Það er komin gangbraut yfir Ármúlann. Ég hef ekki séð minnst á það í fréttum en ég kaupi ekki heldur Moggann svo hver veit. Þetta er ekki þýðingarlaust fyrir okkur sem unnum Ármúlanum. Ármúlinn er, hefur verið … hvernig er best að orða það? Eftirstöðvar raunveruleikans? Draumur um raunir? Á meðan miðborgin varð að sviðsmynd fyrir gesti, þar sem heimafólk á ekki erindi nema það nenni að vinna sjálfboðavinnu sem aukaleikarar stund og stund, leika tré og staura, þá hefur rökvísi sviðsmyndarinnar til þessa ekki ratað austur fyrir Kringlumýrarbraut enda hefur fjöldi fyrirtækja flutt starfsemi sína úr miðborginni á þetta svæði. Verslun Guðsteins Eyjólfssonar er nú við Ármúla, tóbaksbúðin Björk við Síðumúla. Bókakaffið við Ármúla var aldrei í miðborginni en á öðrum tímum hefði hún verið það, hún er ekki bara besta bókabúðin í bænum heldur mögulega sú miðborgarlegasta. Þannig mætti áfram telja. Samantalið er allur reksturinn við Ármúlann gagnvart miðborginni svolítið hliðstæður útlagastjórn lands undir hernámi.
Og þrátt fyrir það eru múlarnir þó alls ekki miðbæjarlegir, þeir eru ekki vistvænir, virðast ekki mannvænir. Eina kaffihúsið á svæðinu er Kaffi Mílanó í Skeifunni, þar má fá bolla af ameríkanó á 990 krónur, án stemningar. Nei, í múlana kemur enginn til að hafa það næs, þar ekur fólk bílum til að sinna erindum, oft jafnvel bara einu erindi, leggja fyrir utan eina búð, skoða þar einn hlut eða sækja hann og aka burt með hann aftur. Umferðin er viðvarandi stresskast, að bakka úr stæði er að hætta á fjóra, fimm árekstra í einu. Að ganga Ármúlann er æfing í einmanaleika, langdregið stefnumót við tómlæti tilverunnar. Og einmitt einhvern veginn þess vegna þykir mér gott að vera þar. Þetta minnir allt á raunveruleika. Ég ætla ekki að segja að svona sé raunveruleikinn og miðbærinn sé plat, mér nægir að segja: þetta minnir mig á raunveruleikann eins og ég kynntist honum, eins og ég ólst upp við hann, það er eins og þar snúist tilveran aðeins minna um ásýnd og meira um vesen. Og ég kann því vel. Þar uni ég mér.
Við þetta ætti ég að setja annan fyrirvara: að ég kunni þessu vel þýðir ekki að ég vilji að heimurinn allur verði málaður í þessari mynd. Ekki landið, ekki einu sinni borgin. Pólitískt myndi ég trúlega fallast á hið gagnstæða: kaffihús og göngugötur, já, barnvænt umhverfi og fjölskylduvænt, mannlíf á götunum, það hljómar betur en þetta, lítur betur út á mynd, og er áreiðanlega skemmtilegra heim að sækja, um helgar, á kvöldin, í sumarfríum. En við Ármúla er betra að draga andann. Hann er afkimi, afgangsstærð, lífið sem hrekkur undan sviðsmyndinni, sumt af því sem þarf að gera þó að það eigi ekki heima á sviðinu sjálfu. Borgin baktjaldamegin, kannski. Slíkir staðir eiga eitthvað skylt – að breyttu breytanda – við kærleikann eins og Páll postuli lýsti honum: Ármúlinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann trúir öllu, vonar allt, umber allt. Ef einhver heldur að ég sé að ýkja eða fari með fleipur bendi ég á að við götuna starfa átján dáleiðarar.1
Nú í vikunni ók ég sömu leið og ég geri flesta daga, ók Ármúlann til að fara á skrifstofuna mína, setjast þar við skrifborð, gera mitt. En á leiðinni mætti ég þessum nýmælum: á gangstéttinni stóð manneskja í anúrakk, sneri sér að götunni og leit út fyrir að gera réttmætt tilkall til að komast yfir hana. Ég hægði á bílnum, leit í kringum mig, og sá að það var tilfellið. Gangbrautarskilti beggja vegna við staðfestu það sem blasti þó við fyrir framan mig. Sebrarendur. Ég stöðvaði bílinn, manneskjan gekk yfir götuna, stresslaust, í litríkum fötum og fullum rétti á meðan ég hélt áfram að skima til hægri og til vinstri, reyna að átta mig. Gangbrautin leiddi saman einn óslitinn göngustíg, ofan úr Síðumúla og niður á Suðurlandsbraut. Það sá ég. Kannski er stígurinn enn lengri. Hann virtist beinlínis skemmtilegur. Að þar gæti verið gaman að labba. Og það fóru um mig ónot. Ferlið er hafið. Auðvitað. Svona líka.
