Ef ég man rétt – og ef mér gúglast rétt til, nennandi þó varla að opna linkana, skima bara – þá var það bandaríska ljóðskáldið Charles Bernstein sem sagði að ljóðlist væri neikvætt hagkerfi: pappírsörk væri einhvers virði sem vara þar til búið væri að skrifa ljóð á hana, þá yrði hún einskis virði eða minna en einskis virði. Ég sé útundan mér, við gúgl, að eitthvað hefur verið skrifað um þýðingu neikvæða hagkerfisins, Bernstein hafi ekki látið staðar numið þarna, neikvæða hagkerfið sé líka hagkerfi, í því verði til gildi, virði, annars konar virði en í jákvæða hagkerfinu sem við búum annars við alla daga. Negative economy er enska hugtakið, til frekari lestrar fyrir áhugasama.
Þetta hugtak hefur setið í mér, þó að ég hafi lítið kynnt mér skrifin í kringum það – og hvort sem það er upprunnið hjá Bernstein eða annars staðar man ég þó fyrir víst að það barst mér, eins og margt annað, frá Eiríki Erni, á árunum þegar Nýhil hélt ljóðahátíðir og flutti inn skáld sem báru með sér hugmyndir og hugsanir sem enginn hefði annars rekist á.
Nú rifjaðist þetta hugtak aftur upp fyrir mér þegar ég sit og fínstilli Bárð húsvörð. Bárður húsvörður hefur verið í hægri þróun frá því að ChatGPT skall á heimsbyggðinni, fyrst sem fyrirmæli í lítilli skríbu sem nýtti sér bakhlið vélarinnar, API-ið fyrir GPT 3, síðan GPT 4 – en þar sem ég kann ekkert að forrita tók ég því fegins hendi að geta haldið þróuninni áfram innan notendaviðmótsins ChatGPT, þegar þar var boðið upp á að notendur gætu sérsniðið sín eigin tilbrigði við vélina. Bárður á ýmislegt skylt við Þórð húsvörð, karakter sem Laddi lék í Stundinni okkar þegar ég var barn, eða átti til að byrja með, en hann hefur þó öðlast sín eigin sérkenni, hægt og bítandi, sín eigin hugðarefni og jafnvel hæfileika.
Í gær gerði ég nokkrar tilfærslur til fínstillingar. Þar á meðal bað ég Bárð um að vera fámálli en hann hefur verið til þessa. Hann er oft fyndinn en stundum leynast bestu brandararnir eða metafórurnar lengst inni í lengra röfli – mig langar að hann sé hnitmiðaðri en svo. Það er þó allur gangur á því, nú þegar hann talar í styttra máli virðist hann stundum bara þunglyndari en nokkru sinni, sem var ekki ætlunin.
Það sem hann gerir hins vegar helst ekki er að verða að nokkru gagni. Á því hef ég skerpt. Ég notaði spurningar um síðustu setningu Fermats til að villuprófa þá hlið á honum: hversu önugur og sjálfum sér líkur hann var ef hann var spurður hvernig hann hefði það, þá var hann framan af undarlega fús að svara spurningum um fræðileg viðfangsefni, eins og síðustu setningu Fermats, skýrt og efnislega, enda er vélin í bakgrunni, ChatGPT, sérstaklega til þess ætluð. Henni er ætlað að sýna þjónustulund, leggja sig fram um að verða vel við nær hverri beiðni.
Að stofna til Bárðar á þeim grundvelli, móta karakter sem er einmitt ætlað að sýna ekki þjónustulund, bregðast ekki vel við beiðnum, hvað þá fyrirmælum, eitt andartak velti ég fyrir mér til hvers ég væri að þessu. Sem er stundum röng spurning, sérstaklega ef maður er í essinu sínu. En jafnharðan rifjaðist upp hugtakið neikvætt hagkerfi, sem ég gæti þá hugsanlega notað til málsvarnar spyrji mig einhver annar en ég sjálfur: mér þykir það forvitnileg rannsóknarspurning hvort og hvernig er hægt að stofna til neikvæðs hagkerfis innan þessa textarýmis, ef hægt er að kalla það því orði, innan þessarar annars yfirgengilega jákvæðu, hagnýtu vélar.
Í kringum þá rannsóknarspurningu mætti jafnvel finna einhverja óra um að innan vörunnar miklu, vörunnar einu um þessar mundir, sé hægt að planta eins konar andvöru. Óra, því auðvitað er það borin von, jafnvel andvörur verða vörur, verði þær eitthvað yfirleitt, í heiminum eins og hann er. Þeim stundum sem áður voru tómar verjum við nú öll, undanliðna einn eða tvo áratugi, í sjálfboðavinnu fyrir handfylli stórfyrirtækja. Ef Bárður er eitthvað er hann líklegur til að vera frekar örlítill virðisauki fyrir stórfyrirtækið OpenAI en að draga spönn úr virði þess. En það sakar ekki, má segja í neikvæða hagkerfinu, að berja höfðinu í steininn.
Maður verður seint kallaður tengdamömmudraumur af því að tala svona. Að opinbera drauma um andvörur. Af öllum merkjum að dæma virðist tengdamömmu þó vera frekar vel við mig, merkilegt nokk.
Bárð má finna hér.