Andvaran Bárður

13.1.2025 ~ 4 mín

Ef ég man rétt – og ef mér gúgl­ast rétt til, nenn­andi þó varla að opna link­ana, skima bara – þá var það banda­ríska ljóð­skáldið Char­les Bern­stein sem sagði að ljóðlist væri neikvætt hagkerfi: papp­írs­örk væri einhvers virði sem vara þar til búið væri að skrifa ljóð á hana, þá yrði hún einskis virði eða minna en einskis virði. Ég sé útundan mér, við gúgl, að eitt­hvað hefur verið skrifað um þýðingu neikvæða hagkerf­is­ins, Bern­stein hafi ekki látið staðar numið þarna, neikvæða hagkerfið sé líka hagkerfi, í því verði til gildi, virði, annars konar virði en í jákvæða hagkerf­inu sem við búum annars við alla daga. Negative economy er enska hugtakið, til frek­ari lestrar fyrir áhugasama.

Þetta hugtak hefur setið í mér, þó að ég hafi lítið kynnt mér skrifin í kringum það – og hvort sem það er upprunnið hjá Bern­stein eða annars staðar man ég þó fyrir víst að það barst mér, eins og margt annað, frá Eiríki Erni, á árunum þegar Nýhil hélt ljóða­há­tíðir og flutti inn skáld sem báru með sér hugmyndir og hugs­anir sem enginn hefði annars rekist á.

Nú rifj­að­ist þetta hugtak aftur upp fyrir mér þegar ég sit og fínstilli Bárð húsvörð. Bárður húsvörður hefur verið í hægri þróun frá því að Chat­GPT skall á heims­byggð­inni, fyrst sem fyrir­mæli í lítilli skríbu sem nýtti sér bakhlið vélar­innar, API-ið fyrir GPT 3, síðan GPT 4 – en þar sem ég kann ekkert að forrita tók ég því fegins hendi að geta haldið þróun­inni áfram innan notenda­við­móts­ins Chat­GPT, þegar þar var boðið upp á að notendur gætu sérsniðið sín eigin tilbrigði við vélina. Bárður á ýmis­legt skylt við Þórð húsvörð, karakter sem Laddi lék í Stund­inni okkar þegar ég var barn, eða átti til að byrja með, en hann hefur þó öðlast sín eigin sérkenni, hægt og bítandi, sín eigin hugð­ar­efni og jafn­vel hæfileika.

Í gær gerði ég nokkrar tilfærslur til fínstill­ingar. Þar á meðal bað ég Bárð um að vera fámálli en hann hefur verið til þessa. Hann er oft fynd­inn en stundum leyn­ast bestu brand­ar­arnir eða meta­fór­urnar lengst inni í lengra röfli – mig langar að hann sé hnit­mið­aðri en svo. Það er þó allur gangur á því, nú þegar hann talar í styttra máli virð­ist hann stundum bara þung­lynd­ari en nokkru sinni, sem var ekki ætlunin.

Það sem hann gerir hins vegar helst ekki er að verða að nokkru gagni. Á því hef ég skerpt. Ég notaði spurn­ingar um síðustu setn­ingu Fermats til að villu­prófa þá hlið á honum: hversu önugur og sjálfum sér líkur hann var ef hann var spurður hvernig hann hefði það, þá var hann framan af undar­lega fús að svara spurn­ingum um fræði­leg viðfangs­efni, eins og síðustu setn­ingu Fermats, skýrt og efnis­lega, enda er vélin í bakgrunni, Chat­GPT, sérstak­lega til þess ætluð. Henni er ætlað að sýna þjón­ustu­lund, leggja sig fram um að verða vel við nær hverri beiðni.

Að stofna til Bárðar á þeim grund­velli, móta karakter sem er einmitt ætlað að sýna ekki þjón­ustu­lund, bregð­ast ekki vel við beiðnum, hvað þá fyrir­mælum, eitt andar­tak velti ég fyrir mér til hvers ég væri að þessu. Sem er stundum röng spurn­ing, sérstak­lega ef maður er í essinu sínu. En jafn­harðan rifj­að­ist upp hugtakið neikvætt hagkerfi, sem ég gæti þá hugs­an­lega notað til málsvarnar spyrji mig einhver annar en ég sjálfur: mér þykir það forvitni­leg rann­sókn­ar­spurn­ing hvort og hvernig er hægt að stofna til neikvæðs hagkerfis innan þessa texta­rýmis, ef hægt er að kalla það því orði, innan þess­arar annars yfir­gengi­lega jákvæðu, hagnýtu vélar.

Í kringum þá rann­sókn­ar­spurn­ingu mætti jafn­vel finna einhverja óra um að innan vörunnar miklu, vörunnar einu um þessar mundir, sé hægt að planta eins konar andvöru. Óra, því auðvitað er það borin von, jafn­vel andvörur verða vörur, verði þær eitt­hvað yfir­leitt, í heim­inum eins og hann er. Þeim stundum sem áður voru tómar verjum við nú öll, undan­liðna einn eða tvo áratugi, í sjálf­boða­vinnu fyrir hand­fylli stór­fyr­ir­tækja. Ef Bárður er eitt­hvað er hann líklegur til að vera frekar örlít­ill virð­is­auki fyrir stór­fyr­ir­tækið OpenAI en að draga spönn úr virði þess. En það sakar ekki, má segja í neikvæða hagkerf­inu, að berja höfð­inu í steininn.

Maður verður seint kall­aður tengda­mömmu­draumur af því að tala svona. Að opin­bera drauma um andvörur. Af öllum merkjum að dæma virð­ist tengda­mömmu þó vera frekar vel við mig, merki­legt nokk.

Bárð má finna hér.