Allir að fara, allir ókomnir

17.1.2025 ~ 3 mín

Lynch er dáinn. Það eru allir að fara. Allt fólkið sem fyllti heim­inn minn frá því ég var barn, eitt af öðru, hægt og bítandi. Eins og gengur. Fjöl­skylda Lynch sagði í tilkynn­ingu að hann hefði sjálfur viljað að við hefðum hugann ekki um of við missinn, horfðum á kleinu­hring­inn frekar en gatið í miðj­unni. En gatið er óneit­an­lega í miðj­unni, þannig gengur þessi heimur, það er alls konar í honum, alls konar fínerí, en það er gat í miðjunni.

Eins og gengur. Auðvitað er ég ekki bein­línis með hugann við Lynch. Hann er ekki, einn og sér, gatið í miðj­unni. En hann var risi, fyrir því. Megnið af því besta sem fram­leitt hefur verið fyrir sjón­varp síðustu áratugi væri óhugs­andi án Twin Peaks. Og fullt af miðl­ungs­góðum kvik­myndum eða þaðan af verri hefðu aldrei orðið til án hans heldur – þegar ég sótti kvik­mynda­skóla held ég að annar hver nemandi hafi viljað verða Lynch. En auðvitað verður það enginn annar.

Ég hef aldrei orðið jafn hræddur í bíó og þegar ég horfði á Lost Highway – það var áreið­an­lega í Laug­ar­ás­bíói, ég var mennta­skóla­nemi, fór með vini mínum, við svitn­uðum og vein­uðum. Að minnsta kosti ég. Vinur minn var hugs­an­lega ekki jafn hysterískur. Ég hef aldrei séð hana aftur, veit ekki fyrir víst hvað það var í henni sem skelfdi mig svona.

En það er Twin Peaks sem ég varð ástfang­inn af. Eins og millj­ónir annarra. Einfaldir hlutir, eins og að njóta þess að drekka góðan kaffi­bolla, urðu þaðan í frá aldrei samir við sig. Allir allt í einu með eitt­hvað gat í miðj­unni. Ekki vöntun, annars konar. Gat sem hafði alltaf verið þarna. En hafði allt í einu útlínur? Svolítið ógnvekj­andi og fjarska­lega vina­legt í senn.

Lynch var um nokkuð langt skeið í guða­tölu í mínum huga. Ég hefði – áður en ég varð miðaldra, að minnsta kosti – ekki getað ímyndað mér að hitta hann án þess að gera mig að viðr­ini, opin­mynntur, engu orði upp stynj­andi. Þess vegna var það í Háskóla­bíói sem ég átti súrrealísk­ustu reynsl­una af Lynch. Hrun­vetr­inum var að ljúka, þetta var sjö dögum eftir kosn­ing­arnar vorið 2009, sé ég núna, þegar ég fletti því upp, sem Lynch kom til lands­ins til að kynna og fjár­magna námskeið fyrir fólk í innhverfri íhugun, sem svo heitir á íslensku. Ég hlaut ekki trúar­legt uppeldi en það sem komst næst því var þátt­taka foreldra minna í íhug­un­ar­hreyf­ing­unni. Hugur minn var órafjarri frá því öllu þegar ég leit við í Háskóla­bíói, fullur af einhverri blöndu póli­tískrar angistar, ástríðu og vonbrigða, ég átti varla neitt afgangs til að veita viðburð­inum veru­lega athygli. En þegar ég kom þarna inn, þá stóð mamma mín á svið­inu, á spjalli við Lynch eins og ekkert væri sjálf­sagð­ara, takandi þátt í undir­bún­ingnum. Hún þekkti vel til hans sem leik­stjóra auðvitað, það var ekki það, hún er bara betri en ég í að láta slíkt ekki trufla sig. Ég sá þau bara álengdar, lengst utan úr sal, mér sýnd­ist fara vel á með þeim. Ég man bein­línis ekki hvort ég dvaldi lengi í salnum, fylgd­ist með öllum viðburð­inum, eða lét þetta nægja, það eina sem situr eftir er þessi mynd af mömmu og Lynch á sviði Háskóla­bíós, í mínum huga full­komið skamm­hlaup milli tilveru­sviða, og þannig um leið í einhverju upplyftu samræmi við það hvernig allt hafði þá riðl­ast og rekið á reiði­skjálfi undan­liðna mánuði. Kirsu­berið á kökuna.

Og nú er Lynch farinn. Og þetta, hvernig tínist úr heim­inum manns – einhvern tíma á síðustu árum fór ég yfir þessi mörk, að nú er fleira fólk í heim­inum yngra en ég en eldra en ég. Ég er eldri en flestir. Þá er maður orðinn miðaldra. Maður má vanda sig ef maður ætlar að vita af jafn mörgu fólki í heim­inum eftir það og fram að því. Annars situr maður uppi annað hvort í tómu húsi eða húsi sem er reimt í.