau betur athygli minni – maður les ekki tíma­rit frá upphafi til enda heldur flettir gegnum það og velur úr. Nú væri nota­legt að liggja og lesa tíma­rit ef mér liði ekki eins og póst­ur­inn væri að hafa mig að fífli á meðan.

——

Þó hafa þessar send­ingar það fram yfir bóka­send­ingar frá útlöndum að tíma­ritin berast beint í póst­kass­ann minn án nokk­urrar kröfu um viðbótar­fram­lag til íslenskra fyrir­tækja og stofn­ana. Til að leysa bók úr haldi pósts­ins þarf að greiða eitt og annað, ýmist fyrir send­ingu eða við móttöku, svo endan­legt verð, hing­að­komið, er yfir­leitt tvö- til þrefalt uppsett verð. Þessir þrösk­uldar eru til óþurftar. Þeir hafa kannski ekki mest um það að segja hvert hlut­fallið er nú milli bóklestrar og netlestrar (hefur það verið mælt?) en þeir hafa áreið­an­lega sitt að segja.

——

Nú gúgla ég til að rifja upp hvað gjöldin heita. „Okkur langar aðeins að skýra út gjöld fyrir send­ingar frá útlöndum …“ segir Póst­ur­inn í nóvem­ber 2020, og „reglur um gjafa­send­ingar í aðdrag­anda jólanna.“ Síðan eru þau talin í millifyr­ir­sögnum: Aðflutn­ings­gjöld, umsýslu­gjald og send­ing­ar­gjald – um það síðast­nefnda er sérstak­lega tekið fram að heim­ild fyrir gjald­inu sé í lögum um póst­þjón­ustu „en Alþingi bætti þessu inn til að koma í veg fyrir það tap sem var á erlendum send­ingum sökum óhag­stæðra alþjóðasamninga …“

Þessir óhag­stæðu alþjóð­samn­ingar, sner­ust þeir ekki um smápinkla frá kínverskum netversl­unum? Og fyrir vikið hækka allar aðfluttar bækur í verði?

——

Alla­vega. Athyglin er einhvers staðar þarna á milli. Á milli tveggja tölvu­skjáa, á milli umsýslu­gjalds og sendingargjalds.

——

Spádómur: Til að verja íslenska tungu munu stjórn­völd velta fyrir sér þeim mögu­leika að skatt­leggja útlensku. Gerð verða líkön, kann­aður mögu­leik­inn á slettu­telj­ara í alla síma fyrir 2030. Hann yrði annað hvort innbyggður í rafrænu skil­ríkin eða island.is appið. Öll innheimta sjálf­virk og skatt­ur­inn, málvillu­skatt­ur­inn, sjálf­bær, tekj­urnar af honum nýttar til frek­ari þróunar á hugbún­að­inum. Hvað sem er, þau munu kanna alla mögu­leika aðra en að leggja fjár­magn í, til dæmis, að greiða götu aðfluttra til íslenskunáms.