Gang­braut yfir Ármúla

15.2.2025 ~ 6 mín

Það er komin gang­braut yfir Ármúl­ann. Ég hef ekki séð minnst á það í fréttum en ég kaupi ekki heldur Mogg­ann svo hver veit. Þetta er ekki þýðing­ar­laust fyrir okkur sem unnum Ármúl­anum. Ármúl­inn er, hefur verið … hvernig er best að orða það? Eftir­stöðvar raun­veru­leik­ans? Draumur um raunir? Á meðan miðborgin varð að sviðs­mynd fyrir gesti, þar sem heima­fólk á ekki erindi nema það nenni að vinna sjálf­boða­vinnu sem auka­leik­arar stund og stund, leika tré og staura, þá hefur rökvísi sviðs­mynd­ar­innar til þessa ekki ratað austur fyrir Kringlu­mýr­ar­braut enda hefur fjöldi fyrir­tækja flutt starf­semi sína úr miðborg­inni á þetta svæði. Verslun Guðsteins Eyjólfs­sonar er nú við Ármúla, tóbaks­búðin Björk við Síðumúla. Bókakaffið við Ármúla var aldrei í miðborg­inni en á öðrum tímum hefði hún verið það, hún er ekki bara besta bóka­búðin í bænum heldur mögu­lega sú miðborg­ar­leg­asta. Þannig mætti áfram telja. Saman­talið er allur rekst­ur­inn við Ármúl­ann gagn­vart miðborg­inni svolítið hlið­stæður útlaga­stjórn lands undir hernámi.

Og þrátt fyrir það eru múlarnir þó alls ekki miðbæj­ar­legir, þeir eru ekki vist­vænir, virð­ast ekki mann­vænir. Eina kaffi­húsið á svæð­inu er Kaffi Mílanó í Skeif­unni, þar má fá bolla af amer­íkanó á 990 krónur, án stemn­ingar. Nei, í múlana kemur enginn til að hafa það næs, þar ekur fólk bílum til að sinna erindum, oft jafn­vel bara einu erindi, leggja fyrir utan eina búð, skoða þar einn hlut eða sækja hann og aka burt með hann aftur. Umferðin er viðvar­andi stresskast, að bakka úr stæði er að hætta á fjóra, fimm árekstra í einu. Að ganga Ármúl­ann er æfing í einmana­leika, lang­dregið stefnu­mót við tómlæti tilver­unnar. Og einmitt einhvern veginn þess vegna þykir mér gott að vera þar. Þetta minnir allt á raun­veru­leika. Ég ætla ekki að segja að svona sé raun­veru­leik­inn og miðbær­inn sé plat, mér nægir að segja: þetta minnir mig á raun­veru­leik­ann eins og ég kynnt­ist honum, eins og ég ólst upp við hann, það er eins og þar snúist tilveran aðeins minna um ásýnd og meira um vesen. Og ég kann því vel. Þar uni ég mér.

Við þetta ætti ég að setja annan fyrir­vara: að ég kunni þessu vel þýðir ekki að ég vilji að heim­ur­inn allur verði málaður í þess­ari mynd. Ekki landið, ekki einu sinni borgin. Póli­tískt myndi ég trúlega fall­ast á hið gagn­stæða: kaffi­hús og göngu­götur, já, barn­vænt umhverfi og fjöl­skyldu­vænt, mann­líf á götunum, það hljómar betur en þetta, lítur betur út á mynd, og er áreið­an­lega skemmti­legra heim að sækja, um helgar, á kvöldin, í sumar­fríum. En við Ármúla er betra að draga andann. Hann er afkimi, afgangs­stærð, lífið sem hrekkur undan sviðs­mynd­inni, sumt af því sem þarf að gera þó að það eigi ekki heima á svið­inu sjálfu. Borgin baktjalda­megin, kannski. Slíkir staðir eiga eitt­hvað skylt – að breyttu breyt­anda – við kærleik­ann eins og Páll postuli lýsti honum: Ármúl­inn er ekki raup­samur, hreykir sér ekki upp, hann reið­ist ekki, er ekki lang­ræk­inn. Hann trúir öllu, vonar allt, umber allt. Ef einhver heldur að ég sé að ýkja eða fari með fleipur bendi ég á að við götuna starfa átján dáleið­arar.1

