Mér finnst nonfiction bækur1 sem ég les þessa dagana úreldast, meira eða minna, frá því þær koma út og áður en ég er hálfnaður með þær. Ekki bara vegna þess hvað ég les hægt. Heimurinn er á hreyfingu, alveg hrikalegri hreyfingu.
Ásgeir H. Ingólfsson lést um helgina, eins og alþjóð veit. Meðal þess sem hann afrekaði var að reka um árabil eins manns fjölmiðilinn Menningarsmygl á slóðinni smygl.is. „Börn Miðflokksins“ hét síðasta færslan sem þar birtist. Lokaorð greinarinnar eru þessi:
„Dauðaköltið sem Snorri Másson hefur áhyggjur af er dauðaköltið sem hann er nýlega genginn í, Miðflokkurinn og aðrir flokkar allra landa sem standa ekki vörð um lágmarksmennsku, vilja þvert á móti loka náungann úti. Þetta eru költ sem skilja ekki kall tímans, þau skilja kannski hvert vindurinn blæs en þeir skilja ekki undirölduna, þá heimssögulega atburði sem móta okkar tíma, loftslagsbreytingar, flóttamannastrauminn, stríðin, og það mun á endanum annað hvort tortíma þeim – eða verða til þess að þeir hjálpa okkur við að tortíma sjálfum okkur, ef við ösnumst til að kjósa þessi dauðakölt.“
Skýrleikinn og afdráttarleysið, andstaðan við fasismann, viljinn til að átta sig á stóra samhenginu, finnst mér bæði góð áminning og áskorun, eggjun. Þetta eru ekki, því miður, tímar til að anda rólega.
↑1 | Deildin nonfiction held ég að sé oftast nefnd fræðibækur og bækur almenns eðlis á íslensku, eða eitthvað í þá veru. Það er ekkert verri lýsing, bara lengri. |
---|