Einu sinni hvarflaði það að mér hvort það væri ærlegra ef fjölmiðlar – þá átti ég við dagblöð, prentmiðla – höguðu umfangi sínu eftir því hversu margt væri að frétta. Á tíðindamiklum dögum yrði Mogginn til dæmis fullar fimmtíu eða hundrað síður, hvað sem full stærð þýddi, en þegar færra gengi á skryppi hann einfaldlega saman, þá væri ekki orðum sóað í vitleysu heldur spöruð, hann gæti orðið tvær síður eða engin ef svo bæri við. Hvort það væri ekki ærlegast af útvarpsstöðvum að hafa bara hljótt þegar ekki er frá neinu mikilsverðu að segja, bíða bara … og mig rámar í að ég hafi þá litið svo á að ástæðan fyrir þessari sóun, að prentmiðlarnir prenta allar þessar síður óháð fréttamagni, og útvarpsstöðvarnar fylla allar mínúturnar sínar, væru auglýsingaplássin, þarfir auglýsenda, stundum væri efnið sem fyllti síðurnar og mínúturnar þá aðeins uppfylling á milli auglýsinganna. Sem væri slæmt, einhvers konar hrörnun, hitt væri betra ástand, að miðlarnir legðu sig bara niður þegar þeir hefðu ekkert brýnt fram að færa. Auglýsendur myndu spjara sig.
Ég þarf ekki að ljúka við þessa færslu
07.1.2025
~ 1 mín