Vandi (sumra) innverm­inna dýra

21.11.2024 ~ 3 mín

Vorið fyrir rúmum tveimur árum missti ég allan mátt þar til ég gat ekki lengur burstað í mér tenn­urnar, hand­legg­irnir megn­uðu það ekki. Ég átti bágt með að ganga, staul­að­ist hokinn um og þurfti iðulega að biðja Dísu um að tala hægt við mig, til að ég skildi hvað hún væri að segja. Aðra þorði ég varla að hitta, svona ónýtur. Þegar ég komst loks að hjá lækni hafði ég að minnsta kosti eina nótt óttast að ég væri við dauð­ans dyr, sofnað óviss um að ég myndi vakna aftur. Samt leið mér hálfpart­inn, hjá lækn­inum, eins og ég hlyti að vera að búa þetta til, gera veður útaf engu og var svolítið afsak­andi þegar ég útskýrði, orð fyrir orð, að ég væri hreint ekki vanur að vera svona forn. Lækn­ir­inn sendi mig í blóð­prufu sem stað­festi það sem hana grun­aði: skjald­kirt­ill­inn í mér var hættur að virka. Ekkert við ástandið var ímyndun, kirt­ill­inn hafði bara lagt niður störf. Án þess að kveðja eða ljúka uppsagn­ar­frest­inum. Farinn.

Ég hafði aldrei beint leitt hugann að þessu líffæri, eins þó að ég hefði oft heyrt á það minnst, þá sérstak­lega vegna svona vanda­mála, enda er þetta algengur vandi. Vand­inn er þessi: skjald­kirt­ill­inn fram­leiðir hormón sem stýra bruna allra fruma í líkam­anum. Án þessa horm­óns brenna þær engu – þá dregst allt saman, þol, vits­munir, hvaða geta líkam­ans sem er, þar til ekkert bíður nema myrkrið. Ef ekki væri fyrir lyfin. Horm­ónið, þýroxín, varð fyrst til í lyfja­formi árið 1914, þegar tókst að einangra það í skjald­kirtlum svína. Skjald­kirtlar svína eru ekki ókeypis og eimun þeirra ekki heldur og því voru það góðar fréttir þegar hlið­stæð sameind var fram­leidd á tilrauna­stofu, árið 1927. Levó­þýroxín heitir gervi­efnið og vegna þess hvað það er gömul uppfinn­ing og auðvelt að fram­leiða það kostar levó í töflu­formi minna en bjór á mánuði.

Eftir sem áður er munur á því að hafa skjald­kirtil og gleypa töflu, og þá helst þessi: að skjald­kirt­ill­inn er líffæri sem á í stöð­ugum samskiptum við önnur líffæri, þau máta sig hvert við annað – ég er að reyna að beita ekki eina líkinga­mál­inu sem virð­ist standa eftir í veröld­inni, að líkja ekki öllu við mark­aði, en skýr­ari mynd finn ég þó ekki í fljótu bragði: alvöru skjald­kirt­ill hagar fram­leiðslu sinni í takt við eftir­spurn. Það gerir taflan ekki, hún inni­heldur alltaf sama magnið af þessu galdra­dufti. (Það mætti þá jafn­vel halda líking­unni til streitu og segja að hún minni að því leyti á áætlana­bú­skap Sovét­s­ins og þar komi nú vel á vondan að sitja uppi með stal­in­ískt horm­óna­kerfi …). Þegar álag eykst, af hvaða ástæðu sem er, þegar koma álag­stoppar, þá hefur líkami á levó ekki sama sveigj­an­leika til að brenna meira en hann gerði með gamla laginu, hann mallar bara áfram á sínum dagskammti. Og þar kemur loks að veðrinu:

Innvermin dýr, til dæmis fuglar og menn, mæta köldu andrúms­lofti með því að auka bruna. Það tók um hálft ár að stilla mína lyfja­gjöf vand­lega af til að svara hvers­dags­legum þörfum mínum. Á venju­legum degi er þannig allt í þokka­legu jafn­vægi og meira vill maður helst ekki, óþarf­lega stórum skammti af levó getur fylgt hjarta­flökt og annar óþokki. En aukinn bruni í einni deild þýðir að hinar hafa minna aflögu. Meiri bruni til hitunar þýðir, til dæmis, minna eldsneyti í heil­ann. Kuldi gerir mig, með öðrum orðum, heimskari.

Suma daga finn ég meira fyrir því en ég vildi. Það er andskoti kalt þessa dagana. Og ég er jafn háður miðstöðv­arkynd­ing­unni og ég er levó­inu mínu. Verk­fræð­ingum, alþjóða­mörk­uðum, stöðlum, lyfja­eft­ir­liti, glás og gommu af starfs­fólki. Eða semsagt, án þeirra allra þyrfti ég svína­hjörð til að slátra og eima og sprauta í mig þessu horm­óni úr, sem væri alls ekki í stíl við líf mitt að öðru leyti.