Raunir bíla

22.1.2025 ~ 3 mín

Stundum dettur mér eitt­hvað í hug sem ég get svo ómögu­lega munað hvort mér er að detta í hug í fyrsta, annað eða tíunda sinn, eða hvort einhverjum öðrum datt í hug og ég er að stela því. En þetta gúgl­ast að minnsta kosti ekki. Og má hafa fyrir vinnu­til­gátu: Að öll ár eru mill­i­stríðsár. Þar til annað kemur í ljós en ég sé ekki hvernig það ætti að geta gerst.

——

Við akstur í dag hvarfl­aði það að mér að þetta sem ég finn þegar ég keyri bíl mætti kannski kalla impostor syndrome. Lodd­ara­heil­kenni. Það er að segja, mér líður eins og allir hinir séu alvöru bílar, en um sjálfan mig viti ég því miður betur, ég er bara maður við stýri á bíl. Það er að segja, um hina bílana hugsa ég ekki sem fólk við stýri heldur sem bíla, bíla sem lífverur, heila skepnu með þessa beina­grind utan á sér. Exoskeleton heitir það á öðrum málum, eins og krabbar og humrar. Ytri stoð­grind, segir Íðorða­bank­inn. Þegar er svínað á mér, þá upplifi ég það ekki sem svo að mann­eskja við stýri hafi verið að gera eitt­hvað grugg­ugt, heldur bíll, bíll­inn hafi svínað á mér – þegar ég muldra: djöf­uls­ins fáviti, við stýrið, þá er ég ekki að bölva ökumann­inum heldur þess­ari einingu ökumanns og bíls, bílnum sem veru.

Fela bílar, eins og þeir eru, bílar í raun, með skyggðar rúður og blind­andi fram­ljós, allt heila klabbið, í sér afmennskun? Eða ganga hvörfin á hinn veginn, er ég að mann­gerva bílinn þegar ég formæli honum? Afmennskun eða anþrópómorf­ismi – ég kann ekkert skýr­ara dæmi um að það sé tvírætt.

——

Musk heils­aði heim­inum með nasista­kveðju. Nasistum er það ljóst, þeir fagna. Vinstri­mönnum er það ljóst, þeir formæla honum eða andvarpa eða yppta öxlum, en þeim er jafn ljóst hvað hann gerði og honum sjálfum. En þar á milli er heill hell­ingur af fólki sem þver­tekur fyrir að nokkuð slíkt hafi átt sér stað, hann hafi aðeins viljað sýna með líkams­tján­ingu hvernig hann kasti hjarta sínu út til fólks­ins. Ég sá einn bæta við „svona eins og maður sendir fing­ur­koss“. Munur­inn er auðvitað sá að fjöldi fólks á það til að senda fing­ur­koss, það er algengt tákn­mál. Allir skilja þá send­ingu. Ekkert dæmi hefur komið fram um það, fyrr eða síðar, að nokkur maður hafi hreyft hand­legg­inn á sér eins og Musk gerði til að segj­ast kasta hjarta sínu út til annars fólks. Það tákn­mál er ekki til. Og eins og heim­spek­ingar hafa kennt okkur, þá er ekkert til sem heitir einka­tungu­mál. Tungu­mál er félags­legt fyrir­bæri. Merkja­send­ing Musks var skýr og afdrátt­ar­laus. Hún var líka í full­komnu samræmi við aðrar merkja­send­ingar hans undan­liðin miss­eri. Ég veit ekki hvað þeim gengur til sem neita því. Kannski einhverjir vilji heldur halda í heims­mynd þar sem það væri ekki mögu­legt, bein­línis óhugs­andi: ríkasti maður heims gæti ekki hafa nýtt valda­töku nýs forseta í Banda­ríkj­unum til að láta nasista vita að hann sé þeirra maður. Ég skil það. En ég held að til lengri tíma litið sé betra að trúa sínum eigin augum.

——

Nei, það er ekki bein­línis lodd­ara­heil­kenni, þetta í umferð­inni, mér líður ekki eins og ég sé að þykj­ast vera bíll en allir aðrir séu alvöru bílar. Ég veit vel að ég er líka bíll.

Því laus­lega tengt sýnist mér að bíla­fram­leið­endur, og kaup­endur, gætu sparað nokkra þúsund­kalla við fram­leiðsl­una með því að sleppa bílflautum í þeim eintökum sem eru seld til Íslands. Hvergi í veröld­inni er þeim jafn sjaldan beitt. Stundum hugsa ég: nú hefði verið tilvalið að þeyta flaut­una og þykir jafn­vel leitt að hafa misst af tæki­fær­inu, en missi af því eins og aðrir lands­menn, virð­ist vera. Ég er ekki viss hvað veldur, en íslenskir bílar eru feimin dýr.

——

Það var dýrð­legt að fylgj­ast með millj­ónum Banda­ríkja­manna uppgötva millj­ónir Kínverja á samfé­lags­miðl­inum Xiaohongshu eða Rauða kver­inu, dagana sem leit út fyrir að TikTok yrði bannað. Það minnti svolítið á gamla góða inter­netið, þetta landa­mæra­lausa, þegar við vorum öll að uppgötva hvert annað. Eins og örlít­ill draumur. Á millistríðsárunum.