Stundum dettur mér eitthvað í hug sem ég get svo ómögulega munað hvort mér er að detta í hug í fyrsta, annað eða tíunda sinn, eða hvort einhverjum öðrum datt í hug og ég er að stela því. En þetta gúglast að minnsta kosti ekki. Og má hafa fyrir vinnutilgátu: Að öll ár eru millistríðsár. Þar til annað kemur í ljós en ég sé ekki hvernig það ætti að geta gerst.
——
Við akstur í dag hvarflaði það að mér að þetta sem ég finn þegar ég keyri bíl mætti kannski kalla impostor syndrome. Loddaraheilkenni. Það er að segja, mér líður eins og allir hinir séu alvöru bílar, en um sjálfan mig viti ég því miður betur, ég er bara maður við stýri á bíl. Það er að segja, um hina bílana hugsa ég ekki sem fólk við stýri heldur sem bíla, bíla sem lífverur, heila skepnu með þessa beinagrind utan á sér. Exoskeleton heitir það á öðrum málum, eins og krabbar og humrar. Ytri stoðgrind, segir Íðorðabankinn. Þegar er svínað á mér, þá upplifi ég það ekki sem svo að manneskja við stýri hafi verið að gera eitthvað gruggugt, heldur bíll, bíllinn hafi svínað á mér – þegar ég muldra: djöfulsins fáviti, við stýrið, þá er ég ekki að bölva ökumanninum heldur þessari einingu ökumanns og bíls, bílnum sem veru.
Fela bílar, eins og þeir eru, bílar í raun, með skyggðar rúður og blindandi framljós, allt heila klabbið, í sér afmennskun? Eða ganga hvörfin á hinn veginn, er ég að manngerva bílinn þegar ég formæli honum? Afmennskun eða anþrópómorfismi – ég kann ekkert skýrara dæmi um að það sé tvírætt.
——
Musk heilsaði heiminum með nasistakveðju. Nasistum er það ljóst, þeir fagna. Vinstrimönnum er það ljóst, þeir formæla honum eða andvarpa eða yppta öxlum, en þeim er jafn ljóst hvað hann gerði og honum sjálfum. En þar á milli er heill hellingur af fólki sem þvertekur fyrir að nokkuð slíkt hafi átt sér stað, hann hafi aðeins viljað sýna með líkamstjáningu hvernig hann kasti hjarta sínu út til fólksins. Ég sá einn bæta við „svona eins og maður sendir fingurkoss“. Munurinn er auðvitað sá að fjöldi fólks á það til að senda fingurkoss, það er algengt táknmál. Allir skilja þá sendingu. Ekkert dæmi hefur komið fram um það, fyrr eða síðar, að nokkur maður hafi hreyft handlegginn á sér eins og Musk gerði til að segjast kasta hjarta sínu út til annars fólks. Það táknmál er ekki til. Og eins og heimspekingar hafa kennt okkur, þá er ekkert til sem heitir einkatungumál. Tungumál er félagslegt fyrirbæri. Merkjasending Musks var skýr og afdráttarlaus. Hún var líka í fullkomnu samræmi við aðrar merkjasendingar hans undanliðin misseri. Ég veit ekki hvað þeim gengur til sem neita því. Kannski einhverjir vilji heldur halda í heimsmynd þar sem það væri ekki mögulegt, beinlínis óhugsandi: ríkasti maður heims gæti ekki hafa nýtt valdatöku nýs forseta í Bandaríkjunum til að láta nasista vita að hann sé þeirra maður. Ég skil það. En ég held að til lengri tíma litið sé betra að trúa sínum eigin augum.
——
Nei, það er ekki beinlínis loddaraheilkenni, þetta í umferðinni, mér líður ekki eins og ég sé að þykjast vera bíll en allir aðrir séu alvöru bílar. Ég veit vel að ég er líka bíll.
Því lauslega tengt sýnist mér að bílaframleiðendur, og kaupendur, gætu sparað nokkra þúsundkalla við framleiðsluna með því að sleppa bílflautum í þeim eintökum sem eru seld til Íslands. Hvergi í veröldinni er þeim jafn sjaldan beitt. Stundum hugsa ég: nú hefði verið tilvalið að þeyta flautuna og þykir jafnvel leitt að hafa misst af tækifærinu, en missi af því eins og aðrir landsmenn, virðist vera. Ég er ekki viss hvað veldur, en íslenskir bílar eru feimin dýr.
——
Það var dýrðlegt að fylgjast með milljónum Bandaríkjamanna uppgötva milljónir Kínverja á samfélagsmiðlinum Xiaohongshu eða Rauða kverinu, dagana sem leit út fyrir að TikTok yrði bannað. Það minnti svolítið á gamla góða internetið, þetta landamæralausa, þegar við vorum öll að uppgötva hvert annað. Eins og örlítill draumur. Á millistríðsárunum.