Ég skrifaði þennan frasa hjá mér í gær, „víkjandi hugmyndafræði“ … var að velta fyrir mér valdaskiptunum í Bandaríkjunum og fyrirboðunum … á samfélagsmiðlum deila einhverjir því gamla heilræði að andspænis gerræðislegum stjórnvöldum (ef það er tæk þýðing á authoritarian) skyldi maður gæta þess að hlýða ekki fyrirfram. Og eru þá til dæmis með Zuckerberg og miðlana hans í huga, sem hafa tilkynnt nú fyrir valdatöku nýja gamla forsetans að þeir muni ekki aðeins falla frá því að staðreyndaprófa færslur, heldur líka fella niður svokölluð DEI-prógrömm, fjölbreytileikaviðmið, við ráðningar og fleira. Niður með fjölbreytileikann, segja þeir, Trump er kominn.
Og það hvarflaði að mér, að andspænis ríkjandi hugmyndafræði megi tala um víkjandi hugmyndafræði. Kannski er fullsnemmt að segja Trumpisma ríkjandi, nú þegar valdatími hans er ekki hafinn á ný, en eitthvað sem virtist komið til að vera er þó greinilega víkjandi. Hvað sem við köllum það. Wokeismi, segir hægrið, nú lýkur öllum þessum wokeisma. Nú munu hvítir karlar loks aftur njóta sannmælis.
Það er auðvitað hluti af sömu bylgju þegar íslenska hægrið talar háðslega um Mannréttindastofnun, til dæmis. Eða lætur eins og flóttafólk séu ógn og vandamál á landinu. Eða að tjáningarfrelsi á Íslandi stafi sérstök hætta af … Evrópusambandinu.
Evrópusambandið er sannarlega ekki sama apparat og Mannréttindadómstóll Evrópu, en það má hafa það í huga og rifja upp jafn oft og þarf, að rétturinn til að gagnrýna stjórnvöld var ekki til staðar í íslenskum lögum fyrr en Mannréttindadómstóllinn krafðist þess, upp úr 1990. Það eru ekki miklar ýkjur að halda því fram að á þessu landi hafi Þorgeir Þorgeirson, rithöfundur, og Mannréttindadómstóll Evrópu loks innleitt 200 ára gamla grundvallarhugmynd um tjáningarfrelsi undir lok síðustu aldar. Það þarf afar sérstakt lundarfar til að láta í veðri vaka að hér undir norðurheimskautinu sé eitthvert vígi þess fyrirbæris sem þurfi sérstaklega að verja fyrir ógnum frá meginlandi Evrópu. – Sérstakt lundarfar eða hugmyndafræðilega sveiflu.