Nú í vikunni ók ég sömu leið og ég geri flesta daga, ók Ármúl­ann til að fara á skrif­stof­una mína, setj­ast þar við skrif­borð, gera mitt. En á leið­inni mætti ég þessum nýmælum: á gang­stétt­inni stóð mann­eskja í anúrakk, sneri sér að götunni og leit út fyrir að gera rétt­mætt tilkall til að komast yfir hana. Ég hægði á bílnum, leit í kringum mig, og sá að það var tilfellið. Gang­braut­ar­skilti beggja vegna við stað­festu það sem blasti þó við fyrir framan mig. Sebr­ar­endur. Ég stöðv­aði bílinn, mann­eskjan gekk yfir götuna, stress­laust, í litríkum fötum og fullum rétti á meðan ég hélt áfram að skima til hægri og til vinstri, reyna að átta mig. Gang­brautin leiddi saman einn óslit­inn göngu­stíg, ofan úr Síðumúla og niður á Suður­lands­braut. Það sá ég. Kannski er stíg­ur­inn enn lengri. Hann virt­ist bein­línis skemmti­legur. Að þar gæti verið gaman að labba. Og það fóru um mig ónot. Ferlið er hafið. Auðvitað. Svona líka.

Ég hefði getað sagt mér það sjálfur, ekki bara vegna þess að þarna rísa nýjar bygg­ingar allt í kring, íbúð­ar­hús og skrif­stofu­hús­næði, og ekki bara vegna þess að Guðsteinn og Björk og Bókakaffið eru þegar á svæð­inu, heldur vegna þess að ég er þar og það er vinur minn líka, við höfum skrif­stofu hvor í sínu húsinu, að fást við hluti sem er alls ekki augljóst, hagrænt gagn að. Í búninga­leik sem full­orðnir menn. Miðaldra stati­star í annarri sviðs­mynd, okkar eigin, draumi um raun­veru­leika. Eða rústum hans eða bæði. Ég gat sagt mér það sjálfur, það er bein­línis hlut­verk mitt og staður í hagkerf­inu, eltir mig eins og gullið elti Mídas konung: þar sem ég stíg niður fæti og uni mér vel, þar er í þá mund að hefjast þetta sem heitir gentrification.2

Ég gef Ármúl­anum og nágrenni hans tvö til fimm ár. Eftir tíu ár í mesta lagi munu verk­færa­búðin og tölvuíhluta­búðin og heim­ilis­tækja­búðin og lampa­búðin og sauma­stofan og dáleið­ar­arnir átján og endur­skoð­and­inn og rakara­stofan og ljós­mynda­stofan þegar hafa hörfað undan fram­sæknum götu­bitum, ég mun njóta hvers bita á bakvið tárin, síðan koma hótelin og lunda­búð­irnar og þá fara tóbaks­búðin og herrafata­búðin og bóka­búðin annað líka. Við vinirnir, við erum bæði þefvísir og vitum hvað til okkar friðar heitir, rennum á lykt­ina af einhverju nýyf­ir­gefnu hjól­barða­verk­stæði, Smiðju­hverfið í Kópa­vogi virð­ist ekki ólík­legt en hver veit, komum okkur þar fyrir og hefjum störf og einn morg­un­inn gapi ég af undrun þegar ég sé gang­andi vegfar­anda standa eins og í fullum rétti að komast yfir götuna, ég hægi á bílnum, lít í kringum mig og þar blasir það aftur við …

References
1 Töluna átján hef ég úr frétt Vísis frá 28. desem­ber 2021: „18 klín­ískir dáleið­endur í Ármúl­anum í Reykja­vík“. Ég sem ætlaði bara að gúgla þessa tvo sem ég hafði rekist á sjálfur. Dáleið­urum götunnar gæti auðvitað hafa fækkað eða fjölgað frá því að fréttin birt­ist, en ég veit ekki til að nokkur dáleið­ari starfi við Laugaveg.
2 Gentrifiker­ing? Séntri­fer­ing? Allar þýðingar hugtaks­ins til þessa finnst mér of tilteknar – miðstétt­ar­væð­ing, það er ekki rangt, út af fyrir sig, en gentrification getur bæði gengið skemmra og lengra, hefst sem lista­senu­væð­ing, jafn­vel bara gang­braut­ar­væð­ing, getur lokið sem hreinni efristétt­ar­væð­ingu. Fimm stjörnu hótel í miðborg­inni er hluti af gentrifiker­ingu en á lítið erindi við miðstétt­ina. Hagrænt virð­ist fyrir­bærið um þessar mundir öðru fremur snúast um túrisma en þó er það hugs­an­lega óháð honum líka, gæti haldið áfram þó að annað hreyfiafl tæki við. Ekkert er eilíft í þeim skiln­ingi að vara alla tíð en sumt er eilíft um stund­ar­sakir, í þeim skiln­ingi að virð­ast takmarka­laust. Og í þeim skiln­ingi er gentrifiker­ing ein helsta eilífðin sem við búum við, hún hefur (ekki í alvöru en samt) alltaf verið og mun (ekki heldur í alvöru en samt) alltaf verða.