Borinn til grafar. Absúrd. Absúrd.
Þetta hvernig við birtumst og hverfum. Birtumst sem eitthvert mynstur, eitthvort form, einhver vafningur úr sömu frumefnum og restin af jörðinni og alheiminum, dönsum í svolitla stund, og hverfum svo aftur, missum formið, rennum saman við formleysuna á ný. Absúrd.
Maður á að vera orðinn vanur því. Í einhverjum skilningi. En fráfalli fylgir ekki bara sorg, því fylgir líka fáránleiki. Áminning um fáránleika. Og hún endurtekur sig.
Í Þýskalandi býr bandarískur tónlistarmaður að nafni Dan Reeder, sem ég held svolítið upp á. Hann samdi lag um dauðann sem hann kallar Maybe. Titilinn man ég yfirleitt ekki heldur gúgla stefið sem gengur í gegnum það: „When they’re gone they’re gone“. Einhverjum gæti þótt lagið of galgopalegt fyrir þetta samhengi, en ég finn einhverja næringu í því:
„The first guy I know who died
I can’t remember his name
The tenth grade started, he just never came again
All his friends sat around and cried for a day or two
You can say what you want about immortal soul
When that guy died it left a hole
It was my first clue
That when they’re gone they’re gone.“
Frá þessu dauðsfalli bekkjarfélaga sem hann man ekki hvað heitir rekur Reeder sig, í erindum lagsins, gegnum fráföll fólks sem hann hefur tengst mismikið: Stevie Gibson sem hann gekk með heim úr skóla og fylgdi lítilli reglu á göngunni, að ef maður snýr sér í aðra áttina þarf maður að snúa sér í hina líka eða hætta annars á einhverja ógæfu. Síðan fór Stevie í flúðasiglingu niður einhverja á og áin snerist og báturinn snerist og gæfa Stevies fór öll í keng og hann drukknaði.
Þá dó Dieter sem var hægt að hringja í næstu tvær vikur á eftir og heyra enn kveðjuna á símsvaranum, að hann væri ekki heima. Í síðasta erindinu víkur Reeder – eða ljóðmælandinn, hver sem hann er – að móður sinni, sem hann segir hafa látist á gjörgæslu, hann hafi setið einhvers staðar með fólki, setið saman í hring á klappstólum, þegar hann fékk á tilfinninguna að einhvern vantaði, og komist að því síðar að sömu nóttina dó hún.
Á milli erindanna syngur Reeder viðlagið:
„Maybe Jesus beat that rap
We’re not sure
Maybe you can live forever
If your heart is pure
Or maybe you’ll come back
Some day as a king prawn
Maybe angels come
And take you away to heaven
Or the other way
But from down here it appears
That when they’re gone
They’re gone“
Það getur hugsast að Jesús hafi vikið sér undan þeim dómi, það vitum við ekki, syngur Reeder, og kannski fá hjartahreinir lifað að eilífu – eða kannski snýr maður aftur einn daginn sem risarækja. Kannski koma englar og bera mann til himna eða í hina áttina en héðan frá séð, hérna niðri, lítur út fyrir, þegar fólk fer, að það sé farið.
Og það er þetta, þessi alvara leiksins, sem er svo lengi að síast inn. Huglægt? Eða á líkamlegri máta, í einhverju nær vöðvaminninu? Þetta tvennt er ekki alltaf auðveldlega aðgreinanlegt. Tilfinningalega er þá kannski nær lagi að segja.
Ásgeir fól mér verkefni, eða bauð mér, og ég tók það að mér, verk að vinna að honum lifandi eða látnum. Ég vil vinna það vel, í samstarfi við aðra, að mörgu leyti hæfari. Og stundum þegar ég er að velta því fyrir mér þessa dagana eða öðrum eftirmálum fráfallsins, þá hvarflar að mér, rétt eitt augnablik, að nú væri líklega ráð að heyra í Ásgeiri, fá hans álit á málinu, áður en ég man, næstum í sömu mund, að nei. Einmitt ekki.
Ásgeir er farinn. Mér bar gæfa til að telja hann til vina minna. Um leið vorum við ekki nánustu vinir hvor annars. Mér skilst að einmitt þá sé við hæfi að maður skrifi minningarorð. Ég er ekki góður í því, það er vandasamt og skringilegt, en vildi þó ekki guggna á því. Hér má lesa stutta, vanmáttuga minningargrein. En myndin sem fylgir henni, mér finnst hún góð. Ásgeir var brosmildur maður, glettinn, hlýr og blíður. En hann var líka staðfastur og honum var alvara. Inn á milli brosanna finnst mér ágætt að halda því til haga líka.