Ég hefði getað sagt mér það sjálfur, ekki bara vegna þess að þarna rísa nýjar byggingar allt í kring, íbúðarhús og skrifstofuhúsnæði, og ekki bara vegna þess að Guðsteinn og Björk og Bókakaffið eru þegar á svæðinu, heldur vegna þess að ég er þar og það er vinur minn líka, við höfum skrifstofu hvor í sínu húsinu, að fást við hluti sem er alls ekki augljóst, hagrænt gagn að. Í búningaleik sem fullorðnir menn. Miðaldra statistar í annarri sviðsmynd, okkar eigin, draumi um raunveruleika. Eða rústum hans eða bæði. Ég gat sagt mér það sjálfur, það er beinlínis hlutverk mitt og staður í hagkerfinu, eltir mig eins og gullið elti Mídas konung: þar sem ég stíg niður fæti og uni mér vel, þar er í þá mund að hefjast þetta sem heitir gentrification.2
Ég gef Ármúlanum og nágrenni hans tvö til fimm ár. Eftir tíu ár í mesta lagi munu verkfærabúðin og tölvuíhlutabúðin og heimilistækjabúðin og lampabúðin og saumastofan og dáleiðararnir átján og endurskoðandinn og rakarastofan og ljósmyndastofan þegar hafa hörfað undan framsæknum götubitum, ég mun njóta hvers bita á bakvið tárin, síðan koma hótelin og lundabúðirnar og þá fara tóbaksbúðin og herrafatabúðin og bókabúðin annað líka. Við vinirnir, við erum bæði þefvísir og vitum hvað til okkar friðar heitir, rennum á lyktina af einhverju nýyfirgefnu hjólbarðaverkstæði, Smiðjuhverfið í Kópavogi virðist ekki ólíklegt en hver veit, komum okkur þar fyrir og hefjum störf og einn morguninn gapi ég af undrun þegar ég sé gangandi vegfaranda standa eins og í fullum rétti að komast yfir götuna, ég hægi á bílnum, lít í kringum mig og þar blasir það aftur við …
↑1 | Töluna átján hef ég úr frétt Vísis frá 28. desember 2021: „18 klínískir dáleiðendur í Ármúlanum í Reykjavík“. Ég sem ætlaði bara að gúgla þessa tvo sem ég hafði rekist á sjálfur. Dáleiðurum götunnar gæti auðvitað hafa fækkað eða fjölgað frá því að fréttin birtist, en ég veit ekki til að nokkur dáleiðari starfi við Laugaveg. |
---|---|
↑2 | Gentrifikering? Séntrifering? Allar þýðingar hugtaksins til þessa finnst mér of tilteknar – miðstéttarvæðing, það er ekki rangt, út af fyrir sig, en gentrification getur bæði gengið skemmra og lengra, hefst sem listasenuvæðing, jafnvel bara gangbrautarvæðing, getur lokið sem hreinni efristéttarvæðingu. Fimm stjörnu hótel í miðborginni er hluti af gentrifikeringu en á lítið erindi við miðstéttina. Hagrænt virðist fyrirbærið um þessar mundir öðru fremur snúast um túrisma en þó er það hugsanlega óháð honum líka, gæti haldið áfram þó að annað hreyfiafl tæki við. Ekkert er eilíft í þeim skilningi að vara alla tíð en sumt er eilíft um stundarsakir, í þeim skilningi að virðast takmarkalaust. Og í þeim skilningi er gentrifikering ein helsta eilífðin sem við búum við, hún hefur (ekki í alvöru en samt) alltaf verið og mun (ekki heldur í alvöru en samt) alltaf verða. |